08.03.1978
Neðri deild: 65. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2832 í B-deild Alþingistíðinda. (2081)

62. mál, grunnskólar

Gunnlaugur Finnsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, örfáar aths. sem mig langaði til að gera. Ég vil fyrst taka það fram, að ég sagðist mjög vel skilja það, að þm. flyttu mál sem þeir væru beðnir um að flytja. Ég held að ég hafi alls ekki verið að hnýta neitt í þá menn, sem ern flytjendur málsins, út af fyrir sig. Þetta vil ég taka sérstaklega fram í tilefni af ummælum hv. 5. þm. Reykn. Það, sem var meginmálið, var að Hafnarfjarðarbær sækir um þetta vegna þess að hann er ekki í samtökum sveitarfélaga í Reykjanesumdæmi. Það er meginástæðan. Og sú er ástæðan, að ég harmaði það að varaformaður Sambands ísi. sveitarfélaga þurfti að standa í þessu máli, að þarna er verið að brjóta þessi samtök upp. Sú var ástæðan, en ekki að hann væri sem þm. Reykn. að flytja mál fyrir stórt bæjarfélag í sínu kjördæmi. Og það er vegna þess að ég þykist sjá það, að nú er möguleiki til þess að segja sig fyrst úr samtökunum og segja svo: Ég verð að fá minn rétt, af því að ég hef ekki aðgang í þeim samtökum sem ég sagði mig úr. — Þetta ern dauð rök að mínu mati vegna þess að samtökin eru opin til áhrifa hverju því sveitarfélagi sem er á viðkomandi svæði. Þess vegna segi ég, að meginmálið og meginástæðan eru dauð rök. Það er ekki sú ástæða sem er fyrir hendi.

É'g er að sjálfsögðu ekki fær um að dæma um hverjir eru hagsmunir Hafnarfjarðar. Það gerði ég ekki heldur. Ég sagði bara, að að mínu mati teldi ég þetta vera ímyndaða hagsmuni, þegar ekki er um annað að ræða en það, hvort maðurinn, sem er fræðslustjóri í Reykjanesumdæmi og meira að segja býr í Hafnarfirði — (Gripið fram í.) — hann hefur gert það — þurfi aðeins að fara út fyrir bæjarmörkin nokkrar mínútur til þess að komast á fræðsluskrifstofuna. Ég sé ekki nokkurn mun á því, eins og háttað er samgöngum hér, hvorum megin bæjarmarkanna hann er staðsettur. Og það sýndi sig einmitt. að hv. ræðumaður sagði að Suðurnesin kæmu vel til greina. Hann sagði að hann væri vantrúaður á að Akureyri og Kópavogur mundu óska eftir fræðsluskrifstofu, af því að þessir kaupstaðir væru í landshlutasamtökuna. Ég segi ekkert annað en það, að ekki þarf annað en nýja bæjarstjórn og nýja einstaklinga í viðkomandi bæjarstjórn til að gera einfalda samþykkt um það að ganga úr samtökunum til þess að fá fræðsluskrifstofur, ef þeim sýnist svo. Og ég vil spyrja í framhaldi af þessu: Hvað telur hv. þm. að sé eðlilegt að ríkið reki margar fræðsluskrifstofur á þessum grunni um land allt? Hvað eigum við að þenja þetta kerfi mikið út? (ÓE: Ég er ekkert viss um að þetta kerfi sé það hesta.) Nei, þess vegna held ég að við eigum að sporna við því að þenja þetta kerfi út. Og ég er algerlega á móti því, get ekki fallist á þau rök sem komu fram í niðurlagi ræðu hans, að hér sé um að ræða dreifingu valds. Óskapleg dreifing er það úr Garðabæ og suður í Hafnarfjörð, þar sem sama þjónusta er veitt. (ÓE: Þetta er voðalegur misskilningur hjá ræðumanni.) Nei, það er alls enginn misskilningur. Það er náttúrlega vegna þess að ég benti á þá þversögn, sem uppi er í sambandi við þetta mál og aðra stefnumörkun. Og þess vegna gengur mér dálítið illa að skilja, hvernig hetta mál er túlkað hér á hv. Alþingi.