08.03.1978
Efri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2816 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

209. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Eins og ég gat um þegar ég mælti fyrir frv. til lögréttulaga fyrir eitthvað tveimur dögum, er þetta frv., sem hér liggur fyrir breyt. á lögum um meðferð einkamála í héraði, fylgifrv. með því frv. Þótti rétt að fara fram á það við réttarfarsnefnd, að hún athugaði þetta frv. sérstaklega með tilliti til þess, að það gæti tekið þeim breytingum að það mætti afgreiða jafnvel þó að frv. um lögréttulögin næði ekki fram að ganga eða væri ekki afgreitt á þessu þingi. Ég held að það verði skýrast að ég lesi hér upp — með leyfi hæstv. forseta — hluta þeirra aths. sem réttarfarsnefnd lét fylgja þessu endurskoðaða frv., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sumarið 1977 beindi dómsmrh. því til réttarfarsnefndar, að hún endurskoðaði frv. til lögréttulaga og frv. um breyt. á einkamálalögunum. Endurskoðun síðara frv. hefur verið allviðamikil, þó að því fari fjarri að gerðar séu till. um fullnægjandi endurskoðun laganna. Frv. ber þess enn merki, að það er samið sem fylgifrv. með lögréttulögunum, en mörg atriði, sem kanna þarf nánar, eru látin liggja milli hluta. Engu að síður er frv. nú í þeim búningi, að réttarfarsnefnd telur að það megi samþ. þó að lögréttufrv. sé ekki afgreitt samtímis. Nefndin telur að veruleg réttarbót yrði, ef frv. fengist samþykkt. Jafnframt ítrekar nefndin þá till. sína að sett verði lögréttulög.

Í frv. þessu felast aðallega þessi nýmæli:

1) Sáttanefndir verði lagðar niður, en sáttastörf falin dómurum einum.

2) Tekin verði upp aðalflutningur mála, þar sem komi fram þær skýrslur, sem gefa á munnlega, og síðan fari munnlegur flutningur fram í beinu framhaldi af því.

3) Úrskurðir verði að jafnaði án forsendna og dómar verði styttir.

4) Nokkrir sérdómstólar verði lagðir niður: sjó- og verslunardómur, merkjadómur í Reykjavík og á Akureyri og aðrir fasteignadómstólar.

5) Þá eru í frv. till. um einstök atriði, sem eiga að stuðla að hraðari meðferð dómsmála og ótvíræðari reglum en nú gilda. Er þar um sumt stuðst við venjur, sem myndast hafa, t. d. um skriflegar grg. og aðilaskýrslur.“

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að fara að rekja einstakar greinar í þessu frv. eða aths. við þær. Aths., sem fylgja, skýra nokkuð efni og breyt. þær sem í greinunum felast. Ég legg áherslu á það, að þetta frv. fáist afgreitt, og vil endurtaka það og leggja áherslu á það, að jafnvel þó svo færi, mót von minni, að menn væru ekki reiðubúnir til þess að afgreiða frv. um nýja dómstóla — lögréttufrv. — þá má afgreiða þetta frv. Það er ekki það háð frv. um lögréttu og það mundi verða réttarbót að því út af fyrir sig, að þetta frv. yrði afgreitt, og í því felst ekki neinn sérstakur kostnaðarauki fyrir hið opinbera.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.