01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2712 í B-deild Alþingistíðinda. (1979)

14. mál, byggingarlög

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Hæstv. forseti. Þetta frv. til byggingarlaga var samið á sínum tíma af allfjölmennri nefnd og er meginefni þess það að setja ein byggingarlög fyrir allt landið. Þetta frv. hefur legið fyrir þessari hv. d. á tveim undanförnum þingum. Félmn. þessarar d. hefur fjallað mjög ítarlega um frv. og í fyrra skilaði hún áliti ásamt nokkrum brtt. og var frv., þannig breytt, afgreitt héðan frá þessari hv. d. til Ed. Þar vannst ekki tími til að afgreiða málið. Að þessu sinni var frv. lagt fyrir hv. Ed. Hún hefur lokið athugun sinni á því. Ed. gerði nokkrar breytingar á frv. að tillögu félmn. Var það einkum í sambandi við eitt atriði sem hefur verið umdeilt, og það var um byggingarstjóra. Ég tel að n. í báðum d. hafi unnið vel að þessu máli og skal ekki rekja það frekar nú, enda hef ég gert það á undanförnum þingum, þegar málið hefur verið lagt fram.

Ég legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn. og vænti þess, að samstaða geti náðst um að afgreiða það sem lög á þessu þingi.