07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2777 í B-deild Alþingistíðinda. (2026)

340. mál, veðdeild Búnaðarbankans

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins leggja á það þunga áherslu frá mínu sjónarmiði og annarra í þeirri nefnd, sem undirbúið hefur þessi frv. sem hér eru til umr., að þau verði fram lögð og tekin til afgreiðslu á þessu Alþingi.

Ég tel, að þrátt fyrir það sem hér hefur komið fram, að frv. um Stofnlánadeild landbúnaðarins sé aðalmálið og það sem mestu máli skiptir þá sé einnig nokkuð þýðingarmikið frv. um veðdeild Búnaðarbanka Íslands. Það er minn skilningur, að það frv. leysi fjárhagsvanda þeirrar deildar miðað við það hlutverk sem í þessu frv. báðum er ætlast til að deildin hafi. Ef um veigameira hlutverk verður að ræða af hálfu veðdeildarinnar en þar er gert ráð fyrir, þarf vissulega aukið fjármagn, svo sem til sérstakrar útgáfu lausaskuldalána eða eitthvað slíkt en gert var ráð fyrir því í þessari nefnd, að til þess yrði þá að útvega sérstakt fé. Ég vil því ítreka, að ég tel að þessi mál séu ákaflega brýn, og ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. leggi þessi frv. fram og sjái til þess, að þau verði afgreidd á þessu Alþingi.