27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í B-deild Alþingistíðinda. (208)

22. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum landsins

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Till. sú, sem hér er til umr., er um að flýta uppbyggingu þjóðvega í snjóahéruðum landsins. Um þetta er vitanlega ekkert nema gott að segja. Gert er ráð fyrir því að gera kostnaðaráætlun um uppbyggingu þjóðvegakerfisins í hinum snjóþyngri héruðum landsins. Slík áætlun hefur að vísu verið gerð áður og hún er til, en vegna mikilla verðbreytinga er mikil þörf á að endurskoða hana og kannske færa hana eitthvað víðara út heldur en áður hefur verið gert. Það er ekki nema gott um það að segja að eiga slíka áætlun til. Hitt er svo annað mál, hvort tekst að gera alla vegi akfæra á snjóþungum vetrum að 4–6 árum liðnum. Úr því verður reynslan að skera og einnig því, hvernig tekst að afla fjár til vegagerðar í auknum mæli.

Enda þótt menn kvarti um slæma vegi, þá verður þó að viðurkenna að á undanförnum árum hefur verið gert mikið í vegamálum og er undrunarvert hversu vegir eru góðir í okkar stóra landi og fámenna. En það er alveg sjálfsagt að bera fram óskir um auknar framkvæmdir, en gera sér grein fyrir því, hvernig að þeim megi standa, og þá einnig, hversu er hægt að afla fjár án þess að of mikið verði tekið frá öðrum framkvæmdum sem líka teljast nauðsynlegar.

Það er ekki því að neita, að snjómokstur er dýr í snjóþungum héruðum þar sem vegir eru illa gerðir og kannske niðurgrafnir, og eitthvert fjármagn mun vitanlega snarast í snjómokstri eftir að búið er að hækka vegina. Er ekki nema sanngjarnt að taka tillit til þess. Hitt er svo augljóst mál, að framkvæmdir við fjölförnustu vegina með bundnu slitlagi gefa mestan raunverulegan arð.

Það verður aldrei svo, að það verði lagt aðeins í fjölförnustu vegi og unnið að því að gera bundið slitlag á þeim, en láta hitt sitja á hakanum. Ég geri ráð fyrir að samkomulag verði um að vinna að hvoru tveggja eftir því sem hagkvæmt þykir og ástæður eru til.

En það er með fjármagnið sem okkur vantar alltaf, hvernig á að afla þess. Hér hefur verið minnst á fjáröflun sem kemur fram í fjárlagafrv. Ætlast er til að hækka bensínið allverulega í þessu skyni. Það er gert ráð fyrir því í fjárlagafrv. að bensínið verði hækkað um 15 kr. lítrinn, sem gerir í raun hækkun á útsöluverði um 19–20 kr., því að við þessar 15 kr. bætist söluskattur og við þessar 15 kr. bætast hækkuð sölulaun o.fl. vegna hækkaðs verðs á bensíni. Mig minnir að það séu 14 eða 15 liðir, alls konar liðir í útreikningum á bensínverðinu sem koma til greina, það er leki eða rýrnun, sem er í prósentum, og það eru ýmsir aðrir liðir, þannig að þessar 15 kr. verða 19–20 kr, í útsöluverði. Nú er lítrinn 93 kr. og við skulum segja að hækkunin verði 19 kr., þá er bensinverðið komið í 112 kr.

Þess ber einnig að geta, að í des. 1975 var lögfest að ríkisstj. væri heimilt að hækka bensíngjald á hverjum tíma í samræmi við hækkun byggingarvísitölu, og þessi heimild hefur verið notuð. Ég geri ráð fyrir að ríkisstj. noti þessa heimild áfram, því að ef það verður ekki gert rýrnar fjárhagur Vegasjóðs með hækkuðu verðlagi, en bensínið er, eins og kunnugt er, alldrjúgur tekjustofn sem rennur í Vegasjóð. Ef við gerum ráð fyrir að á næsta ári verði hækkun byggingarvísitölu 35%, en bensingjaldið er nú 23 kr., þá væri hækkun á bensínlítranum af þessum ástæðum á næsta ári 8.05 kr. + söluskattur 2.40 + annað sem fylgir í kjölfarið. Ef hækkun byggingarvísitölu yrði á næsta ári 35%, þá yrði hækkun á bensíni á næsta ári af þeim ástæðum, með því að heimildin verði notuð, 11 eða 12 kr. Þá er hækkun á bensínlítranum af þessum tveim ástæðum komin upp í 30–31 kr. Nú er bensínverð, eins og ég áðan sagði, 93 kr., segjum að hækkun sé 30 kr., þá er bensínverð 123 kr. lítrinn. Ef geri er ráð fyrir að á næsta ári verði einnig eitthvert gengissig, sem vel getur átt sér stað, og auk þess einhver hækkun erlendis á bensíni, sem einnig gæti átt sér stað, þá er engin fjarstæða samkvæmt þessum útreikningum að bensínlítrinn yrði kominn seinni hluta næsta árs upp í 130 kr., ef það yrði gert sem er fyrirhugað í sambandi við bensínverðið.

Nú er ætlunin að auka tekjur Vegasjóðs á þennan hátt, gert í góðri meiningu. En þá kemur spurning, hvort tekjur Vegasjóðs muni aukast í samræmi við þessa hækkun. Er ekki hugsanlegt að ýmsir minnki bensínnotkunina eftir að bensínlítrinn er kominn upp í 120–130 kr.? Er það ekki mjög líklegt? Ég er hræddur um að þeir, sem hafa takmörkuð eða lítil fjárráð, en þeir eru ábyggilega mjög margir, spari fyrr bensínið en t.d. mat og aðrar nauðsynjar sem heimilið þarf á að halda. Ég held þess vegna að það sé vafasamt að tekjur Vegasjóðs hækki í samræmi við þessa hækkun á bensíninu, enda þótt hækkuninni sé ætlað að ganga beint til Vegasjóðs. Ég held að það sé nauðsynlegt að íhuga þetta, gera sér fulla grein fyrir þessu áður en ákvörðun verður tekin um tekjuöflun Vegasjóðs til handa með þessum hætti, a.m.k. í svo ríkum mæli sem hér hefur verið lýst.

Nú er ég alveg á sama máli og síðasti hv. ræðumaður, að það sé eðlilegt að ríkisstj. standi við þær yfirlýsingar sem gefnar voru á s.l. vori um endurskoðun á vegáætluninni. Það ber hverri ríkisstjórn að gera, og það veit ég að núv. ríkisstj. ætlar sér að gera. En þess er þá að geta, að þegar hæstv. samgrh. gaf nefnda yfirlýsingu minntist hann ekkert á hversu mikil sú hækkun skyldi verða á fjármagni Vegasjóðs sem fyrirhugað væri að gera, heldur að vegáætlunin skyldi verða endurskoðuð með það í huga að auka það fjármagn sem Vegagerðin hefði yfir að ráða á næsta ári eða næstu árum. Það er þess vegna eðlilegt að menn hugleiði hvaða leið sé heppilegust til að standa við þetta loforð og hversu mikið þurfi að gera til þess að staðið sé við það loforð sem hæstv. samgrh. gaf.

Ég held einnig að það sé óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir því, ef sú leið verður farin sem hér hefur verið rætt um, að hækka bensínið í jafnríkum mæli og sumir vilja gera, að það hlýtur að hafa mikil áhrif á verðbólguna. Ég hef ekki fengið reiknað út hversu mikið verðlagsvísitalan hækkar af þessum ástæðum, en keðjuverkanir munu eiga sér stað allverulegar. Er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því. Allir eru sammála um að ríkisstj. og Alþ. beri að vinna gegn dýrtíð og verðbólgu, en ekki kynda undir með einum eða öðrum hætti.

Um leið og ég lýsi því yfir, að ég tel sjálfsagt að gera það sem unnt er til þess að bæta vegina og vinna að framkvæmdum í vegagerð, um leið og ég tel sjálfsagt að staðið verði við það loforð sem ríkisstj. gaf á s.l. vori um endurskoðun vegáætlunar, þá vil ég benda á að áður en sú leið verður farin að hækka bensínið með þeim afleiðingum að bensínlítrinn geti komist upp í 130 kr. á næsta ári, þá sé nauðsynlegt að íhuga hvort ekki séu aðrar og heppilegri leiðir sem mætti finna til þess að standa við gefin loforð af ríkisstjórnarinnar hálfu.