13.03.1978
Neðri deild: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2867 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

40. mál, skólakostnaður

Frsm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. til l. um breyt. á lögum frá 1967, um skólakostnað, flutt af hv. þm. Karvel Pálmasyni o. fl. Frv. felur það í sér, að 7. gr. laganna breytist þannig, að ný mgr. komi svo hljóðandi:

„Þó skal ríkissjóður ávallt greiða 75% áætlaðs stofnkostnaðar sundlauga í útgerðarstöðum sem hafa innan við 4 þús. íbúa.“

Þetta frv. hefur, að ég hygg, tvívegis áður verið flutt hér á hinu háa Alþ. Í fyrsta skiptíð mun það hafa dagað uppi, en í hið síðara var því vísað til ríkisstj. Reyndar hefur það verið afstaða menntmn., þegar hún hefur fengið þetta frv. til athugunar, að eðlilegt væri að vísa þessu máli til ríkisstj. Ekki hefur verið samstaða um það í n., en menn hafa þó viljað láta athuga þetta mál betur. Þess er líka að geta, að n. hefur leitað álits ýmissa, sem hér hafa þekkingu á, og hafa skoðanir verið skiptar. Vísar n. m. a. í álit íþróttafulltrúa ríkisins, sem telur að vafasamt sé að gera lagalegan mismun á hlutdeild ríkissjóðs í byggingu sundlauga á þeim grundvelli sem frv. gerir ráð fyrir.

Þar sem Alþ. hefur áður samþykkt að vísa þessu máli til ríkisstj. og till. frá henni liggja ekki fyrir og þar sem ágreiningur er um þetta mál og augljóst að það þarf frekari rannsóknar við, þá treystir n. sér ekki til að leggja annað til en að frv. verði enn á ný vísað til ríkisstj.