07.03.1978
Sameinað þing: 52. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2781 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

350. mál, viðsræður við Ísal hf.

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Spurt er um hvort horfur séu á, að samið verði við ÍSAL hf. um sölu á orku frá Hrauneyjafossvirkjun vegna ráðgerðrar stækkunar álbræðslunnar.

Með samningi, dagsettum 10. des. 1975, sem staðfestur var af Alþ. og gerður var í tengslum við Sigölduvirkjun, hefur ÍSAL heimild til þess að stækka álbræðsluna um sem svarar 20 mw, en af þeim eru 8 mw forgangsafl og 12 mw afgangsafl. Þessi stækkun miðast við að ljúka öðrum kerskála bræðslunnar og er bundin því skilyrði, að orkusala til hennar hefjist eigi siðar en í árslok 1979 og að ÍSAL taki ákvörðun um framkvæmdina fyrir árslok 1978.

Sú 140 mw virkjun við Hrauneyjafoss, sem nú hefur verið heimiluð, miðast við þarfir almenningsveitna, og er áætlað að hún verði gerð í tveimur 74 mw áföngum með 1–2 ára millibili. Samningaviðræður hafa ekki farið fram milli Landsvirkjunar eða viðræðunefndar um orkufrekan iðnað annars vegar og ISALs hins vegar um sölu á orku frá Hrauneyjafossvirkjun.