26.10.1977
Neðri deild: 9. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (200)

51. mál, barnalög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það má vel vera rétt hjá hv. þm. Svövu Jakobsdóttur, að það séu vankantar á frv. að þessu leyti, og þá tel ég sjálfsagt að sníða þá af. Þessi lög, sem hún vitnaði til frá 1947, verða afnumin með þessum lögum, en það er samt sem áður sjálfsagt að gera þetta skýrt og ótvírætt. Ég geri ráð fyrir því, að einhver nm. eða formaður nefndarinnar muni vera fús til þess að koma á fund allshn. og gera grein fyrir þessum ákvæðum, hver hugsun hefur þarna verið að baki. Ef sú hugsun hefur verið hér að baki að mismuna á einhvern hátt þá á að gera grein fyrir því. Ég tel líklegra, að þarna sé um einhver mistök að tefla, heldur en það hafi verið meiningin, af því að það er þvert á móti, eins og kemur fram í mjög mörgum ákvæðum frv., leiðarstjarna þess að ekki sé gerður greinarmunur á stöðu barna eftir því hvort þau teljast skilgetin eða óskilgetin. Og þá sýnist mér fljótt á litið liggja í hlutarins eðli að réttur þeirra hljóti að vera sá sami gagnvart foreldrunum, hvort sem er, og það eitt sé í samræmi við jafnréttisstefnu sem hér ríkir og ég held að þetta frv. sé mjög byggt á: En það eru mörg atriði í þessu frv. sem eru nýmæli og er kannske afsakanlegt þó að einhver mistök hafi orðið í sambandi við eitthvert ákvæði þeirra. Auðvitað er full ástæða fyrir n. að skoða þetta frv. mjög vel, vegna þess að þarna er um verulega breytingu að ræða frá gildandi lögum.