28.02.1978
Sameinað þing: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2670 í B-deild Alþingistíðinda. (1953)

84. mál, söluskattur af útfluttum iðnaðarvörum

Flm. (Albert Guðmundsson) :

Herra forseti. Á síðasta þingi bar ég fram fsp. til hæstv. fjmrh. um endurgreiðslu ríkissjóðs á uppsöfnuðum söluskatti af útfluttum iðnaðarvörum. Svör hæstv. fjmrh. urðu mér og samtökum iðnaðarins mikil vonbrigði. Því hef ég leyft mér að flytja svo hljóðandi till. til þál. á þskj. 96, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að endurgreiða fyrir júnílok 1973 uppsafnaðan söluskatt á útfluttum iðnaðarvörum áranna 1975, 1976 og 1977.

Jafnframt ályktar Alþ., að uppsafnaður söluskattur af útfluttum iðnaðarvörum skuli endurgreiddur framvegis þar til virðisaukaskattur hefur verið tekinn upp hérlendis eða aðrar sambærilegar ráðstafanir gerðar til að jafna samkeppnisaðstöðu íslensks iðnaðar.“

Í grg. segir m. a. með leyfi forseta:

Till. þessi er flutt í framhaldi af svari hæstv. fjmrh. við fsp. minni varðandi sama efni á þskj. 26, en í því svari kom fram, að hæstv. ríkisstj. hefur ákveðið að endurgreiða ekki uppsafnaðan söluskatt af útfluttum iðnaðarvörum fyrir árin 1975 og 1976, en standa í skilum varðandi endurgreiðslu fyrir árið 1977.

Þetta svar hæstv. fjmrh. hefur valdið vonbrigðum, eins og fram kom í umr. er spunnust um fsp. mína og svar fjmrh., en þá tóku nokkrir þm. til máls og létu þeir allir í ljós þá ósk, að ríkisstj. endurskoðaði afstöðu sína í þessu máli.

Í svari sínu gat hæstv. fjmrh. þess, að gengisbreyting árið 1975 hefði bætt hag útflutningsiðnaðarins árin 1975 og 1976 og því þyrfti ekki að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt til aðila útflutningsiðnaðarins fyrir þau ár.

Það er skoðun mín, að endurgreiðsla á söluskatti eigi ekki að vera háð sveiflum í rekstri þeirra, er hann eiga að fá. Endurgreiðsla söluskatts til atvinnuveganna á að lúta sömu reglum og söluskattsskil til ríkissjóðs.

Þá er gert ráð fyrir að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt á útfluttum iðnaðarvörum, þar til virðisaukaskattur kemur til framkvæmda hérlendis eða aðrar hliðstæðar ráðstafanir verða lögfestar, er jafna samkeppnisaðstöðu íslenskra iðnfyrirtækja.

Till. þessi er flutt til að auðvelda ríkisstj. að taka nýja ákvörðun í þessu máli, enda er hér um skil á þegar innheimtum skatti að ræða, sem endurgreiða ber til útflutningsiðnaðarins.“

Herra forseti. Við umr. um fsp. mína til hæstv. fjmrh. á síðasta þingi, um endurgreiðslu á uppsöfnuð um söluskatti vegna útflutningsframleiðslu iðnaðarvara, lýsti ráðh. því yfir, að ríkissjóður mundi greiða umræddan skatt fyrir 1977, en ekki árin 1975 og 1976, eins og ég gat um. Ég hef það fyrir satt, að enn hefur fjmrh. ekki komið því í verk að inna þessar greiðslur af hendi. Félag ísl. iðnrekenda, Iðja, félag verksmiðjufólks og framkvæmdastjórn Sambands ísl. samvinnufélaga hafa lýst eindregnum stuðningi við þessa þáltill.

Ég vil leyfa mér að vitna hér — með leyfi forseta — í kafla úr bréfi Félags ísl. iðnrekenda um þessa þáltill. sem hljóðar svo:

„Félag ísl. iðnrekenda lýsir yfir ánægju sinni með fram komna till. til þál. og beinir þeim eindregnu tilmælum til hv. alþm., að þeir styðji hana. Með þeirri afgreiðslu málsins, sem till. gerir ráð fyrir, væri rutt úr vegi einni alvarlegustu samkeppnishindrun útflutningsiðnaðar.“

Þá vil ég einnig — með leyfi forseta — lesa bréf um sama efni sem barst frá Landssambandi iðnverkafólks. Það er svo hljóðandi, stílað til Alþingis:

„Stjórn Landssambands iðnverkafólks lýsir hér með mjög eindregnu fylgi sínu við þær skoðanir, sem fram koma í bréfi FÍI, dags. 16.11. 1977, varðandi þáltill. vegna uppsafnaðs söluskatts á útfluttum iðnaðarvörum, og tekur undir þau tilmæli til hv. alþm., að þeir styðji tillöguna.“

Til frekari rökstuðnings máli mínu vil ég leyfa mér að lesa bréf frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, það er dags. 3. febr. í ár, en þar segir:

„Hjálagt sendum vér áskorun til Alþingis frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, sem við mælumst til að þér komið á framfæri við hlutaðeigandi aðila.“

Áskorun sú, sem vitnað er i, er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi eru kunnir þeir stórfelldu fjárhagsörðugleikar, sem útflutningsgreinar iðnaðarins eiga við að búa og nú eru orðnir slíkir, að við blasir gagnger samdráttur verði ekki að gert. Einn margra þátta þessa vanda er uppsafnaður söluskattur í kostnaðarverði útfluttra iðnaðarvara, sem stjórnvöld hafa í reynd viðurkennt óréttláta með endurgreiðslu á skattskilum fyrir árin 1973, 1974 og 1977. Þrátt fyrir umleitan hefur enn ekki fengist leiðrétting á greiðslum fyrir árin 1975 og 1976, en sökum fram kominnar þáltill. í þessa átt beinir framkvæmdastjórn Sambands ísl. samvinnufélaga þeirri eindregnu ósk til alþm., að þeir ljái þessu réttlætismáli stuðning við afgreiðslu þáltill.

Þá er rétt að ég fái enn fremur leyfi forseta til þess að vitna til ályktunar, sem gerð var á fundi um málefni ullariðnaðarins á Hótel Esju 3. febr., en þar segir:

„Skilyrði þess, að ullariðnaður á Íslandi þróist eðlilega, er þó fyrst og fremst að unnið sé markvisst að málum þessa iðnaðar, að sköpuð séu eðlileg skilyrði fyrir uppbyggingu hans og að stjórnvöld sýni í reynd, að þau vilji þennan atvinnuveg ekki feigan, t. d. með því að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt áranna 1975, 1976 og 1977 nú þegar. Það mundi koma í veg fyrir algert greiðsluþrot ullariðnaðarins um tíma.“

Herra forseti. Ég vek athygli á að fyrrv. ríkisstj. endurgreiddi fyrir árið 1973 umræddan uppsafnaðan söluskatt og í framhaldi af því fyrir árið 1974 til 1. sept. það ár, en þá var því hætt, tveimur mánuðum eftir að hæstv. núv. ríkisstj. tók við völdum. Þá var borið við gengisfellingu sem varð um þetta leyti. Í ársbyrjun 1977 var útflytjendum almennra iðnaðarvara tilkynnt, að ríkissjóður væri reiðubúinn að endurgreiða söluskatt fyrir þá 4 mánuði ársins 1974 sem áður höfðu verið skildir eftir. Þar með hefur ríkissjóður fallið frá viðbárunni um ranga gengisskráningu. Hinar miklu kauphækkanir og kostnaðarhækkanir sem orðið hafa hér á landi á þessu og undanförnum árum, og raunar ört vaxandi dýrtíð hafa komið harðast niður á útflutningsframleiðslunni, þar sem ekki er hægt að velta þessari verðhækkun út í verðlagið, eins og gert er með vörur sem seldar eru á innanlandsmarkaðnum. Í framsöguræðu minni benti ég á, að nauðsyn bæri til að koma þessum málum í fast form, þannig að greitt og endurgreitt væri í svipuðum krónum. Nú eru iðnrekendur að rukka ríkissjóð um allt að 30–40 mánaða gamla skuld. Þeir fá greitt í verðminni krónum en þeir á sínum tíma létu út og það án vaxta. Á sama tíma krefst ríkissjóður dráttarvaxta hjá þessum sömu aðilum vegna ógreiddra skatta, allt að 36% á ári. Ég vil leyfa mér að halda því fram, að hér sé ranglæti á ferð sem beri að leiðrétta.

Ég vil þá benda á, að ár iðnaðarins er nýliðið. Á þessu ári hafa mörg hástemmd lofsyrði fallið frá ráðamönnum, að verðleikum, í garð iðnaðarins. En það þarf helst að gera meira en að tala. Það þarf að láta verkin tala, og eitt af því sem þarf að gera án tafar og ég treysti hv. þm. til, er að samþykkja að endurgreiða uppsafnaðan söluskatt af útflutningsiðnaðarvörum fyrir árin 1975, 1976, 1977 og mér liggur við að segja: skylda ríkisstj. til að standa í skilum. Ég vil hvetja alla til þess að hjálpa íslenskum útflutningsiðnaði að því leyti sem það er í okkar valdi. Þótt samþykkt á þessari þáltill. leysi ekki allan vanda viðkomandi iðnaðarfyrirtækja. þá hjálpar samþykkt á þáltill. útflutningsiðnaðinum mikið, sér í lagi þeim útflutningsaðilum sem telja sig eiga inni hjá ríkissjóði hærri upphæð en sömu fyrirtæki skulda í opinber gjöld á þeim háu dráttarvöxtum sem ég gat um hér á undan.

Herra forseti. Ég geri ekki till. um að máli þessu verði vísað í n., en vona að hæstv. forseti sjái svo um, að síðari umr. um þessa þáltill. geti farið fram hið fyrsta til þess að málið fái fullnaðarafgreiðslu Alþ. hið bráðasta. því að iðnfyrirtæki útflutningsgreinanna bíða eftir ákvörðun okkar, nú þegar eru sum hver komin í vanda með sín opinberu gjöld.