07.03.1978
Sameinað þing: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2805 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

171. mál, íslenskukennsla í fjölmiðlum

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð í sambandi við þetta þarfa mál, sem hér er boríð fram og ég vil lýsa ánægju minni með að kemur fram á Alþ. En það er aðeins ein aths. sem ég hlýt að koma hér á framfæri, og það er út af þessu þrettán manna ráði, sem á að annast framkvæmd þessarar ágætu till. Mín reynsla er nú gjarnan sú, að ágæti nefnda og ráða er í öfugu hlutfalli við stærð þeirra, og þess vegna sakna ég þess, að það skuli ekki hafa verið gefnar á því skýringar, hvorki í grg. né í framsögu hv. 1. flm., hvernig þeir hugsa sér — hinir ágætu menn sem að þessu máli standa — að þetta ráð sé skipað. Það kann vel að vera, að þeir hafi gild rök fyrir sér í þessu en að óreyndu, án þess að nokkrar skýringar liggi fyrir, sýnist mér að þetta ráð sé óþarflega stórt og tryggi alls ekki að vinnubrögð þess og árangur af starfi þess verði sá, sem hugur vafalaust stendur til.

En ég tek undir þau sjónarmið, sem hér hafa komið fram, að það er sannarlega tími til þess kominn að okkar voldugasti fjölmiðill, sjónvarpið, láti þetta mál frekar til sín taka. Það er hörmulegt að heyra hvernig íslensku máli er dag eftir dag, bæði í rituðu og mæltu máli, misþyrmt. Það mega kallast ókjör, ég tek undir það. Núna á dögunum las ég í einu dagblaðanna að einhver hefði „glott við fót“, og þetta er nákvæmlega það sem maður rekst á. Gömlum og góðum orðasamböndum er víxlað saman við önnur, öllu hrært saman og út úr þessu kemur hinn mesti óskapnaður. Það er einmitt þetta meðferð málsins og ekki þá síst hins talaða máls, sem þyrfti verulegrar athugunar við, og þarf að gera átak í þeim efnum. Ég sé ekki, að sjónvarpið okkar verði notað til annarra hluta þarfari en að reyna að sporna við þeirri þróun sem horfir til óheilla í notkun íslensks máls.