26.10.1977
Neðri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

51. mál, barnalög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv. hefur legið fyrir tveimur síðustu þingum. það er samið af svokallaðri sifjalaganefnd, en í henni áttu sæti Ármann Snævarr hæstaréttardómari, Baldur Möller ráðuneytisstjóri og Auður Auðuns alþm. Ritari nefndarinnar var Guðrún Erlendsdóttir. Ég mælti nokkuð fyrir þessu frv. í fyrra og sé ekki ástæðu til þess að endurtaka það nú sem ég sagði þá.

Þessu frv., ef að lögum verður, er ætlað að leysa af hólmi tvenn stofnlög sem um þetta gilda: annars vegar um réttarstöðu foreldra skilgetinna barna og hins vegar um réttarstöðu foreldra óskilgetinna barna. Þessi lög, sem nú eru í gildi, má segja að séu að stofni til frá 1921, þó að það hafi verið gerðar breytingar á öðrum lagabálkinum síðar og hann gefinn út sem ný lög 1947.

Í þessu frv. eru mjög miklar breytingar frá gildandi löggjöf. Það eru í því ýmis nýmæli. En segja má aðalbreytingin, sem í þessu felst, sé sú, að frv. fjallar samfellt um skilgetin börn og óskilgetin, þannig að það er ekki gerður sá greinarmunur á því sem hefur verið til þessa. Og um leið — það er aðalatriðið — er grunntónn þessa frv. að stefnumið er að gera hlut þessara barna, skilgetinna, sem lögin kölluðu, og óskilgetinna, sem jafnastan. Og það eru auðvitað fjölmörg ákvæði í frv. sem undirstrika þá reglu og hníga að því.

Þar sem hér er hins vegar um að ræða veigamikil nýmæli að ýmsu leyti get ég vel skilið að það geti verið skiptar skoðanir um ýmis atriði í þessu frv. Það hefur nú ekki haft framgang á tveimur síðustu þingum og við því er ekkert að segja. Þetta er langur bálkur. En æskilegast væri að Alþ. tæki nú afstöðu til þess, hvort það vildi hverfa að því ráði að setja þessa löggjöf. Það er vafasamt hvort á að vera að leggja fram frv. óbreytt þing eftir þing ef ekki fæst fram neitt nál. um það.

Ég leyfi mér að vísa til þess, sem ég hef áður sagt í framsögu um þetta frv., og vil ekki vera að þreyta þá hv. þm., sem eru í d., á því að vera að rifja það upp. En þeir, sem kynnu að hafa áhuga á því, geta fundið það í Alþingistíðindum, umræðupartinum frá 29. nóv. í fyrra.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að óska eftir því að frv, verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.