07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2776 í B-deild Alþingistíðinda. (2024)

340. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Landbrh. (Halldór E. Sigurðsson) :

Herra forseti. Það er rétt að fsp. sú, sem hér liggur fyrir um veðdeild Búnaðarbanka Íslands, var fram komin í haust. Þá þótti fyrirspyrjanda og fleirum nokkuð tvísýnt um afgreiðslu á jarðkaupalánum á s. l. ári. Hins vegar tókst svo til um afgreiðslu á jarðakaupalánum á s. l. ári, að þau voru öll afgreidd, voru fleiri en nokkru sinni fyrr og hærri upphæð en áður hefur verið.

Þar sem þessi fsp. sneri að veðdeildinni, þá óskaði ég eftir því, að nefnd sú, sem unnið hefur að endurskoðun á lögunum um stofnlánadeild og veðdeild skilaði hvoru tveggja. Fyrir nokkrum dögum fékk ég till. nefndarinnar um veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Út af því vil ég segja, að ljóst er að ég mun ekki leggja það frv. fyrir Alþ. Það er ekki af þeirri gerð, að ég hafi á því neinu sérstakan áhuga eða telji þörf á því.

Hitt er mér aftur áhugamál, að koma fram frv. um stofnlánadeildina, m. a. að því leyti sem snertir jarðakaupalánin. Ég hef áður sagt frá því á hv. Alþ., að innan ríkisstj. væri ekki alger samstaða um málið. Það mál er nú til meðferðar og afgreiðslu er að vænta núna næstu daga, hvort það verður lagt fyrir og á hvern hátt það verður gert. Verður þá alveg ljóst, hvernig með verður farið. En eins og er get ég ekki svarað því endanlega.

Frv. um veðdeildina sem slíka, eins og það liggur hér fyrir, tei ég ekki vera áhugavert mál eða þess eðlis, að það snerti landbúnaðinn að því leyti sem ég hafði búist við. En frv. um stofnlánadeildina verður ekki lagt fram nema hluti af því verði um jarðakaupalán, það er ljóst.

Að þessu leyti svara ég þessari fsp., en vona að það dragist ekki langan tíma — enda ber nauðsyn til að ég geti endanlega sagt til um afstöðuna til frv. um breyt. á lögunum um stofnlánadeildina.