07.03.1978
Sameinað þing: 53. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2806 í B-deild Alþingistíðinda. (2050)

171. mál, íslenskukennsla í fjölmiðlum

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ef ég hefði ekki verið búinn að biðja um orðið út af öðru, sem fram kom hér áðan, þá hefði ég svo sannarlega beðið um það út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði þegar hann fór úr stólnum, um þá milljarða, sem fara í það að „reisa karbithelvíti uppi í Hvalfirði“. Heyr fyrir slíku orðbragði!

En ég stend upp til þess enn að halda því fram, að orðið „hnýsilegur“ geti alveg komið í staðinn fyrir orðið „áhugaverður“. Það gæti, held ég, alltaf staðist. Aðalatriðið er þá hvort orðið er fallegra. Og „hnýsilegur“ er ólíkt fallegra.

En hér var áðan skotið inn orðinu „athyglivert“. „Athyglivert“ kemur frá ekki minni málsmekksmanni en Stefáni Jónssyni. Austur á Djúpavogi trúi ég að í gamla daga hafi menn leyft sér að segja „athyglisvert“, þeir hafi haft bandstafinn s í þessu orði. Nú þora menn ekki að segja „athyglisvert“ lengur, vegna þess að þeir eru búnir að læra að beygja nafnorðið „athygli“ og vita að það er ekki „athyglis“ í eignarfalli, heldur „athygli“. Þess vegna þora þeir ekki að setja bandstafinn inn. En það var orðið málvenja, þegar Stefán Jónsson var ungur drengur austur á Djúpavogi, að segja „athyglisvert“, og honum er óhætt að gera það enn og okkur öllum.

Þetta er enn ein tilgerðin, enn eitt dæmið um tilgerðina, sem upp er komin. Það er verið að venja menn af þessu eða hinu og gengið svo langt í því, að stundum verða af miklu alvarlegri slys en þetta. Ég heyrði eitt sinn tvær litlar telpur ræðast við, systur. Önnur þeirra var að byrja í skóla, og þar var nú heldur en ekki farið að venja hana af ýmsu slæmu. Og að sjálfsögðu hafði henni verið kennt, að maður segir ekki: „mér hlakkar til“ eða „mig hlakkar til“, heldur „ég hlakka til“. Kennarinn hefur að sjálfsögðu lagt sig fram um það að venja blessað barnið af þágufallssýkinni svonefndu. En það sýnist mér því miður að hafi æðioft verið helsta iðja kennara að venja börn af slíku, sem eru náttúrlega smámunir miðað við fjöldamargt annað varðandi móðurmálið. Víkjum svo aftur að systrunum. Sú yngri kemur inn með miklum gusti og segir: „Mér liggur á“. Þá setur sú eldri sig í kennaralegar stellingar og segir: „Þú átt ekki að segja: Mér liggur á. Þú átt að segja: Ég ligg á.“