01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (1976)

186. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vil strax við þessa 1. umr. taka til máls og láta í ljós ánægju mína með það, að þetta frv. skyldi vera nú lagt fram, og þakka nefndinni og hæstv. dómsmrh. fyrir að frv. um þetta mál er nú aftur flutt hér á Alþ. Það er tvímælalaust mikill fengur að því, að slíkt frv. sé lagt fram og samþykkt í einu eða öðru formi. Það hefur reyndar verið gert áður, eins og fram kom í máli hæstv. ráðh. Tvisvar sinnum voru flutt hér frv. til l. um upplýsingaskyldu stjórnvalda, en þau frv. náðu ekki fram að ganga. Það segir að vísu í grg. með þessu frv., að þau hafi ekki verið útrædd. Það er ekki alls kostar nákvæmlega til orða tekið, vegna þess að á seinna árinu afgreiddi allshn. frv. frá sér og tók afstöðu til þess að Alþ. afgreiddi frv. með þeim hætti að vísa því til ríkisstj. með ákveðnum ábendingum. Ég hef ekki haft tækifæri eða tíma til þess að bera þetta frv. saman við þær ábendingar sem allshn. gerði á sínum tíma, en mér sýnist þó við fljótan yfirlestur, að að einhverju leyti hafi verið tekið tillit til þeirra ábendinga. Alla vega er ljóst, að lagasetning af þessu tagi er ákaflega mikilvæg, hún er mikilvæg fyrst og fremst fyrir allan almenning, fyrir borgara þessa lands. Eftir því sem fleiri stofnanir og embætti eru sett á fót, eftir því sem kerfið og báknið vex, verða allar ákvarðanir óljósari og rök og ástæður, sem að baki þeim liggja, og almenningur á sífellt erfiðara með að gera sér grein fyrir því, hvernig stefnu mál taka, hvaða ákvarðanir eru teknar og hvernig þær eru teknar. Að þessu leyti á almenningur í vök að verjast, og það er í samræmi við vilja alls þorra fólks og sjálfsagt okkar alþm. líka, að þjóðfélagið sé sem opnast og sé lýðræðislega uppbyggt og embættismönnum og stofnunum sé veitt eðlilegt aðhald. Það þarf að tryggja rétt hins einstaka borgara og það er okkar hlutverk hér á þingi að standa vörð um þann rétt. Mál af þessu tagi er að sjálfsögðu mjög viðkvæmt og vandasamt og það er alltaf mikil spurning um það, hvað á að birta af ýmsum trúnaðarskjölum eða málsskjölum sem liggja hjá almannastofnunum. Slík skjöl geta varðað og snert persónulega hagsmuni og hagi einstaklinga, og við höfum reynslu af því, að það er mjög misjafnt hvenær slík skjöl eru birt, hvenær nöfn eru birt á fólki sem tengist ákveðnum málum. Í þessu sambandi verður að sjálfsögðu að höfða fyrst og fremst til ábyrgðar þeirra, sem með völdin fara hverju sinni, og ekki síður til ábyrgðar þeirra sem krefjast upplýsinga og birta þær. Í þessu efni eru fjölmiðlarnir fremstir. Þeir sækja á um alls kyns upplýsingar, eins og starf þeirra gerir kröfu til. En fjölmiðlar hugsa fyrst og fremst um fréttagildi upplýsinganna, en ekki alltaf sem skyldi um tilfinningar eða hagsmuni þeirra sem hlut eiga að máli. Þess vegna er mikilvægt að höfða til ábyrgðar þessara aðila sem og dómgreindar þeirra og siðferðisþroska.

Í því nál. sem allshn. lét frá sér fara á þinginu 1974–1975, var bent m. a. á það, að kanna þyrfti rækilega sambærilega löggjöf á hinum Norðurlöndunum og reynsluna af framkvæmd hennar varðandi upplýsingaskyldu stjórnvalda. Þá var bent á, að undanþágurnar í því frv. væru of margar og bæru aðalregluna ofurliði. Enn fremur var óskað eftir því, að gerður yrði greinarmunur á upplýsingum sem hefðu mismunandi mikla hagsmuni að baki sér. Óskað var eftir frekari skilgreiningum á ýmsum hugtökum, sem fram komu í frv., og lagt var til að upplýsingaskyldan næði yfir fleira en skjöl ein. Í því sambandi var minnst á segulbönd, myndir, tölvur o. s. frv., sem geymdu margvíslegar upplýsingar. Og að lokum taldi nefndin eðlilegra, að úrskurðavald um ágreining yrði í höndum dómstóla, en ekki ráðh.

Eins og ég tók fram áðan, hef ég ekki haft tækifæri til þess að bera þetta nákvæmlega saman, en mér sýnist þó að tekið hafi verið tillit til ýmissa atriða sem ég hef nú nefnt. Það hefði kannske verið viðeigandi að geta um þessar ábendingar allshn. í þeirri grg. sem fylgir þessu frv., vegna þess að í því nái. var komin fram ákveðin viljayfirlýsing af hálfu ekki aðeins allshn., heldur Alþ. En það skiptir ekki höfuðmáli, hvort þess er getið í grg. eða ekki. Ég nefni þetta þó hér nú til þess að minna hið háa Alþ. á að þetta nál. lá fyrir á sínum tíma og var samþ.

Mér sýnist t. d. fljótt á litið, að búið sé mjög að draga úr þeim undanþágum sem voru í hinum fyrri frv., og ég tel það tvímælalaust til bóta. Mér sýnist líka að tekið hafi verið tillit til þeirrar ábendingar að ráðh. skyldi ekki hafa úrskurðarvaldið alfarið, heldur annar aðill. Nefndin benti að vísu á dómstólana, en í frv., sem nú er lagt fram, er gert ráð fyrir því að leita megi álits sérstakrar nefndar sem ráðh. skal hafa sér til ráðuneytis. Spurningin er, hvort hér sé nógu langt gengið, og það þarf kannske nánari athuganir við, án þess að ég hafi nokkra sérstaka, fullmótaða skoðun á því. Mér sýnist þó að ekki hafi verið nægilega mikið gert að því að athuga reynslu í þessum málaflokki á hinum Norðurlöndunum. Eins og fram hefur komið, hafa verið samþykkt þar og framkvæmd lög um upplýsingaskyldu stjórnvalda, og það kom fram hér fyrir fjórum árum, að reynslan af þeirri lagasetningu varð ærið misjöfn og hefði e. t. v. verið nauðsynlegt að draga ályktanir og lærdóm af þeirri reynslu. Það má vel vera, að svo hafi verið gert, en það kemur ekki fram í grg. sem fylgir þessu frv.

Mér sýnist enn fremur, að í þessu frv. sé enn fyrst og fremst fjallað um upplýsingaskyldu sem snertir skjöl. Nú er það alkunna, að upplýsingar eru geymdar með ýmsum hætti öðrum en eingöngu hið skrifaða mál. Tæknin hefur haldið innreið sína inn í þessar stofnanir og til eru segulbönd, myndir og tölvur sem geyma mjög mikilvægar upplýsingar. En um það er ekki fjallað í þessu frv. Vel má vera að ástæðan sé sú, að verið er að undirbúa frv. um notkun á tölvum og mál þar að lútandi, en það kemur ekki hér fram. Ég tel að ef um er að ræða á annað borð aðgang að upplýsingum hjá almannastofnunum, þá eigi það að vera viðtækara en bara það sem nær til skjala.

Herra forseti. Þetta eru lauslegar aths., sem ég hef hér sett fram, en ekki til þess að setja hornin í þetta frv., síður en svo. Ég endurtek það, að ég tel feng að því, að það sé nú lagt fram. Ég tel að þetta frv. sé tvímælalaust betra en það, sem lagt var hér fram á sínum tíma, og sanni að ábendingar og aths. þingsins á þeim tíma áttu við rök að styðjast og hafa leitt til þess, að þessi mál hafi verið tekin til ítarlegri endurskoðunar og gerð hér á bragarbót. Auðvitað má athuga það betur, hvort hér geti ekki enn eitthvað þurft lagfæringar við, en það skiptir ekki meginmáli. Þetta frv. hefur verið lagt fram og það á tvímælalaust rétt á sér og er aðkallandi að lög um þessi efni séu sett frekar fyrr en síðar, vegna þess að það er einn liðurinn í því að vernda hagsmuni einstaklinga og standa vörð um rétt þeirra.