28.02.1978
Sameinað þing: 50. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2686 í B-deild Alþingistíðinda. (1964)

198. mál, hagstofnun launþega og vinnuveitenda

Flm. (Jóhannes Árnason) :

Herra forseti. Á þskj. 392 hef ég ásamt hv. 8. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni, leyft mér að flytja till. til þál. um hagstofnun launþega og vinnuveitenda, sáttastörf í vinnudeilum o. fl. Þessi till. er að verulegu leyti hliðstæð till. til þál., sem var flutt á þinginu 1971–1972 af þeim núv. hæstv. félmrh., Gunnar Thoroddsen, og hv. 8. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni. Á það einkum við um fyrri hluta þessarar till., sem snýr að starfi ríkissáttasemjara.

Tillgr. hljóðar svo:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að beita sér fyrir því, að sett verði á fót sameiginleg hagstofnun launþega og vinnuveitenda, er hafi það markmið að efla sáttastarf í vinnudeilum, sætta vinnu og fjármagn og bæta að öðru leyti samskipti launafólks og atvinnurekenda.

Skipa skal 7 manna nefnd til að semja frv. til l. um þessi efni. Skal frv. m. a. fela í sér eftirtalin atriði:

1. Starf ríkissáttasemjara verði gert að aðalstarfi og skal hagstofnun launþega og vinnuveitenda heyra undir embætti hans. Að öðru leyti verði starf ríkissáttasemjara sem sjálfstæðast. Hann hafi með höndum það verkefni að stuðla að vinnufriði í landinu og starfi í nánum tengslum við samtök launþega og vinnuveitenda.

2. Ríkissáttasemjari skal að staðaldri fylgjast með ástandi og horfum í atvinnumálum og með þróun launa- og kjaramála. Hann hafi vakandi auga með því, ef vinnudeila er í uppsiglingu, og beiti áhrifum sínum, svo sem verða má í tæka tíð, til þess að samkomulag náist.

3. Hagstofnun launþega og vinnuveitenda skal vera aðilum vinnumarkaðarins til ráðuneytis um hagfræðileg efni við undirbúning og gerð kjarasamninga og stuðla að því að kjarasamningar á hverjum tíma færi launþegum raunverulegar kjarabætur, án þess að koma þurfi til ófriðar á vinnumarkaðnum og vaxandi verðbólgu af þeim sökum.

4. Stofnunin skal að staðaldri vinna að rannsóknum og tillögugerð um leiðir til að sætta vinnu og fjármagn, bæta samskipti launþega og vinnuveitenda í hinum ýmsu greinum atvinnulífsins og stuðla á þann hátt að meiri festu í þróun kjaramála og bættum lífskjörum alls almennings í landinu.

5. Stofnunin skal eiga náið samstarf við Þjóðhagsstofnun og skal í störfum sínum eiga aðgang að þeim skýrslum, sem Þjóðhagsstofnun semur um þróun þjóðarbúskapar og horfur í þeim efnum, þ. á m. um framleiðslu, neyslu, fjárfestingu, viðskipta- og greiðslujöfnuð, verðlag og kaupgjald atvinnu og tekjur almennings, afkomu atvinnuveganna og fjármál hins opinbera og eiga aðild að söfnun upplýsinga um þessi efni og úrvinnslu þeirra, eftir því sem þörf krefur og nánar verður ákveðið. Enn fremur skal stofnunin eiga samstarf við aðra þá aðila, er fást við rannsóknir og meðferð kjaramála í landinu, svo sem Kjararannsóknanefnd, eftir því sem tilefni þykir vera til.

Nefndin skili áliti fyrir næsta reglulegt Alþingi. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Það er tilgangurinn með þessari þáltill. að stuðla að friðsamlegri lausn á vinnudeilum með auknu sáttastarfi og nánara samstarfi launþega og vinnuveitenda en verið hefur við undirbúning og gerð kjarasamninga, með það sjónarmið í huga að koma á meiri festu í þróun kjaramála og öðrum þeim samskiptum aðila vinnumarkaðarins, er verða mætti til úrbóta í þessum efnum til langs tíma.

Till. gerir ráð fyrir tveimur atriðum, sem skoðast verða ný í þessu sambandi. Það er í fyrsta lagi, að starf ríkissáttasemjara verði gert að aðalstarfi, í öðru lagi, að nánara samstarf verði milli launþega og vinnuveitenda en verið hefur við undirbúning og gerð kjarasamninga, þar sem gert er ráð fyrir sérstakri hagstofnun eða deild sem starfi við embætti ríkissáttasemjara, sem yrði stofnað.

Til upprifjunar má geta þess, að árið 1925 voru sett lög um sáttatilraunir í vinnudeilum. Árið 1938 voru þau lög felld inn í lög nr. 80 frá 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, þá með nokkrum breytingum. Árið 1926 var sáttasemjari ríkisins fyrst skipaður. Í það starf valdist fyrstur manna dr. Björn Þórðarson, síðar forsrh., og gegndi hann því til ársins 1942. Þó tók Jónatan Hallvarðsson, síðar hæstaréttardómari, við starfi sáttasemjara og gegndi því til 1945, er núv. sáttasemjari, Torfi Hjartarson, fyrrv. tollstjóri tók við því. Óhætt mun að fullyrða, að allir hafa þessi sáttasemjarar notið óskoraðs trausts jafnt launamanna sem vinnuveitenda fyrir samviskusemi, þrautseigju og réttsýni. En sáttasemjarastarfið hefur alla tíð verið aukastarf við hliðina á annasömu embætti. Við flm. þessarar till. erum þeirrar skoðunar, að nú sé orðið tímabært að gera starf ríkissáttasemjara að fullu starfi. Kjaramálin eru orðin svo umfangsmikill og veigamikill þáttur í þjóðfélaginu, að æskilegt er að ríkissáttasemjari geti helgað sig þeim alfarið. Till. gerir því ráð fyrir, að starf ríkissáttasemjara verði gert að föstu starfi. Nauðsynlegt er að sáttasemjari sé sjálfstæður og óháður embættismaður og hafi aðstöðu til þess að haga svo störfum sínum, að hann njóti fulls trúnaðar hjá báðum aðilum vinnumarkaðarins. Þarf að búa svo að starfinu, að þessum tilgangi verði náð.

Sáttasemjari þarf því að vera að störfum allt árið og fylgjast að staðaldri með ástandi atvinnumála og þróun í launamálum. Aðilar eiga að geta leitað aðstoðar hans og fyrirgreiðslu á hvaða stigi mála sem er, þótt ekki hafi slitnað upp úr samningaumleitunum eða vinnustöðvun verið boðuð. Eins á sáttasemjari að geta boðið fram aðstoð sína og milligöngu hvenær sem er, þótt ekki sé í hnút komið. Ríkissáttasemjari þarf að fá aukin völd í sambandi við lausn á vinnudeilum. Vil ég í því sambandi t. d. nefna einhliða vald til að fresta boðaðri vinnustöðvun í nokkra daga þegar þannig stendur á, að líkur eru til þess að lausn á vinnudeilu sé í sjónmáli, aðeins dagaspursmál hvenær vænta megi lausnar á henni.

Svo ég víki þá að hinu atriðinu í þessari till., nánara samstarfi milli launþega og vinnuveitenda. Þá er þar fyrst til að taka, að samkv. lögum nr. 54 frá 1974, 6. tölul. 2. gr., um Þjóðhagsstofnun og breytingu á lögum nr. 93 frá 1971, um Framkvæmdastofnun ríkisins, er gert ráð fyrir því, að meðal verkefna Þjóðhagsstofnunar sé að veita aðilum vinnumarkaðarins upplýsingar um efnahagsmál og annast fyrir þá hagfræðilegar athuganir, eftir því sem um kann að semjast. Svo er að skilja, að þarna sé átt við aðila vinnumarkaðarins hvorn út af fyrir sig, enda hygg ég að þannig hafi þetta verið gjarnan í framkvæmd, þar sem bæði Alþýðusamband Íslands og Vinnuveitendasamband Íslands hafa hagfræðilega þjónustu fyrir sig, svo sem kunnugt er.

Tilgangur þessarar till. er enn fremur að færa nánar út þetta lagaákvæði á þann veg, að í stað þess að aðilar vinnumarkaðarins, hvor í sínu lagi, fái upplýsingar um efnahagsmál frá Þjóðhagsstofnun, sem er ríkisstofnun, og vinni hvor í sínu lagi að þessum málum, þá komi sérstök stofnun eða deild, sameiginleg fyrir báða aðila, er starfi við embætti ríkissáttasemjara og undir hans stjórn sem hlutlauss aðila. Jafnframt er gert ráð fyrir náin samstarfi við Þjóðhagsstofnun og aðra þá aðila sem fást við rannsóknir og meðferð kjaramála í landinu. svo sem Kjararannsóknarnefnd, varðandi söfnun upplýsinga og úrvinnslu þeirra. Það mætti hugsa sér við undirbúning þessa máls að taka til athugunar, hvort væntanleg stofnun eða deild á vegum sáttasemjara ætti þá að taka við störfum Kjararannsóknarnefndar.

Sú nýja stofnun, sem þessi till. fjallar um, ætti að öðru leyti að vera sjálfstæð og byggð upp gagngert og sameiginlega af aðilum vinnumarkaðarins, þ. e. annars vegar samtökum vinnuveitenda og hins vegar hinum fjölmennu samtökum launafólks í landinu, sem aðilum að frjálsum samningum um kaup og kjör á vinnumarkaðinum. Með þessu móti mætti koma á mjög nánu samstarfi aðila vinnumarkaðarins sjálfra um þá hagfræðilegu og að öðru leyti sérfræðilegu starfsemi sem er óhjákvæmilegur þáttur í undirbúningi og gerð kjarasamninga á vinnumarkaðnum í nútímaþjóðfélagi. Ef vel tekst til í þessu sambandi, ætti slíkt fyrirkomulag og samstarf, byggt á faglegum grundveili, að geta stuðlað að gagnkvæmu trausti launþega og vinnuveitenda við lausn jafnþýðingarmikilla mála og kjarasamningar eru fyrir almenning í landinu, eðlilega þróun atvinnuvega landsmanna og þjóðarhag. Í þessu sambandi er grundvallaratriði að greiða fyrir kjarasamningum á þann veg, og á það legg ég áherslu, að þær kjarabætur, sem um er samið á hverjum tíma, nái tilgangi sínum og komi launþegum raunverulega til góða.

Þessi þáltill. byggir á frjálsum kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins án beinnar íhlutunar ríkisvaldsins, að öðru leyti en því sem tekur til sáttastarfs og forustu ríkissáttasemjara í því sambandi. Ég legg áherslu á það, að það er grundvallaratriði að koma á gagnkvæmu trausti á milli aðila vinnumarkaðarins, aðilanna að kjarasamningum varðandi upplýsingasöfnun, úrvinnslu upplýsinga og gagna og hagfræðilegar ráðleggingar. Það er skoðun mín, að þetta markmið náist best með samstarfi þessara aðila undir handleiðslu ríkissáttasemjara, svo sem till. gerir ráð fyrir.

Í þessu sambandi er ekki hjá því komist að geta þess, að við Íslendingar höfum nú orðið áratugareynslu af því fyrirkomulagi, sem hefur gilt við gerð kjarasamninga og samskipti launþega og vinnuveitenda, allt frá því að gildandi lög um þessi efni, þ. e. a. s. lög nr. 80 frá 1938, um stéttarfélög og vinnudeilur, tóku gildi. Það verður að segjast eins og er, að öll sú saga er öðrum þræði hálfgerð raunasaga, og ég held að það sé kominn tími til að menn staldri nú við og hugleiði, hvort ekki sé þörf á að taka upp ný vinnubrögð í þessum efnum í samræmi við breyttar þjóðfélagsaðstæður, þar sem meira verði byggt á þeim margháttuðu upplýsingum, sem jafnan liggja fyrir um þróun þjóðarbúskaparins og einstakra þátta hans, þjóðhagsspá o. s. frv.

Það er ljóst, að mikið hefur áunnist í kjaramálum og margvíslegum félagslegum réttindum launþega og alls almennings í landinu á síðustu 30–40 árum, bæði vegna samninga aðila vinnumarkaðarins og fyrir atbeina löggjafarvalds og stjórnvalda. Er slíkt eðlilegt og liður í þjóðfélagslegri þróun þessa tímabils. En það haggar ekki þeirri staðreynd, að hvað beint kaupgjald snertir hefur þetta tímabil einkennst af stöðugum víxlhækkunum kaupgjalds og verðlags, oftast með vísitölufyrirkomulagi. Þá hefur kauphækkunum verið velt út í verðlagið, þar sem því hefur verið við komið, svo sem innanlands. Verð vöru og þjónustu hefur hækkað, svo og allur tilkostnaður við útflutningsatvinnuvegina, sem eru háðir markaðsverði erlendis og gengisskráningu. Þegar ósamræmið á milli verðlags og alls tilkostnaðar innanlands annars vegar og markaðsverðs erlendis hins vegar hefur náð vissu marki og stöðvun atvinnuveganna og atvinnuleysi hefur blasað við, hefur allajafna verið gripið til þess gamalkunna ráðs að fella gengið til að fá fleiri krónur og rétta við í bili. Síðan hefur sama veltan getað byrjað á nýjan leik.

Það er ekki óeðlilegt, að menn staldri við og spyrji, hvað hafi í rauninni áunnist á þessu tímabili, hver hafi orðið aukning kaupmáttar launa og hvaða raunverulegar kjarabætur launþegar hafi fengið í sinn hlut. Hver er árangur alls þess erfiðis og verkfallsbaráttu þeirrar, sem verkalýðshreyfingin í landinu, ekki hvað síst hinir lægst launuðu, hefur gengið í gegnum á þessu tímabili í þeirri góðu trú að verið væri að vinna að hættum lífskjörum, og hvað hefur þetta kostað þjóðina? Ég man ekki betur en fram hafi komið í fjölmiðlum upplýsingar um þessi efni ekki alls fyrir löngu. — Það var hreint ekkert fögur mynd sem þar var upp dregin.

Allt frá stríðsárunum síðari hefur yfirleitt verið viðvarandi verðbólga á Íslandi langt umfram það sem verið hefur í nágrannalöndum okkar og helstu viðskiptalöndum. Afleiðingar verðbólgunnar eru alkunnar. Þær virðast skjóta upp kollinum hvarvetna í þjóðlífinu með ótöldum, en alkunnum vandamálum. Það virðist vera orðinn ríkjandi ákveðinn hugsunarháttur í takt við verðbólguna og við skulum ekki gleyma því, að fjölmargir aðilar beinlínis spila á kerfið.

Orsakir verðbólgunnar eru auðvitað margslungnar. Það má öllum vera um kunnugt. Ég ætla ekki að fara nánar út í þá hluti hér. En ég vil aðeins benda á, að samskipti launþega og vinnuveitenda á liðnum árum og oft óraunhæfar beinar kauphækkanir eru ekki eina orsök vandans. Þar koma vissulega fleiri þættir til, ekki síst þáttur sjálfs ríkisvaldsins vegna stjórnunar fjármála, fjárfestingarmála, peningamála og efnahagsmála almennt, sem oft hafa verið á þann veg, að aðgerðir stjórnvalda hafa skapað þenslu og verið verðbólguhvetjandi. Má í því sambandi nefna þegar opinberir aðilar hafa dregið vinnuaflið frá atvinnuvegunum í góðæri og beint því í margháttaðar opinberar framkvæmdir og fjárfestingu, — fjárfestingu sem oft hefði mátt bíða jafnvel og verið betur komin á þeim tímum þegar öðruvísi aðstæður væru fyrir hendi. Annars má kannske lýsa vinnubrögðum okkar Íslendinga í þessu verðbólguþjóðfélagi með fjórum orðum: Of mikið, of fljótt. — Er það ekki einmitt þetta, sem er hinn rauði þráður verðbólguvandans? Mér virðist að það sé þannig, að hér telji velflestir sig þurfa að keyra á fullu. Boginn er spenntur hátt og kapphlaupið við sífellt minnkandi verðbólgukrónur heldur áfram í meira og minna óhagkvæmri fjárfestingu og stéttaátökum.

Þessi till. gerir einnig ráð fyrir athugun á samskiptum aðila vinnumarkaðarins á víðari grundveili og sem langtímamarkmið. Hún gerir ráð fyrir því, að í væntanlegri hagstofnun aðila vinnumarkaðarins verði unnið að rannsóknum og tillögugerð varðandi leiðir til að sætta vinnu og fjármagn, þessa tvo meginþætti allrar verðmætasköpunar. Ég held að það sé óhætt að fullyrða, að við Íslendingar séum komnir ákaflega stutt áleiðis í þessum efnum. Öll orkan hefur farið í að leysa vinnudeilur og þrætur um prósentuhækkanir á laun og vísitölubætur. Og þau tilvik, sem upp koma í þessu sambandi, skipta oft tugum á hverju einasta ári, svo sem kunnugt er. En við höfum ekki staldrað við og gert okkur fyllilega grein fyrir því, hvaða leiðir væri æskilegt eða heppilegt að fara til að freista þess að koma á meiri festu í þróun kjaramálanna sem langtímamarkmið. Brýna nauðsyn ber til að taka þessi mál til rækilegrar skoðunar og freista þess að finna leiðir er geti stuðlað að meiri festu í þróun kjaramála í framtíðinni. En hér er átt við það, að á sé að byggja einhverri kjölfestu, ef svo má að orði komast, í launakjörum starfsmanna, en ekki bara fjallað um beinar kauphækkanir í krónutölu og prósentu. Þær hækkanir, sem um er samið, verða að vera raunverulegar kjarabætur. Það eru auðvitað engar kjarnbætur fólgnar í því að fá hækkanir í krónutölu út á verðmæti, sem ekki eru til. Aukin seðlavelta í umferð umfram það, sem raunveruleg verðmætasköpun í þjóðfélaginu á hverjum tíma gefa tilefni til, er auðvitað ekkert annað en ávísanir á ímyndaðar innistæður, sem svo reynast ekki vera fyrir hendi. Slíkt verkar auðvitað sem bensín á bál verðbólgunnar.

Í þessum efnum hafa ýmsar leiðir verið reyndar, bæði hér á landi og annars staðar, til að bæta sambúð aðila vinnumarkaðarins og til að brúa bilið til að draga úr viðsjárverðum átökum. Hér koma mörg atriði til athugunar, svo sem samstarfsnefndir, starfsmat, ákvæðisvinna og bónuskerfi ýmiss konar, eins og nefnt er hér í grg., og aukið atvinnulýðræði. Síðast, en ekki síst ber svo að nefna uppbyggingu atvinnuveganna í framtíðinni með beinni aðild og þátttöku launþega og alls almennings í atvinnufyrirtækjum með hlutafélagsformi, einkum þegar um það er að ræða að leysa stór verkefni, svo sem meiri háttar iðnfyrirtæki og verksmiðjur með fjölmennu starfsliði. Mætti í þessu sambandi hugsa sér, að fastir starfsmenn í slíkum fyrirtækjum ættu þess að jafnaði kost að eignast hlutabréf í þeim eftir ákveðnum reglum og samningum. Það er enginn vafi á því, að ýmiss konar iðnaður er það sem mestu máli skiptir í uppbyggingu atvinnulífsins á Íslandi í náinni framtíð, og á ég þá bæði við fiskiðnað og verksmiðjuiðnað í sambandi við áframhaldandi rafvæðingu og orkuvinnslu í landinu. Í slíkum iðjuverum og verksmiðjum vinnur fjölmennt starfslið. Ég er þeirrar skoðunar, að þegar við Íslendingar ráðumst í að leysa þannig stór verkefni í atvinnulífinu, þá eigum við ekki alltaf að einblína á ríkisvaldið, eins og raunin hefur yfirleitt orðið hér í sambandi við lausn þessara mála, svo sem áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju, — álverið í Straumsvík og járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði, sem nú er í smiðum, byggir ríkið svo í samvinnu við erlenda aðila. Ég tel að slík fyrirtæki eigi að byggja á vegum hlutafélaga á breiðum grundvelli. Eflaust yrði ríkið að vera stór aðili að svo stórum og fjárfrekum fyrirtækjum, eins og fjármunamyndun er háttað hér á landi nú, og jafnvel erlendir aðilar, við því er í sjálfu sér ekkert að segja. En það á að gefa starfsmönnum þessara fyrirtækja kost á að eignast hlutabréf í þeim, sem einhverju nemur.

Nú segir það sig auðvitað sjálft, að verkamenn og aðrir starfsmenn snara ekki út háum upphæðum til hlutabréfakaupa í upphafi, heldur á að taka þetta upp í samninga fyrirtækisins og starfsmannanna, þannig að starfsmenn geti eignast ákveðna upphæð í hlutabréfum á hverju ári, — og þá á ég við hlutabréfaeign sem einhverju máli skiptir. Á þennan hátt ætti að skapast meira traust á milli fyrirtækisins og starfsmanna þess og þar með draga úr deilum og viðsjám. Og þetta verkefni og annað, sem þarf að vinna að í þessu sambandi, er einmitt að mínu áliti framtíðarmál sem þarf að huga að á þessum vettvangi.

Ég vil nefna það, að við erum hér með í gildi lög um skyldusparnað, sem mig minnir 1000 millj. á ári, þar sem menn eru samkv. lögum skyldaðir til að kaupa spariskírteini af ríkinu til að það geti staðið undir útgjöldum sínum, m. a. til þess að leggja fjármagn beint í verksmiðjur og atvinnutæki og auðvitað til annarra hluta. Hví skyldi þetta fjármagn ekki eins geta gengið inn í atvinnulífið? Og það þarf að gera meira. Það þarf að gefa öllum almenningi í landinu kost á að eignast hlut í stórum atvinnufyrirtækjum. Það styrkir stöðu þeirra og hefur sína þýðingu á vinnumarkaðinum. En til þess að gera þetta mögulegt þarf hins vegar margt að breytast. Það verður að draga verulega úr verðbólgunni og það þarf að breyta mörgum lögum, svo sem lögum um hlutafélög, sem eru orðin gömul og úrelt, en nýtt frv. mun nú vera komið fram um þau efni. Þá þarf að gera vissar breytingar á skattalögunum og sömuleiðis vinnulöggjöfinni. Ég ætla ekki við þetta tækifæri að fara nánar út í þessa hluti, enda þessu skotið að hér í leiðinni.

Ég vil að lokum leggja á það áherslu, að þau mál, sem þessi þáltill. fjallar um, sáttastörf í vinnudeilum og bætt samskipti og samstarf aðila vinnumarkaðarins, bæði við undirbúning og gerð kjarasamninga hverju sinni og ráðstafanir til að sætta vinnu og fjármagn sem langtímamarkmið á breiðari grundvelli, eru einhver þau þýðingarmestu mál sem leysa þarf hér á landi í dag. Ástandið í þessum efnum, eins og það er nú, er nánast sagt alveg óþolandi. Starfað er eftir vinnulöggjöf sem er víðs fjarri því að vera í nokkru samræmi við aðstæður í nútímaþjóðfélagi á Íslandi, enda þótt þessi lög hafi eflaust átt fullan rétt á sér þegar þau voru sett árið 1938. Þau voru þá tvímælalaust það haldreipi sem verkalýðshreyfingin þurfti á þeim tíma á að halda. Ég ætla ekki að ræða einstök atriði í þessu sambandi, en það er margt í þessum lögum sem vissulega þarf að breyta. En sú þáltill., sem hér er til umr., byggist á því að áfram verði kjarasamningar launþega og vinnuveitenda leystir með frjálsum samningum. Ég hygg að það sé skoðun þeirra, sem vinna að þessum málum, launþegasamtakanna og vinnuveitenda, að það sé og verði framvegis affarasælast í þessu sambandi. Ef vel tekst til enda í anda þeirrar meginstefnu, sem felst í þessari till. og ég hef reynt að skýra í stórum dráttum í þessari framsöguræðu, þá er ég þeirrar skoðunar, að koma mætti á mjög viðunandi ástandi í þessum efnum, þ. e. stéttasamstarfi í stað stéttastríðs. Ég held að allur almenningur í landinu sé fyrir löngu búinn að fá meira en nóg af því fyrirkomulagi, sem nú gildir í kjaramálunum, með tilheyrandi verkföllum og ómældum vandamálum og tjóni fyrir alla aðila þegar upp er staðið. Nýtt fyrirkomulag við meðferð þessara mála í samræmi við aðstæður í nútímaþjóðfélagi ætti að vera eitt aðalviðfangsefni Alþ. og ríkisstj. nú þegar og á næstu tímum. Ég held að þjóðin biði eftir því.

Ég vil svo, herra forseti, leyfa mér að leggja til, að þessari þáltill. verði að þessari umr. lokinni vísað til hv. allshn.