07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2773 í B-deild Alþingistíðinda. (2020)

53. mál, innlend fóðurbætisframleiðsla

Fyrirspyrjandi (Stefán Jónsson) :

Herra forseti. Hér er um að ræða fsp. sem borin var fram á fyrstu vikum þings í haust, það er b-liður fsp. á þskj. 58. Fyrri liðnum, a-liðnum, varðandi það hvaða ráðstafanir hefðu verið gerðar af hálfu ríkisstj. til að tryggja hagsmuni graskögglaverksmiðja, var svarað fyrir nokkru, en b-liðnum, svo hljóðandi: „Hvað liður birtingu skýrslu um niðurstöður rannsókna á fóðurgildi innlendra grasköggla?“ — verður fyrst svarað nú í dag. Mér er ljóst, að hér er ekki um að sakast við hæstv. landbrh., hversu mjög það hefur dregist að svara þessari fsp. Ástæðan mun vera sú, að niðurstöður raunsóknanna hafi beinlínis ekki legið fyrir, það hafi ekki verið búið að vinna svör við þessari spurningu. Birtingin hefur sem sagt dregist óhóflega á langinn.

Þegar rætt var um stöðu graskögglaverksmiðjanna og fóðurbætisverksmiðjanna hér á landi í vetur, þá var mjög uppi samanburður við verð á innfluttum fóðurbæti til landsins, og eins og að líkum lætur er ákaflega þýðingarmikið að vita um fóðurgildið. Verðsamanburðinn höfðum við, en fóðurgildi þessarar innlendu vöru í samanburði við fóðurgildi hinnar erlendu vöru, sem flutt var inn á niðurgreiddu verði frá Efnahagsbandalagslöndunum, lá ekki fyrir. Nú vænti ég að hæstv. ráðh. veiti okkur svör við þessari spurningu.