01.03.1978
Neðri deild: 63. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2714 í B-deild Alþingistíðinda. (1985)

184. mál, réttur til fiskveiða í landhelgi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Hæstv. forseti. Þetta frv. fjallar um breyt. á lögum um rétt til fiskveiða í landhelgi frá 19. júní 1922. Það er þess efnis, að þrátt fyrir ákvæði þeirra laga, er sjútvrh. heimilt að leyfa íslenskum aðilum, sem útgerð stunda hér á landi, að taka á leigu um takmarkaðan tíma erlent skip til fiskveiða í íslenskri landhelgi, ef íslenskt fiskiskip verður fyrir verulegum áföllum vegna bilana eða að skip verði dæmt ónýtt og ekki reynist unnt að fá annað íslenskt skip í þess stað. Um heimild til veiða og löndunar á þá að fara eftir sömu reglum og gilda um íslensk skip, að svo miklu leyti sem ekki er annað ákveðið í sérstökum reglum sem ráðh. er heimilt að setja við veitingu leyfis um veiði og landanir hins erlenda skips.

Þessi breyting á lögunum er ákaflega þröng, eins og orðalagið gefur til kynna. Frv. er flutt með það fyrir augum, að þegar skip verður fyrir áfalli og áhöfn tvístrast og ekki er hægt að fá skip í þess stað, þá geti sjútvrh. veitt slíkt leyfi um takmarkaðan tíma, eins og t. d. út vertíð, eða ef vélaskipti eða önnur viðgerð á að fara fram á viðkomandi skipi, þá á meðan sú viðgerð fer fram. Tvö dæmi eru nú nýlega. Togarinn Sigurður bilaði alvarlega, en hann var aflasælasta skip af nótaveiðiskipum okkar. Eigendur hans fengu ekki annað skip í hans stað. Hefði þó verið mjög æskilegt að þessi ágæta áhöfn og ágæta útgerð hefði getað fengið leyfi sem þetta, en eins og lögin frá 1922 eru, þá er engin heimild fyrir rn. eða ráðh. að veita slíkt leyfi. Sama má segja um loðnuskipið Jón Finnsson, sem varð fyrir alvarlegri bilun. Ef slík heimild hefði verið fyrir hendi og ekki hægt að fá íslenskt skip í stað Jóns Finnssonar, þá hefði vafalaust verið notuð heimild samkv. þessu frv., er að lögum verður. Enn fremur má minna á, að ef skip eru gerð út frá fámennum stöðum og lífsafkoma fólks í viðkomandi stöðum byggist eingöngu á því, — við skulum segja að það sé einn skuttogari og hann bili alvarlega, — þá er auðvitað voðinn vís á slíkum stöðum ef bilun verður, og því skynsamlegt að hafa heimild sem þessa, sem er jafntakmörkuð og þm. sjá samkv. þessu orðalagi. Ég tel ekki æskilegt að hafa þetta orðalag viðtækara, því að þá mundi verða lagt að sjútvrn. að fara lengra í þessum efnum, en tel aftur rétt og eðlilegt að gera þessar hreytingar á þessari gömlu löggjöf.

Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til sjútvn.