02.03.1978
Sameinað þing: 51. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2732 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

80. mál, járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Sú till., sem hér er til umr., er á þskj. 92. þ. e. till. til þál. um könnun á rekstrarhorfum járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. í þessari till. er gert ráð fyrir því, að Alþ. kjósi sjö manna nefnd til þess að kanna rekstrarhorfur járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Í þessari till. er gert ráð fyrir því, að Alþ. kjósi sjö manna nefnd til þess að kanna rekstrarhorfur járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði. Lögð er á það áhersla, að þessi könnun geti farið fram fljótlega, og síðan lagt til, að bendi athugun til þess, að rekstrarhorfur verksmiðjunnar séu slæmar, þá verði reynt að hverfa að því ráði að stöðva framkvæmdir eða fresta þeim.

Það þarf ekki að rifja það upp með mörgum orðum hér, að mikill ágreiningur var um það á sínum tíma, þegar ákveðið var að ráðast í þessa verksmiðjubyggingu, byggingu járnblendiverksmiðju í Hvalfirði, en nokkur atriði snertandi málið er þó rétt að rifja upp.

Upphaflega voru lög sett um þetta fyrirtæki snemma árs 1975, eða nánar tiltekið lögin samþ. 26. apríl 1975. Þá var gert ráð fyrir því, að verksmiðjan yrði sameign íslenska ríkisins og stórfyrirtækisins bandaríska Union Carbide. Allir kannast við, að þetta ameríska stórfyrirtæki gafst upp á þessari hugmynd. Það vildi losa sig út úr þessum samningum og borgaði allmiklar skaðabætur til þess að losna frá samningunum. En þar með var ekki málið búið. Hæstv. ríkisstj. hélt áfram að leita að samstarfsaðilum erlendis, og tókst að ná samningum við stórfyrirtæki í Noregi, Elkem-Spigerverket, sem starfar einnig á þessu sviði. Samningur var síðan gerður við þetta fyrirtæki í lok ársins 1976 og lög samþ. á nýjan leik um verksmiðjuna snemma í maímánuði 1977, þrátt fyrir það að þá lægi fyrir, — og það var ekki aðeins hið ameríska stórfyrirtæki, sem starfar sérstaklega á þessu sviði, sem hélt því fram, — að rekstrarhorfur fyrir verksmiðju af þessu tagi væru mjög slæmar, en af þeim ástæðum vildi hið ameríska stórfyrirtæki draga sig út úr verksmiðjurekstrinum. Þrátt fyrir að upplýsingar þessa fyrirtækis og aðrar upplýsingar, sem fyrir lágu um rekstrarstöðu fyrirtækja af þessari tegund um það leyti sem samningurinn var gerður við norska stórfyrirtækið, væru allar á þá lund, að hér virtist vera um mjög erfiða rekstrarafkomu að ræða — og miðað við þær forsendur sem þá lágu fyrir — hallarekstur á verksmiðjunni, var eigi að síður samþ. að halda áfram að framkvæma fyrri hugmyndir og koma upp þessari járnblendiverksmiðju í Hvalfirði.

Ég minni á það, að um það leyti sem lögin voru sett í síðara skiptið varðandi þessa verksmiðju, þá var reiknað út af Þjóðhagsstofnun, að miðað við þær upplýsingar, sem fyrir lægju frá þeim sem höfðu undirbúið málið, mætti búast við því, að árlegt tap á þessari verksmiðju yrði í kringum 800 millj. kr. Þetta tap var að sjálfsögðu miðað við þær horfur sem þá voru í þessum markaðsmálum. Nú er öllum kunnugt um það, að áfram hefur verið haldið þrátt fyrir ljótt útlit í þessum efnum og búið er þegar að setja allmikið fjármagn í þessa verksmiðju á lánsfjáráætlun sem lögð var hér fram á Alþ. fyrir s. l. ár, árið 1977. Þá var gert ráð fyrir því, að heildarframkvæmdir á því ári við verksmiðjuna gætu orðið í kringum 5000 millj. kr. Í lánsfjáráætlun fyrir þetta ár er gert ráð fyrir því, að heildarframkvæmdir við verksmiðjuna verði í kringum 8000 millj. kr. Nokkuð var búið að leggja í verksmiðjuna fyrr en þarna er rætt um, en miðað við upphaflegar áætlanir hygg ég, að það stefni á það nú, að heildarstofnkostnaður þessa fyrirtækis verði varla undir 28–29 milljörðum kr. En ég geri ráð fyrir því, að hv. alþm. minnist þess, að áætlanir, sem lagðar voru fram á Alþ. og miðaðar voru við framkvæmdakostnað á árinu 1975–1976, voru upp á 18.4 milljarða, á því verðlagi sem þá gilti. Nú er hér ekki um neina smáframkvæmd að ræða, þar sem gera má ráð fyrir, að heildarstofnkostnaður fyrirtækisins geti orðið í kringum 28–29 milljarða kr. Það jafngildir um þremur Kröfluvirkjunum, eins og talið er að sú virkjun kosti nú. Auk þessa þarf svo auðvitað verksmiðjan í Hvalfirði sína virkjun. Er gert ráð fyrir því, að hún þurfi um það bil helming orkunnar frá Sigölduvirkjun og rétt er því í þessu sambandi að tala um það, að um helmingur af stofnkostnaði Sigölduvirkjunar eða virkjunar af þeirri stærð tilheyri í rauninni þessari verksmiðju. Hér er því á íslenskan mælikvarða um gífurlega háar fjárhæðir að ræða sem þessi stofnkostnaður snýst um.

Eftir því sem ég best veit, þá liggja fyrir nýjar upplýsingar um horfurnar í stálframleiðslu og skyldum greinum. Allar þær upplýsingar, sem liggja fyrir nú, benda til þess, að ástandið sé enn þá verra nú en það var þegar lögin voru samþ. vorið 1977. Útlitið um rekstur á þessu sviði er miklu verra en það var. Ég hef ekki beinar tölur um það, hvernig rekstur verksmiðjunnar yrði metinn núna, en mér þykir mjög sennilegt miðað við þessar upplýsingar, að þær áætlanir, sem hér voru lagðar fram, mundu nú sýna ekki minna en 1 milljarðs til 11/2 milljarðs rekstrartap á hverju ári miðað við þær aðstæður sem gilda á heimsmarkaði nú.

Það er alveg óumdeilanlegt, að framleiðsla af þessu tagi og í sambandi við stálframleiðsluna sem heild hefur stórkostlega dregist saman í allri Vestur-Evrópu og í Bandaríkjunum. Hins vegar hefur orðið þó nokkur aukning á hliðstæðri framleiðslu í svonefndum þróunarlöndum. Það hefur verið gripið til þess m. a. af þeim, sem ráða mikið yfir alþjóðlegu fjármagni, að sveigja þessa framleiðslu einmitt til þeirra landssvæða þar sem hægt hefur verið að komast yfir mjög ódýra orku til framleiðslunnar og oft og tíðum einnig að fá hagstætt verð á öðru hráefni sem þarf til þessarar framleiðslu. Þess vegna hefur því verið spáð að í Vestur-Evrópu og á því svæði, sem við tilheyrum, verði áfram um stórfelldan samdrátt að ræða í þessari framleiðslu, en framleiðslan muni fremur færast yfir á önnur svæði í heiminum. M. a. hefur framkvæmdastjóri eða bankastjóri Alþjóðabankans haft uppi miklar áætlanir um þessa þróun sem vitnað hefur verið til í fjöllesnum blöðum.

Sagt er nú, að framleiðsla á stáli og skyldum framleiðslugreinum hafi dregist saman um rétt um það bil 50% í Vestur-Evrópu á tiltölulega stuttum tíma. Ýmis stór fyrirtæki á þessu sviði hafa leitað eftir ríkisaðstoð vegna erfiðleika sinna. Og þetta hefur ekki aðeins verið stundarfyrirbæri. Þetta var komið upp á árinu 1975, þegar stórfyrirtækið Union Carbide sá þetta fyrir og vildi koma sér út úr rekstrinum. Þetta gekk einnig yfir á árinu 1976. þegar menn hér á landi vildu helst ekki meta þetta til neins og sögðu: Þetta hlýtur að batna. — En þetta gekk svona áfram allt árið 1977 og enn í dag er útlitið það sama. Hér er því um það að ræða, að auðvitað hvílir á okkur sú skylda að meta þessa stöðu alla á nýjan leik.

Það er þegar búið að gera allt of mikið að því hjá okkur að ráðast í ýmiss konar framkvæmdir sem hafa reynst illa undirbúnar. Auðvitað viðurkennum við það öll, að þar er eitt af gleggstu dæmunum Kröfluvirkjun, það er ekkert um það að villast að þar skorti verulega á undirbúning og þar var ráðist með miklum krafti í framkvæmdir án þess að nægilegar athuganir hefðu farið fram, — að ég tali nú ekki um það, að gengið væri þannig frá málum að rekstrarhliðinni væri sæmilega borgið. Við vitum einnig, að það var ráðist í að koma upp svonefndri þörungaverksmiðju. Þar skorti sýnilega mjög verulega á um rannsóknir og athuganir á málinu í heild. En þessi dæmi, og það er hægt að nefna þau miklu fleiri, eru tiltölulega smá í sniðum borið saman við það, sem hér er verið að ræða um, því framkvæmdirnar við járnblendiverksmiðjuna í Hvalfirði eru stórkostlegar á íslenskan mælikvarða. Við skulum athuga það, að reynist verksmiðjan kosta í kringum 28–29 milljarða, eins og ég hef nefnt hér, þá er þarna um framkvæmd að ræða sem samsvarar um 30 nýtísku loðnuverksmiðjum, sem við höfum mjög hikað við að leggja fjármagn í að undanförnu, þó að þar hafi verið um mikla rekstrarmöguleika að ræða. Ef við breytum þessu í aðrar stærðir þar sem við þekkjum tiltölulega best til, þá er hér um framkvæmd að ræða sem samsvarar a. m. k. 50–70 nýtísku frystihúsum, sem er meginhlutinn af undirstöðuiðnaði okkar.

Hér er því verið að ráðast í gífurlega mikla og fjárfreka framkvæmd. Þarna er verið að binda sig. En útlitið er vægast sagt svart, og við erum búnir að brenna okkur á of litlum undirbúningi í mörgum tilfellum áður. Og hvað svo sem líður ágreiningi manna, sem hér var mikill um stofnun þessa fyrirtækis, — við vitum að ágreiningurinn var sumpart af raforkusölu til þessa fyrirtækis, að öðru leyti var þessi ágreiningur mjög um mengunarhættu frá fyrirtækinu og áhrif þessa mikla fyrirtækis á nálæg svæði rekstrarlega og afkomulega séð, og fleira kom inn í þann ágreining, — þá er alveg furðulegt að ekki skuli vera hægt að ræða um þann hluta máls, sem snertir beinan og venjulegan peningalegan rekstur. Þarf þetta að vera trúaratriði hjá mönnum, að böðlast áfram með þessar framkvæmdir jafnvel þó að þeir séu að leggja á sig skuldabagga?

Nú kann það auðvitað að vera svo, að menn segi: Þó að syrti í álinn og hafi svo verið nú í þrjú ár í þessum efnum, þá kann þetta að skána. — Já, vissulega getur það skánað. En er ekki ástæða til þess að huga betur að þessu máli, athuga það betur? Er ekki full ástæða til þess að Alþ. setji nefnd af sinni hálfu til þess að athuga hvar menn eru staddir í þessari framkvæmd? Er hægt að hægja á framkvæmdum? Er hægt að stöðva framkvæmdir og sjá þá betur hvað gerist? Eða á að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist? Hafa menn ekki fengið nóg af því nú í bili að ráðast í stórframkvæmdir, taka erlend lán og standa fyrir innlendum álögum með tilheyrandi afleiðingum, svo hægt sé að ráðast í framkvæmdir sem síðan skila engum arði, heldur beinlínis auka útgjöld á eftir?

Það er, eins og ég hef sagt stundum áður, auðvitað fyrir neðan virðingu allra, sem vilja láta taka sig alvarlega þegar um er að ræða stórmál eins og þetta, að afsaka sig með því, að einhver maður úr Alþb. hafi skipað nefnd til þess að athuga möguleika á þessum rekstri á sínum tíma. Auðvitað getur Alþ. í dag ekki afsakað sig með einu eða neinu, nema gengið sé út frá þeim forsendum sem fyrir liggja. Þær forsendur lágu þegar fyrir, þegar upphafleg lög voru hér sett um byggingu þessarar verksmiðju á árinu 1975, að hér væri um mikinn áhætturekstur að ræða, og það kom auðvitað strax fram, m. a. hjá þeim Alþb.- manni sem vitnað er til að hafi átt sinn hlut að því að þetta mál fór upphaflega af stað. Þá hafði hann áttað sig á því, að hann vildi ekki greiða þessu atkv. og greiddi því atkv. á móti þessari lagasetningu við nafnakall á Alþ. Það þurfti því ekki að halda áfram hans vegna. Það voru allt aðrir aðilar, sem vildu halda þessu áfram, jafnvel þó að allar ytri horfur bentu til þess, að um óhagkvæmt fyrirtæki væri að ræða.

Það dugði ekki ein aðvörun. Síðan fengu menn aðra aðvörun ári síðar. Þegar ameríska stórfyrirtækið hafði gengið úr málinu, þá áttu menn aftur kost á því að taka afstöðu til málsins, hvort ekki væri rétt að athuga málið betur a. m. k. Og aftur samþ. stjórnarliðar á Alþ. flestir, ekki þó allir, en flestir stjórnarliðar hér á Alþ. þá samþ. á nýjan leik ákvarðanir í þessum efnum, þrátt fyrir það að fyrir lægi, að hér gæti orðið um stórfelldan hallarekstur að ræða. Og áfram gerðu menn sig svo lítilþæga að reyna að afsaka aðgerðir sínar með því, að maður í Alþb. hefði látið sér þetta til hugar koma einu sinni. Og síðan er ráðist í framkvæmdirnar og unnið að þeim, þó að menn fái æ ofan í æ aðvaranir. Ég vil t. d. vænta þess, að þeir hv. þm., sem hér eru nú staddir inni og sumir hverjir hafa allmikil sambönd, eins og fram kemur í ýmsum málum, við starfsbræður sína á Norðurlöndum, þeir hafi hlotið að fylgjast með dagblöðum þar, hvað þau hafa verið að skrifa um þessi mál að undanförnu. Þeir hafa kannske orðið eitthvað varir við það, hvernig menn tala um stálkreppuna þar og öll þau fjárhagslegu vandamál hjá þeim sem fylgja henni. Hefur sú reynsla ekki haft nein áhrif á þessa ágætu menn, eða líta menn kannske á það sem miklu afdrifaríkara mál að breyta eitthvað til um kosningadag til sveitarstjórnarkosninga? Ég held að mál af þessari tegund, sem hér liggur fyrir, sé svo miklu stærra, að það væri ástæða til þess að taka þar eitthvert tillit til þess sem menn hafa verið að reka sig á í nálægum löndum.

Það liggur auðvitað ekkert fyrir um það, hvað það mundi kosta okkur út af fyrir sig að hægja á þessum framkvæmdum nú eða stöðva þær. Ég held að verkið sé ekki komið lengra en svo, að það sé vel hægt að stöðva þessar framkvæmdir. Ákvörðunarvaldið er í okkar höndum. Íslenska ríkið á 55% í þessu fyrirtæki, ræður þar hreinum meiri hluta. Ég hygg líka, að þó að sá norski aðili, sem hér á hlut að máli, hafi komið ár sinni vel fyrir borð í samningunum við Íslendinga, sem ekkert er um að efast, gæti hann látið sér nægja að fá að smiða það aðaltæki, sem í þessa verksmiðju á að fara, sjálfan bræðsluofninn. Þessi norski aðili hefur samning um þetta, fékk þann samning án þess að gert yrði útboð á þessum ofni. Það fer því auðvitað ekkert á milli mála, að þetta norska fyrirtæki græðir á þessu. Ég held að það gæti því fyllilega komið til greina, miðað við allar aðstæður nú, að stöðva þarna framkvæmdir á meðan málið er athugað betur, jafnvel þó að norski aðilinn væri ekki alveg við það sáttur, en ekki kæmi mér það á óvart, að hann væri fyllilega til viðtals um að hægja þarna á sér. Það mætti vel segja mér, að miðað við allt það, sem á undan er gengið, væru það íslenskir aðilar sem ýttu þarna fastast á eftir að halda áfram, festa meira fjármagn í þessu, þeir aðilar sem aldrei hafa skeytt neitt um það, hvort þeir eru að æða út í taprekstur eða ekki.

Við skulum athuga það, að ef þessi framkvæmd yrði nú stöðvuð um lengri eða skemmri tíma vegna ytri aðstæðna, þá mundi það auðvitað spara okkur ýmislegt. Það mundi í fyrsta lagi gera okkur kleift að fresta um nokkur ár nýrri stórvirkjun, Hrauneyjafossvirkjun, virkjun sem alveg örugglega kostar einhvers staðar á milli 15 og 25 milljarða króna. Þá lægju orkumál okkar þannig fyrir, að við gætum auðveldlega frestað þessari framkvæmd, og þá hefðum við yfir að ráða nú á næstu árum orku, sem við gætum notað til eigin þarfa á hagkvæman hátt. Á það hefur m. a. verið bent af efnahagssérfræðingum ríkisstj. og ýmsum fleirum reyndar, að það leiki enginn vafi á því, að skýringuna á hinni innlendu verðbólgu okkar nú síðustu árin megi rekja til þess að allverulegu leyti, hve mikið erlent fjármagn hafi verið flutt inn í landið á tiltölulega stuttum tíma, fjármagn sem notað hafi verið til venjulegra innlendra framkvæmda, til venjulegrar innlendrar vinnu, breytt hér í íslenska peninga. Þetta hafi verkað þannig á íslenska peningakerfið, að það hafi stórkostlega aukið á þrýstinginn þar og haft mikil verðbólguáhrif. Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að einkum á s. l. tveimur árum hefur verið gert mikið að þessu og það er ekki sjáanlegt að hægt sé að komast undan því, að þetta haldi áfram með sínum afleiðingum varðandi verðbólgu, ef á að halda áfram af fullum krafti með járnblendiverksmiðjuna og þær virkjunarframkvæmdir sem þar sigla í kjölfarið.

Það er því skoðun mín að fyllsta ástæða sé til þess, eins og nú er komið, að samþ. till. eins og þá sem hér liggur fyrir, að Alþ. skipi sérstaka nefnd af sinni hálfu til þess að gera úttekt á málinu, kanna hvaða möguleikar séu fyrir hendi til þess að stöðva þarna framkvæmdir, losa sig við það að festa þarna fjármagn að óþörfu og láta athuga það enn betur hvaða möguleikar kunni að verða á því að reka þarna fyrirtæki með eðlilegum hætti.

Ég ætla mér ekki í þessum umr. að taka upp fyrri umr. um raforkusöluna til þessa fyrirtækis, en það er rétt að menn hafi í huga að þetta fyrirtæki, sem hér er verið að ræða um, járnblendiverksmiðjan í Hvalfirði, byggir fyrst og fremst rekstur sinn á tveimur meginþáttum. Í fyrsta lagi byggir það rekstur sinn á miklu fjármagni. Það verður að vera mikið fjármagn fest í fyrirtækinu. Þetta er því mikið fjármagnsfyrirtæki. Í öðru lagi byggir þetta fyrirtæki á því að nota mikla orku og verða að fá þá orku á hagkvæmu verði. Þetta er ekki vinnuaflsfyrirtæki. Það notar mjög lítið vinnuafl. Í fyrri áætlun, sem lögð var fyrir Alþ. og byggð var á áætlun hins bandaríska stórfyrirtækis Union Carbide, var gert ráð fyrir að heildarvinnuafl í þessu fyrirtæki yrði 115 menn. Þar af voru aðeins 87 sem áttu að vinna í verksmiðjunni sjálfri sem slíkri. Hitt var skrifstofufólk, bilstjórar og aðrir þeir sem þarna áttu að þjóna til viðbótar. Um meiri vinnuaflsnotkun var því ekki að ræða í rekstri en sem þessu nam. Í síðari áætlun, sem hér var lögð fram og byggð var á upplýsingum frá norska fyrirtækinu, var þessi tala að vísu hækkuð úr 115 upp í 150 manns samanlagt. En það er alveg sama hvor talan er lögð til grundvallar. Sýnt er að hér er ekki um vinnuaflsfyrirtæki að ræða nema meðan á byggingunni stendur. Þá rífur þetta fyrirtæki í sig vinnuafl í ríkum mæli, en rekstrarlega séð ekki. Við vitum að fyrirtæki með 115–150 manns í vinnu nær varla meðalstærð frystihúsa í landinu varðandi vinnuafl. Það er því ekki verið að koma upp þessu fyrirtæki til þess að leysa atvinnuvanda. Það er hins vegar fjármagnið, sem þarna heimtar sitt, og þar verður að koma til fyrst og fremst erlent fjármagn, nema þá það fjármagn sem íslenska ríkið leggur til beint af sinni hálfu sem hlutafé, en þá verður að skattleggja borgarana til þess að afla sér þess fjár. Og auðvitað höfum við ekkert út úr því fjármagni, sem við leggjum í fyrirtækið, nema þá að fyrirtækið gefi arð, nema það takist að reka það með gróða.

Varðandi svo hinn þáttinn í rekstri svona fyrirtækis, sem er orkan, þá hefur svo mikið verið rætt um það hér áður, bæði á Alþ. og einnig mikið um það skrifað hér í mörg blöð, að ég tel að það sé að fullu sannað, að raforkan eigi að seljast þessu fyrirtæki, samkv. þeim áætlunum, sem liggja fyrir og samningum sem gerðir hafa verið um raforkusöluna, alveg niður á kostnaðarverði, að maður segi ekki fyrir neðan kostnaðarverð. A. m. k. er það greinilega alllangt fyrir neðan það verð sem Norðmenn setja upp í dag sem lágmarksverð á raforku til hliðstæðra fyrirtækja. Ég held því að það séu engar líkur til þess, að við höfum neitt út úr því krafsinu að ráðstafa okkar orku um langan tíma með því að selja hana þessu fyrirtæki. Þar gerist það tiltölulega best, að ekki verði um beinan hallarekstur að ræða, en um hagnað verður ábyggilega ekki að ræða á fyrirtækinu.

Þá er auðvitað spurningin þessi: Hvers vegna er lögð svona mikil áhersla á þetta? Og þá er rétt að koma hér aðeins að upphaflegu röksemdinni fyrir því, þegar þetta mál kom fyrst fram og var upphaflega rætt. Það var sú röksemd ýmissa þeirra, sem hafa haft einna mest með okkar virkjunarmál að gera nú um langa hríð, það var sú röksemd, að okkur væri hagstætt að geta ráðist í virkjun eins og Sigölduvirkjun eða aðrar virkjanir sem væru af þeirri stærð, 150–200 mw. virkjanir. Í íslenskum þjóðarbúskap væri hagstætt að fá virkjanir af þessari stærð, en hins vegar dygði okkar heimamarkaður ekki fyrir svona mikla orku, hann gæti ekki tekið við henni nema á of löngum tíma, of dýrt væri að liggja með nokkurn hluta af orkunni frá svona orkuveri og geta lítið við orkuna gert. Þess vegna væri það íslenskum þjóðarbúskap hagstætt að geta losað sig við helminginn af orkunni frá þessu stóra orkuveri, og jafnvel þó að lítið hefðist upp úr þeirri sölu um alllangt árabil, þá væri það eigi að síður íslenskum þjóðarbúskap hagstætt. Hinn helminginn hefðum við þá út úr góðri virkjun og síðan ætlum við í framtíðinni að fá þann helminginn líka, sem væri ráðstafað á alllöngu tímabili til stóriðju. Þetta voru rökin fyrir því, að menn töluðu um að það væri rétt að setja nefnd sem skoðaði möguleika á því, hvort við gætum orðið þátttakendur í orkufrekum iðnaði, iðnaði sem þyrfti á mikilli orku að halda. Og það var unnið á þessum grundvelli framan af. En þegar síðan málin breyttust þannig, að menn sáu að íslenska hagkerfið gat auðveldlega tekið við þessari orku, m. a. notað þennan hluta, sem menn höfðu talað um að nota til orkufreks iðnaðar, til húshitunar í landinu, þá vitanlega var eðlilegt að einnig þeir, sem höfðu verið þessarar skoðunar, breyttu um skoðun. En þá kom auðvitað í ljós, að það voru hér stóriðjudraumamenn á ferðinni, sem höfðu alltaf trúað á erlenda stóriðju og voru fyrst og fremst að berjast fyrir þeirri hugsjón, og þeir vildu halda áfram. Þeirra barátta var svo áköf, að þó að það lægi orðið fyrir, að hér yrði um mikinn hallarekstur að ræða, þá héldu þeir eigi að síður áfram. Og þó að sá ameríski aðili, sem þeir voru búnir að bera mikið lof á og segja að væri fremstur í veröldinni í sambandi við þessa framleiðslu, réði yfir mestum hluta markaðarins, vissi þarna allra aðila mest, þó að hann segði: nú líst mér ekki á, nú vil ég losa mig úr þessu og vil heldur borga skaðabætur, — þá var ákafinn svo mikill í stóriðjumönnum hér á landi og núv. ríkisstj. hóf göngu sína með slíkum ákafa í stóriðjumálum, eins og hægt er að nefna mörg dæmi um, viðræður hennar og viðtöl við ýmsa aðila um þessi efni, að þar hikuðu menn ekki við að steypa sér fram af bakkanum, þó að þeir heyrðu að þeir gætu tapað 800 millj. á ári. Hvað var það á móti því að fá stóriðju! Og enn halda menn áfram, þó að það liggi fyrir að tapið sé miklu meira en þetta.

Þá sakar ekki að geta annars rétt í leiðinni. Allir menn mega gjarnan hafa það í huga, að þetta fyrirtæki, sem þarna er verið að ræða um, er auðvitað alveg einstakt í sinni röð miðað við íslensk fyrirtæki. Þetta er mikið fríðindafyrirtæki. Það er látið njóta fríðinda langt umfram það sem íslensk fyrirtæki yfirleitt njóta. Ég skal nefna hér nokkur atriði um sérstök fríðindi þessa fyrirtækis sem almenn íslensk fyrirtæki njóta ekki. Það þykir t. d. sjálfsagt að taka það fram í lögum um þetta fyrirtæki, að ríkið á að leggja fyrirtækinu til land, lóðir. Ríkið verður að kaup þær og leggja þær fram. Það er í stofnsamningi. Aðrir verða að kaupa sér lóðir sjálfir og standa undir þeim vanda sem því fylgir. Þarna þótti það líka sjálfsagt og er líka fest í lögum, að ríkið raunverulega legði fyrirtækinu til sérstaka höfn. Ríkið ættar að leggja fram sem beinan styrk, óafturkræfan styrk til þessarar hafnargerðar, 75% af öllum kostnaði. Hin 25% ætlar ríkið að útvega að láni. Þessi hafnargerð er drifin í gegn á sama tíma sem mjög stendur á hafnarframkvæmdum fyrir annan atvinnurekstur í landinu. Þessi atvinnurekstur er látinn hafa forgang. Líka þykir sjálfsagt að taka það fram í lögunum, að ríkið leggi ákveðinn veg. Ekki geta þeir lagt veginn sinn frá verksmiðjunni og upp á þjóðveginn. Nei, ríkið verður að leggja hann. Það er tekið fram í lögunum líka. Svo er auðvitað tekið fram, að það sé heimild til þess að lækka eða fella alveg niður stimpilgjöld og þinglýsingargjöld. Sérstakar skattareglur eiga að gilda um fyrirtækið í ýmsum greinum. Það má t. d. gefa út jöfnunarhlutabréf alveg endalaust og ekki háð almennum reglum. Undanþágur eru í lögunum fyrir þetta fyrirtæki varðandi aðflutningsgjöld og söluskatt af öllu efni, vélum, áhöldum og tækjum, sem til fyrirtækisins eiga að koma, á sama tíma sem hvort sem það er almennur iðnaður landsmanna, sjávarútvegur eða landbúnaður, þessar greinar verða að borga sitt. Af því er hér um mikinn fríðindarekstur að ræða. Og það gengur meira að segja svo langt, sem maður hafði nú aldrei séð áður, ekki þar sem hafði þó verið um ákveðin fríðindafyrirtæki að ræða, að í þessum lögum er ákveðið, að ef þetta fyrirtæki kaupir af innlendum aðila einhver tiltekin verk, þá á að finna út söluskattinn á því verki og þá á að finna út aðflutningsgjöldin, sem tilheyra því verki hjá hinum almenna innlenda aðila, og það á að fella þetta niður ef það gengur til járnblendiverksmiðjunnar. E. t. v. er um að ræða nákvæmlega sams konar vinnu og sem unnin er hér í iðnaðarfyrirtæki úti í bæ fyrir innlendan aðila, nákvæmlega sömu framleiðslu á blásurum, eða hvað það væri sem fyrirtækið þyrfti að nota, en ef framleiðandinn selur verkið járnblendiverksmiðjunni, þá er það ódýrara, en dýrara ef það fer til innlends aðila, af því að ríkið gefur sitt eftir. Svo er auðvitað ekki um nein smáræðisfríðindi að ræða, sem þetta fyrirtæki býr við varðandi verðlagninguna á raforku og sérstakan raforkusamning til langs tíma. Svo þarf þetta fyrirtæki auðvitað ekki að taka lán sín samkv. íslenskum reglum, eftir íslenskum vaxtafæti. Það fær ótakmarkaðan rétt til þess að taka stofnlán til framkvæmda sinna erlendis og nýtur að sjálfsögðu ríkisábyrgðar.

Það, sem ég vildi hér segja að lokum, er þetta: Með það í huga að mikill og víðtækur ágreiningur hefur verið um þetta fyrirtæki, hvort það ætti að ráðast í það eða ekki, en þó að sá mikli ágreiningur sé lagður til hliðar að meira eða minna leyti, þá er næsta ótrúlegt að menn skuli ekki fást til þess að athuga þá stöðu sem upp er komin varðandi byggingu og rekstur þessarar verksmiðju. Það er í rauninni alveg furðulegt ábyrgðarleysi af meiri hl. Alþ. að neita því, að það skuli fara fram sérstök athugun á þessari stöðu, sem ekki er deilt um að hefur komið upp. Ég vil nú vænta þess, að hv. alþm. kynni sér þessi mál að nýju og sýni ekki þá þvermóðsku, að jafnvel þó að þeir hafi á ákveðnu stigi málsins léð þessu fylgi, fallist á þessa framkvæmd, þá sé þetta svo heilagt hjá þeim, að ekki komi til mála að endurskoða málið miðað við nýjar aðstæður sem óneitanlega hafa hér komið upp. Ég vil t. d. minna á það, að það þótti þó koma til mála við afgreiðslu síðustu fjári. að stöðva allar nýjar framkvæmdir við Kröfluvirkjun, að stöðva fjárstreymi til þess fyrirtækis í nýjar borholur og öflun á gufu, þó að búið væri að láta jafnmikið fjármagn í orkuverið þar og raun var á. Mönnum sýndist, að komin væri upp sú staða, að það væri rétt að stöðva nýtt fjárstreymi til fyrirtækisins og það þegar búið var að leggja jafnmikið í virkjunina og raun var á. En hvers vegna þá ekki að fara að á sama hátt með járnblendiverksmiðjuna? Þar eru menn þó ekki búnir að festa jafnmikið fjármagn, eða a. m. k. ekki búnir að skuldbinda sig nema að hluta í sambandi við það sem ætlað er að gera á þessum stað. Af hverju kemur ekki til mála við nýjar aðstæður að stöðva framkvæmdir og skoða málið og gefa Alþ. nýja skýrslu um það, hvernig horfurnar séu?

Ég vil vænta þess, að hv. þm. taki þessari till. okkar vel og samþ. í fullri alvöru, að þessi úttekt skuli fara fram og hún verði látin fara fram með hraði, eins og lagt er hér til, og þannig verði reynt að koma í veg fyrir meira fjárhagslegt tjón en þarna er þegar orðið.