27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í B-deild Alþingistíðinda. (210)

22. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum landsins

Flm. (Ingi Tryggvason):

Herra forseti. Ég vil þakka þær umr., sem orðið hafa um þessa þáltill., og sérstaklega lýsa ánægju minni yfir því, að Karvel Pálmason, hv. 5. þm. Vestf., skyldi lýsa yfir stuðningi við till. enda þótt hann virtist hálfargur í skapi yfir henni.

Það er alveg rétt að uppbygging vegakerfisins hefur ekki farið svo hratt fram sem menn gjarnan vildu. Hins vegar er allmiklu fé varið til vegagerðar, og það er auðvitað ekki síst tilgangur þessarar till. að vekja athygli á því, hvaða verkefni við teljum nauðsynlegast að leysa í vegagerð. Og það er trú mín, eins langt og þessu verkefni er komið, að það sé ekki óyfirstíganlegt á nokkurn hátt að byggja upp helstu samgönguleiðir um byggðir landsins á tiltölulega skömmum tíma í snjóahéruðunum svo þeir vegir verði sæmilega vetrarfærir.

Það hefur komið í ljós að mjög víða í þeim sveitum, sem taldar hafa verið snjóþungar, hefur orðið algjör bylting í samgöngum eftir að vegir voru byggðir upp úr snjónum, eins og við köllum það. Þar sem áður var ótrúlegum erfiðleikum bundið að koma frá sér vörum og að sér vörum yfir vetrarmánuði í venjulegu árferði er svo komið, eftir að vegakaflar hafa verið byggðir upp, að þeir standa auðir þó eldri kaflar séu á kafi í snjó. Reynslan af því að byggja vegina upp á þennan hátt er örugglega langt umfram það sem bjartsýnustu menn þorðu að vona, þegar þessi nýja uppbygging veganna hófst.

Þetta er vissulega ánægjuefni, og þrátt fyrir það að hv. þm. Karvel Pálmason geri lítið úr vegaframkvæmdum, þá er það þó staðreynd að á síðustu árum hefur talsvert breyst röðun verkefna. Ég er því miður ekki með nógar skriflegar upplýsingar hjá mér, en ég man eftir því, að fyrir nokkrum árum — ég held fyrir 1960 — var það eitt árið svo, að helmingur nýbyggingarfjár til vegagerðar kom í aðeins eitt kjördæmi landsins, og auðvitað sést í því kjördæmi að þar eru vegir greiðari yfirferðar en annars staðar.

Það er alveg rétt, að það gefur mestan arð ef lagt er bundið slitlag á fjölförnustu vegina. En það gefur þó aðeins þeim arð sem um þá vegi fara og hafa af þeim bein not. Eins og þér hefur áður komið fram er einmitt vegagerðin eitt af helstu jafnréttismálunum. Eins og nú er hefur ríkissjóður meira upp úr þeim ökumönnum, sem aka um vonda vegi, heldur en hinum, sem aka um góða vegi. Það er svolítið gaman að velta fyrir sér þeim tölum sem ég raunar nefndi hér áðan, að ef eigandi fólksbíls ekur 10 þús. kílómetra á ári, sem ekki er neitt tiltakanlega mikill akstur, þá greiðir þessi maður í skatta til ríkisins eftir því hvernig vegirnir eru. Nú veit ég auðvitað að það er enginn einn sem ekur alltaf á góðum vegi og einhver annar sem ekur alltaf á vondum. Það hreyfist að vísu. En sá, sem ekur á vegi með bundnu slitlagi, greiðir til ríkissjóðs samkvæmt þessum útreikningi Vegagerðar ríkisins, sem ég nefndi áðan, 164 890 kr. á ári. Það er hans árlegur skattur til ríkissjóðs ef hann ekur bílnum sínum 10 þús. km. Aki þessi maður á góðum malarvegi, eins og Vegagerðin kallar það, greiðir hann ekki um 165 þús. kr., heldur greiðir hann 215 þús. kr. til ríkissjóðs. Og aki hann á vondum malarvegi greiðir hann 244 bús, eða um 80 þús. kr. meira til ríkissjóðs heldur en ef hann ekur á bundnu slitlagi.

Þetta eru vissulega athyglisverðar tölur. Ef við athugum muninn á skattinum, þá greiðir sá, sem ekur á góðum malarvegi, rúmum 50 þús. kr. meiri skatt til ríkisins heldur en sá sem ekur á malbikinu, og sá sem ekur á vondum malarvegi 79 þús, kr. meira en sá sem ekur á malbikinu. Þetta gæti leitt hugann að því sem kom fram í ræðu hv. þm. Ingólfs Jónssonar, að e.t.v. væri rétt að hyggja að fleiri leiðum til þess að fjármagna vegagerð í þeim byggðum sem lakar eru settar heldur en viðbótargjald af bensíni.

Mig langar aðeins í þessu sambandi að nefna það, að sú aðferð, sem við höfum við öflun tekna í Vegasjóð, er auðvitað tvíeggjuð. Þeir, sem þegar eru búnir að fá góðan veg undir hjólin á bílnum sínum, standa auðvitað allt öðruvísi að vígi að greiða hátt gjald til Vegasjóðs heldur en hinir, sem ekki njóta þeirra hlunninda sem góður vegur veitir. Þess vegna er það vissulega fullrar athygli vert, hvort ekki er hægt að koma á ný á veggjaldi á þeim köflum þjóðveganna sem best eru úr garði gerðir. Ég veit að þetta er ýmsum vandkvæðum bundið og til þess að það megi verða þarf að nást samstaða. Þetta gjald mætti að vísu leggja á með mismunandi hætti. En ég vil benda á það, að hugsanleg leið út úr þeim vanda, sem við erum í í vegamálum, er að leggja hærra gjald á þá, sem bestra veganna njóta, heldur en hina, sem aka lakari vegi.

Það er líka hugsanlegt að taka erlend lán til vegagerðar. Ég veit mjög vel að við höfum þegar tekið svo mikið af erlendum lánum að þessi leið er mjög erfið. En þar komum við aftur að hinu sama, að það er erfitt, eins og nú er, að láta sömu mennina gjalda þess hvors tveggja, að hafa versta vegi og greiða þó mest fyrir notkun þeirra. Þarna þarf að komast á aukið jafnrétti, og það kemst því aðeins á að aukinn verði hraði vegaframkvæmda frá því sem nú er.

Ég minntist á vetrarviðhaldið og að það hefði hlutfallslega minnkað. Það er rétt að geta þess, að þó hefur það verið aukið að því leyti, að snjómokstur hefur verið tíðari og er það vissulega réttarbót þeim sem búa við mikil snjóþyngsli. En þarna er einn mismunurinn sem menn búa víð, að snjómokstur á vegum ríkisins er mjög mismunandi, oft eftir umferð á vegunum og öðrum aðstæðum, og þegnarnir búa vissulega við misjafnan hlut að þessu leyti. Enda væri ekki eins mikil þörf á að ýta eftir uppbyggingu vega í snjóahéruðum ef öllum þegnum væri séð fyrir því að vegir þeirra væru mokaðir svo að þeir væru þrátt fyrir alla erfiðleika yfirleit, opnir.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta frekar að sinni. Það hlýtur að verða áfram margra manna áhugamál að hægt verði að örva framkvæmdir í vegagerð og við hljótum að þurfa þá fremur að halda að okkur höndum einhvers staðar annars staðar ef við getum þokað þessum þætti betur áfram en hefur verið. Vil ég þó á engan hátt gera lítið úr því sem áunnist hefur, síður en svo.