08.03.1978
Efri deild: 69. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2819 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

213. mál, þroskaþjálfar

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til þess að lýsa yfir stuðningi mínum við þetta frv. Ég fagna því, að það skuli vera lagt hér fram. Það er ákaflega nauðsynlegt, að frá þessum málum sé gengið í lögum eins og hér er lagt til.

Það er ástæða til þess að fagna því, að orðið hefur umtalsverð breyting á viðhorfum fólks til þeirra sem við fatlanir eiga að stríða, af hverjum toga svo sem þær eru spunnar. En orsakir fyrir því, að börn eru þroskaheft, eru að sjálfsögðu margvíslegar. Þær orsakir geta verið arfgengar, þær geta verið komnar vegna sérstakra sjúkdóma eða vegna áverka, og stundum er til að dreifa andlegum orsökum einum saman, sem ekki verða beinlínis taldar arfgengs eðlis. Það er ákaflega mikilvægt, að vel sé staðið að öllum athugunum á þessum málum, m. a. með tilliti til þess að reyna að fyrirbyggja þessa sjúkdóma, þannig að æ færri geti verið þroskaheftir.

Á síðari árum hafa orðið talsverðar framfarir í læknisfræði hvað viðkemur þessu. Í stað þess að allir séu taldir svona nokkurn veginn eins ef þeir eiga við einhverja fötlun að stríða, einkum þá andlega, er nú farið að rannsaka þessa einstaklinga til þess að komast eftir því, hver fötlun þeirra nákvæmlega er og á hversu háu stigi, og þannig að gera sér grein fyrir því, hvernig úr megi bæta. Endurhæfingin er því ákaflega mikilvæg. En hún er einnig ákaflega vandasöm, því hún tekur ekki til þess fyrst og fremst að þjálfa lamaðan lim eða bæta jafnvægi fólks t. d. Hún tekur til þess að reyna að endurhæfa hið andlega starf, ef ég má svo að orði komast. Vandamál sumra þessara einstaklinga er að geta ekki lesið, geta ekki tjáð sig eðlilega, geta ekki reiknað eða skrifað eða komið hugsun sinni í nægjanlega góða mynd, jafnvel þótt þeir kunni að vera lítið fatlaðir á ýmsum öðrum sviðum. Það gefur því auga leið, að það er ákaflega mikilvægt að það fólk, sem fæst við þessa einstaklinga, sé vel menntað og því sé búin góð aðstaða. Og til þess að tryggja að hægt sé að veita þessu fólki þá bestu hjálp, sem ætla má að það geti fengið að undangengnum rannsóknum, er nauðsynlegt að um það fjalli sem næst eingöngu fólk sem hefur menntun til að fylgja meðferðinni eftir. Þess vegna fagna ég, að þetta frv. skuli vera fram komið, og er sammála öllu því sem í því stendur.

Í framhaldi er svo rétt að vekja athygli á því, sem raunar kom fram hjá hæstv. ráðh., að ekki er siður mikilvægt að þjóðfélagið búi sig sem best undir það að taka við þessum einstaklingum — þeim þeirra sem mögulegt er — að taka á móti þeim og veita þeim aðstöðu eftir því sem mögulegt er til að starfa sem mest á hinum almenna markaði innan um annað fólk, sem er minna fatlað og að okkar dómi ekkert fatlað.