01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (1977)

186. mál, upplýsingar hjá almannastofnunum

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég vil aðeins geta þess, að ég held að mér sé alveg óhætt að fullyrða það, að höfundar frv. hafi kynnt sér mjög rækilega framkvæmd og reglur um þessi efni á Norðurlöndum. Það má vera að ekki sé gerð nægileg grein fyrir því í grg., sem þó er allítarleg, en ég veit að nefndin, sem fær þetta frv. til meðferðar, getur fengið þessa nm. og ritara n. á sinn fund og fengið þær upplýsingar hjá þeim sem hún telur þörf á í þessu efni.

Í annan stað er það rétt til getið hjá hv. síðasta ræðumanni, að tölvur og það, sem að þeim lýtur, upplýsingar úr slíkum gögnum, er ekki tekið með í þetta frv., af því að það er sérstök nefnd að vinna að því að semja sérstök lög um það efni. Ég vænti þess, að það verði hægt, áður en langt um liður, að leggja fram frv. um það efni.