26.10.1977
Neðri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

51. mál, barnalög

Svava Jakobsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er auðvitað alveg hárrétt hjá hæstv. dómsmrh., að það nær engri átt annað en Alþ. reyni að afgreiða þetta frv. Ég á sæti í allshn. þessarar d. og mun gera mitt til þess að reyna að hraða afgreiðslu þess. Þetta er hins vegar, eins og hann sagði réttilega, mikill lagabálkur og þarf mikillar athugunar við. En mér sýnist að meginstefnan sé til bóta og því ekki eftir miklu að bíða með að fara að taka afstöðu til þess.

Við þessa 1. umr, málsins vil ég aðeins gera aths. við eitt atriði. Það varðar 16. gr. frv., þar sem ekki er gert ráð fyrir öðru en að meðlagsúrskurð megi kveða upp á hendur barnsföður einum. Þetta ákvæði stangast á við jafnræði kynjanna að mínu viti og raunar önnur ákvæði frv. sem gera ráð fyrir auknum rétti föður frá því sem nú er. Jafnræði foreldra varðandi meðlagsgreiðslur var viðurkennt í tryggingalögum með lagabreytingu árið 1974, þar sem kveðið var á um að reglur um greiðslu meðlags skyldu eiga við um feður engu síður en mæður. En sá er hængur á að þetta ákvæði hefur ekki verið hægt að framkvæma nema þar sem skilgetin börn eiga í hlut. Það, sem komið hefur í veg fyrir að hægt hafi verið að framkvæma þetta í málum óskilgetinna barna, er ákvæði í lögum um afstöðu foreldra til óskilgetinna barna frá árinu 1947 því að þau lög gera ekki ráð fyrir öðru en móðir óskilgetins barns fái meðlagið, en ekki faðir, jafnvel þó að hann hafi barnið í sinni umsjá. Nú eru dæmi þess að faðir óskilgetins barns hefur barnið á framfæri sínu að öllu leyti og hefur sótt um meðlagsúrskurð, en sá dómur hefur fallið í sakadómi að hann gæti ekki fengið greitt meðlag frá móður barnsins vegna ákvæða þessara laga. Þessu þarf tvímælalaust að breyta, og í þessu frv., ef að lögum verður, ætti að koma orðið „foreldri“ í 1. og 2. mgr. 16. gr., þar sem nú stendur barnsföður. Ég vil leggja áherslu á að þetta atriði þyrfti að taka út úr sérstaklega og afgreiða á þessu þingi, jafnvel þótt frv. í heild sinni yrði ekki að lögum. M.a. þess vegna hef ég tekið til máls hér við 1. umr., til þess að vekja athygli manna á þessu atriði.