07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2775 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

340. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 132 hafði ég þegar í nóvemberlok s. l. lagt fram til hæstv. landbrh. fsp. um málefni veðdeildar Búnaðarbankans, um það, hvernig ríkisstj. hygðist leysa hinn mikla vanda veðdeildar Búnaðarbankans á því ári, hinu síðasta ári. En í nóvemberlok var mikil óvissa um afgreiðslu veðdeildar Búnaðarbankans á jarðakaupalánum til bænda sem sótt höfðu um lán á síðari helmingi liðins árs. Lífeyrissjóður bænda hafði látið veðdeildinni í té 100 millj. að láni, sem fóru í afgreiðslu lána sem fullgild voru fyrri hluta ársins. Skilyrði lífeyrissjóðsins fyrir þessari lánveitingu voru þau, að ákveðin fjárupphæð kæmi á móti annars staðar frá til að unnt yrði að sinna öllum umsóknum ársins. Um uppfyllingu þessa skilyrðis var ekki vitað er ég bar fram þá fsp. sem hér er til umr.

Í umr. í Ed. Alþ. um till. okkar Alþb.-manna þar um verðlagsmál landbúnaðarins svaraði hæstv. landbrh. í raun þessari fsp. Rétt fyrir jólin afgreiddi svo veðdeildin þau jarðakaupalán sem þá lágu fyrir fullgildar umsóknir um. Niðurstaða liðins árs varð því sú, að alls voru veitt 116 jarðakaupalán að upphæð 175 millj. kr. úr veðdeild Búnaðarbankans. En hér var um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, sem ber að þakka forgöngu hæstv. ráðh.

Fyrst málefni veðdeildar eru komin hér upp sem slík, þá verður ekki hjá því komist að minna á stöðu hennar nú á þessu ári, þar sem ekkert fjármagn liggur í raun fyrir til ráðstöfunar og deildin sem slík er í raun gjaldþrota.

Ég hef undanfarið starfað í nefnd sem fjallað hefur um hvort tveggja, vanda stofnlánadeildar og veðdeildar. Fyrir nær ári skilaði nefndin frv. til hæstv. ráðh. um stofnlánadeildina með till. um jöfnunargjald á búsafurðir og mótframlag ríkisins, um húsnæðismálalán yfir á Byggingarsjóð ríkisins, en jarðakaupalán aftur frá veðdeild yfir á stofnlánadeild, eins og kom fram í fyrirspurnatíma á Alþ. s. l. vor. Hæstv. ráðh. gekk þá mjög eftir því við nefndina, að hún skilaði frumvarpsdrögum, og virtist þá hafa von um árangur og framlagningu frv. En síðan mun honum hafa orðið róðurinn þungur innan ríkisstj., því enn bólar ekki á neinu.

Nefndin hefur nýlega skilað öðrum frumvarpsdrögum, í þetta sinn um veðdeildina, en forsenda þess liggur þó í samþykkt fyrra frv. okkar í nefndinni eða frv. um stofnlánadeildina, það væri eitthvað svipað. Því væri gott nú að fá um það einhver svör frá hæstv. ráðh., hverjar horfur eru á framgangi þessa máls í heild, því eftir því fer um framtíð þessa lánaflokks sem veðdeildin veitir mikilvægastan og hér var um spurt, þ. e. a. s. jarðakaupalánin.