01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2713 í B-deild Alþingistíðinda. (1983)

200. mál, sala eyðijarðanna Kroppsstaða og Efstabóls í Mosvallahreppi

Flm. (Sigurlaug Bjarnadóttir) :

Hæstv. forseti. Ég ber hér fram á þskj. 395 ásamt hv. þm. Gils Guðmundssyni og Sighvati Björgvinssyni frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja eyðijarðirnar Kroppsstaði og Efstaból í Mosvallahreppi. Þetta frv. er fram borið fyrir beiðni ábúanda jarðarinnar Kirkjubóls í Korpudal í Mosvallahreppi, en Kirkjuból er aðliggjandi hinum tveimur eyðijörðum sem farið er fram á að seldar verði. Það er ákaflega augljóst hagræði bónda, Bjarna Kristinssyni, sem nýfluttur er að Kirkjubóli, að fá þessar tvær eyðijarðir til nytja, og liggur raunar nokkuð ljóst fyrir að verða við þeirri ósk, þar sem þessar þrjár jarðir mynda eðlilega heild búnaðalaga séð.

Það liggja fyrir hér, eins og fram kemur á þskj., meðmæli bæði hreppsnefndar viðkomandi hrepps, Mosvallahrepps, og í öðru lagi meðmæli jarðanefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu, en meðmæli þessara tveggja aðila eru skilyrði þess, að umrædd sala geti farið fram. Mér finnst rétt að lesa hér bréf frá jarðanefnd, formanni jarðanefndar, Valdimar Gíslasyni á Mýrum í Dýrafirði, en fskj. nr. II barst mér í símskeyti og er aðeins staðfesting á því, sem segir í bréfi formannsins, en það hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Á fundi jarðanefndar Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem haldinn var að Núpi 8. febr. 1978, var tekið fyrir erindi frá Bjarna Kristinssyni, Kirkjubóli, Korpudal, bar sem hann fer þess á leit við jarðanefnd, að hún gefi umsögn sína um fyrirhuguð kaup hans á jörðunum Efstabóli og Kroppsstöðum í Mosvallahreppi.

Fyrir jarðanefnd lá umsögn héraðsráðunauta Búnaðarsambands Vestfjarða um búskaparhæfni jarðanna, Kirkjubóls í Korpudal, Efstabóls og Kroppsstaða. Ráðunautarnir töldu ræktanlegt land á þessum þremur jörðum í kringum 50 ha., og meira ef fært reyndist að rækta engjarnar á Kirkjubóli. Þá lýstu ráðunautarnir yfir þeirri skoðun sinni, að gera mætti tvö lífvænleg býli úr þessum þremur jörðum, og miðuðu þá við að eingöngu væri rekinn kúabúskapur á öðru býlinu. Fram kom í skýrslu ráðunautanna að sauðfjárbeit er á Kirkjubóli fyrir 250–300 fjár, en mjög lítil á hinum jörðunum.

Það varð niðurstaða meiri hl. jarðanefndar, að eðlilegt væri að sameina umræddar þrjár jarðir í eina og í samræmi við það að mæla með kaupum Bjarna Kristinssonar á jörðunum Efstabóli og Kroppsstöðum. Rökin fyrir þessu áliti komu fram í umræðum um málið og voru þau m. a. að ræktanlegt land og beitiland þessara jarða bæri ekki tvö vísitölubú, ennfremur mælti lega jarðanna með sameiningu, þar sem Kroppsstaðir og Efstaból skipta landi Kirkjubóls í tvo aðskilda hluta. Einn nm., Birkir Friðbertsson, taldi sig vanbúinn til að ákveða umsögn um sölu nefndra jarða í skyndingu, sumpart vegna lítillar staðþekkingar og sumpart vegna umsagnar ráðunautanna, sem áður er á minnst.

Núpi, 9.2. 1978,

f. h. jarðanefndar

Valdimar Gíslason.“

Ég vil einnig til frekari upplýsingar lesa úr bréfi frá ábúanda Kirkjubóls, Bjarna Kristinssyni, bréfi sem hann skrifar til jarðanefndar þegar hann sækir um meðmæli hennar til kaupanna. Bjarni segir svo m. a., með leyfi forseta:

„Ástæður þess, að ég óska eftir að fá jarðir þessar keyptar, eru þær, að ég tel nauðsynlegt að um samnot eða sameiningu þessara þriggja jarða sé að ræða ef tryggja á arðvænlegan búskap hér á Kirkjubóli framvegis. Það kemur e. t. v. einkennilega fyrir sjónir manna, að ég, leiguliði á Kirkjubóli, er að sækjast eftir að fá nærliggjandi eyðijarðir keyptar, en því er til að svara, að með því að fá eignarrétt á jörðum þessum, þá treysti ég til muna framtíðarbúsetu mína hér og afkomu. Enn fremur verð ég betur í stakk búinn að kaupa Kirkjuból einnig seinna meir, ef ég á þessar jarðir fyrir. En sameiningu þessara þriggja jarða í eina góða bújörð tel ég vera algjöra forsendu fyrir traustri búsetu hér. Ég fer því þess á leit við jarðanefnd, að hún taki þetta mál til vinsamlegrar yfirvegunar.“

Þetta er skrifað á Kirkjubóli í febrúar 1978, en undirskriftin er: Bjarni Kristinsson.

Því er aðeins við að bæta hér, að Kirkjuból í Korpudal hafði verið í eyði ein sjö ár áður en umræddur Bjarni Kristinsson settist þar að. Hann er að dómi allra, sem til þekkja, stakur myndarmaður í búskap, Bjarni Kristinsson, og þykir því heimamönnum í sveitinni mikill fengur í að hafa fengið svo dugmikinn og vænlegan ábúanda á þessa eyðijörð. Eins og fram kemur í bréfi Bjarna, þá er hann nú leiguliði á Kirkjubóli, en eigendur Kirkjubóls eru börn fyrrv. bónda á Kirkjubóli, Stefáns R. Pálssonar, sem nú er látinn.

Ég vona, af því sem hér hefur verið skýrt, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu og sala á þessum tveimur ríkisjörðum geti farið fram greiðlega og skjótt, þannig að bóndinn á Kirkjubóli, sem fólk í sveitinni bindur miklar vonir við, fái að vera þarna áfram, — þetta geti orðið með sem greiðustum og eðlilegustum hætti.

Ég vil svo, hæstv. forseti, leggja til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn.