13.03.1978
Neðri deild: 66. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2867 í B-deild Alþingistíðinda. (2101)

40. mál, skólakostnaður

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Enn einu sinni hefur hv. menntmn. fjallað um þetta mál, þetta mun vera í þriðja skiptið sem hún fjallar um það, og enn virðist sama niðurstaða vera í n. Má því með sanni segja að í afstöðunni til þessa máls birtist í raun og veru í sinni réttu mynd samtryggingarkerfi hinna pólitísku flokka.

Ekki hefur farið milli mála, þegar þetta hefur verið rætt, að velflestir hafa tekið undir þá nauðsyn að hér yrði að ráða bót á að því er varðar það meginmarkmið frv. að gera hinum smærri útgerðarstöðum kleift að koma upp aðstöðu bæði til sundkennslu og sundiðkunar, ekki síst vegna þess sjónarmiðs, að engum er nauðsynlegra að kunna sund og geta haldið því við en þeim sem sjómennsku stunda. Það vekur furðu mína, að hv. nm. í menntmn. skuli ekki geta tekið undir þetta sjónarmið í reynd, en tala þó eigi að síður meira og minna um það og þá stundum að verulegu leyti undir rós, hversu nauðsynlegt þetta sé.

Hér sannast enn einu sinni það, sem m. a. ég hef haldið fram, að hv. þm., sem undirrita þetta nál., taka undir það sjónarmið íþróttafulltrúa að vafasamt sé að gera lagalegan mismun á hlutdeild ríkissjóðs í byggingu sundlauga á þeim grundvelli sem frv. gerir ráð fyrir. Það er sem sagt gamla mótbáran alltaf uppi. Það má ekkert gera á þeim stöðum sem sannarlega eru á eftir að því er þetta varðar, t. d. byggingar sundlauga og slíkra íþróttamannvirkja. Það má ekkert gera á þeim stöðum, þrátt fyrir að vitað sé að við ríkjandi aðstæður og gildandi lög er það vonlaust í náinni framtíð fyrir flest þessara sjávarþorpa, að þau geti byggt mannvirki af þessari gerð — gjörsamlega vonlaust. Þrátt fyrir þessa staðreynd segja þessir hv. þm., sumir hverjir þm. dreifbýlisins, umboðsmenn þeirra staða, fólksins á þeim stöðum sem hér er verið að tala um, að vafasamt sé að gera þennan mismun lagalega fyrir þessa staði, það verði að gilda sama reglan alls staðar. Þó höfum við dæmin fyrir okkur og þá staðreynd, að hinir stærri þéttbýlu staðir geta framkvæmt þetta, en í velflestum sjávarþorpunum, sem talað er um í frv., er gjörsamlega vonlaust að byggja þessi mannvirki.

Þær kringumstæður, sem við nú búum við og höfum búið við um alllangt skeið, eru þær, að kerfið beinlínis setur skorður við því, að hægt sé að byggja nothæf sundlaugarmannvirki sem væru innan þess hóflega ramma fjárhagslega séð sem sveitarfélög réðu við. Ríkið segir eða kannske öllu heldur íþróttafulltrúi í nafni ríkisins: Við lánum ekki út á íþróttamannvirki af þessari gerð eða þessari stærð. Við heimilum ekki byggingu þeirra, veitum ekki fjármagn til þeirra, nema það sé svo dýrt, langt umfram það sem þarf að vera, að útilokað er fyrir viðkomandi bæjar- eða sveitarfélög að ráðast í framkvæmdir. — Þetta eru staðreyndir sem við höfum á borðinu. Og undir þetta taka þessir hv. dreifbýlisþm., eins og hv. þm. Sigurlaug Bjarnadóttir, hv. þm. Ingvar Gíslason, Eyjólfur Konráð Jónsson og Gunnlaugur Finnsson. Öll þessi hjörð tekur undir þetta sjónarmið íþróttafulltrúa, er hann segir í nafni ríkisins: Við megum ekki gera þann lagalega mismun á þessu, að við gerum þessum stöðum kleift að byggja mannvirki sem kæmu að notum í þessu tilfelli. — Þetta er svarið sem íbúar sjávarþorpanna víðs vegar í kringum landið fá frá þessum umbjóðendum sínum hér á Alþ. Vonandi skilja kjósendur þetta svar og muna það næst þegar þeir kvitta — innan ekki langs tíma — fyrir sig og sína.

Hv þm. Ellert B. Schram sagði áðan, að leitað hefði verið álits þeirra sem hvað mesta þekkingu hafa á þessu. Ja, sér er nú hver þekkingin. T'ökum í þessu tilfelli íþróttafulltrúa sem dæmi. Hann lætur í ljós skoðun sína á þessu. Það er sú hin eina skoðun, að hann er á móti því að gera þessum stöðum kleift að byggja sundlaugar. Það er sú þekking sem þessir nm. byggja á. Það er allt önnur skoðun sem íbúar þessara staða hafa á þessu máli. Þeim er löngu orðið ljóst að bæta verður úr þessu. Má furðu gegna með hv. alþm., sem til þekkja, ef þeim er ekki orðið það ljóst fyrir löngu, að ekki getur lengur gengið eins og verið hefur í þessum efnum. Það er beinlínis ekki hægt að bjóða sjómönnum þessara staða, þessara byggðarlaga, þessara útgerðarstaða upp á það áratugum saman, að ekki sé hægt að byggja sundlaugarmannvirki til þess að þeir geti í fyrsta lagi lært sund og í áframhaldi af því iðkað það, en þeim er það lífsnauðsyn vegna starfa þeirra í þágu þjóðfélagsins.

Ekki þarf að rekja það hér frekar eða oftar, sem margoft hefur komið fram, að ef illa tekst til, þá skiptir það sköpum um líf eða dauða viðkomandi einstaklings, hvort hann kann að synda eða ekki. Þau dæmi höfum við fyrir okkur æðimörg. En þrátt fyrir það er sunginn sami söngurinn: Það er vafasamt að gera einstaklingum í sjávarþorpum af þessari stærð kleift að læra að synda eða iðka sund.

Ég sé ekki betur en í nál. menntmn. sé beinlínis lagst gegn frv. Það er nefnilega tekið undir það álit íþróttafulltrúa, að vafasamt sé að gera þetta. Hér er því í raun og veru um það að ræða, að fulltrúar í menntmn. neita þessu frv., en leggja til til málamynda að því verði vísað til hæstv. ríkisstj. með þeim ummælum nm. allra að þeir telji vafasamt að málið eigi nokkurn rétt á sér eða eigi að ná fram að ganga.

Það er auðvitað ljóst með hliðsjón af þessu, að ég mun greiða atkvæði gegn því, að málinu verði vísað til ríkisstj. með þessari umsögn menntmn. því hún er neikvæð. Ég verð að segja að mig furðar á því og raunar tekur mig það sárt, að þeir fulltrúar á Alþ., sem telja sig umboðsmenn þess fólks, sem hér á fyrst og fremst hlut að máli, þ. e. a. s. sjómannanna á þessum stöðum, aðstandenda þeirra og raunar þjóðarheildarinnar, þeir skuli ekki sjá sóma sinn í því að taka svo myndarlega á þessu máli að það fái greiðan gang í gegnum þingið.

Það er ekkert rökstutt frekar í þessu nál. menntmn., hver sé ástæðan fyrir því, að hún tekur undir það sjónarmið íþróttafulltrúa að vafasamt sé að gera þetta. Það eru engar röksemdir færðar fram fyrir því, þannig að í þær eyður verður að geta. Ég get mér þess helst til, að líklega sé ástæðan sú, að þetta kosti mikla fjármuni, — líklega, segi ég, því ég hef ekkert áþreifanlegt til að byggja þessa skoðun á. Og vel má vera að hv. alþm. þyki farið fram á of mikla fjármuni í þessu efni. Ég hygg að þm. almennt ættu fremur að hafa það sjónarmið í huga, að aldrei verður of mikið gert, í raun og veru kostar aldrei of mikið að bjarga mannslífi. Það er aðalatriðið sem hér er um að ræða. Og ég trúi því ekki, ég á a. m. k. erfitt með að trúa því, að þeir fjármunir sem hér mundi verða um að ræða, yrði það gert sem þetta frv. gerir ráð fyrir, — ég trúi því ekki fyrr en á því verður tekið, að það sé alls ráðandi sjónarmið alþm., að það eigi að horfa í þá peninga, sem þetta kemur til með að kosta. Fremur ætti að huga að því, að með þessu verður vafalaust hægt að koma í veg fyrir hugsanlegt manntjón sem ella yrði.

Fram kemur í töflu, fskj. sem fylgir þessu frv., og er raunar hrikalegt að sjá það sem þar birtist, þ. e. ástandið í þessum málum á hinum ýmsu landssvæðum. Í sumum landshlutum er þannig ástatt, að velflestir útgerðarstaða þar, sem kæmu til með að heyra undir ákvæði frv. yrði það samþ., eru þannig settir, að þar er bókstaflega engin aðstaða til sundkennslu. Er þó höfuðatvinnuvegurinn sjómennska. Að öllum líkindum eru langsamlega flestir þeirra einstaklinga, sem sjómennsku stunda frá þessum stöðum, ósyndir, en það er vegna þess að engin aðstaða hefur verið fyrir hendi svo áratugum skiptir til þess að þeir gætu lært að synda.

Það verður að teljast furðulegt sjónarmið að hálfu Alþingis Íslendinga, að lagst skuli vera gegn því, að þessu verði breytt, þegar það er haft í huga að við höfum verið og erum enn fiskimannaþjóð, sem byggjum fyrst og fremst lífsafkomu okkar á starfi þeirra einstaklinga sem hér um ræðir, þ. e. a. s. sjómannastéttarinnar. Hér er sem sagt uppí af hálfu menntmn., fulltrúa þeirrar n., þetta sama gamla sjónarmið: Við gerum öllum jafnt undir höfði í þessu tilfelli, — þó að dæmin sýni að fjöldi staða á landinu býr við þær kringumstæður að gjörsamlega vonlaust er að þeir geti, miðað við gildandi lög, í náinni framtíð hafið byggingu mannvirkja að þeirri gerð sem þarf til þess að þessum þörfum sé fullnægt. Svarið er sem sagt: Hversu illa þið eruð settir, sem búið á þessum stöðum, skiptir engu. Við látum sömu lagaákvæði gilda fyrir alla.

Ég harma að þetta viðhorf skuli ríkja innan hv. menntmn. Ég vona að það sé ekki mjög ríkjandi í hv. deild eða á Alþ. almennt eins og virðist vera innan menntmn., því allir, bókstaflega allir fulltrúar í þeirri n. virðast vera um það sammála að drepa þetta mál. Það hlýt ég og við flm. þessa frv. að harma mjög. En því virðist ekki verða breytt að því er varðar hv. nm. í menntmn. Þeir hafa haft sama sjónarmið og sömu viðhorfin í öll skiptin sem málið hefur farið til n. og fengið umfjöllun þar, og það er ekki að sjá að nein breyting sé væntanleg. Ég vona eigi að siður í lengstu lög, að hv. deild sé ekki á sömu skoðun og menntmn. Ég vænti þess fastlega að gripið verði fram fyrir hendur menntmn. og deildin samþykki þetta frv. eins og það liggur fyrir. Ég vænti þess að deildin hafni frv. ekki eins og menntmn. gerir, þó hún með yfirklóri leggi til að því verði vísað til ríkisstj. með þeirri umsögn að hún telji að málið sé ekki svo réttlætanlegt að það beri að samþykkja á þinginu.

Eins og ég sagði áðan, hlýt ég að greiða atkvæði gegn því að málinu verði vísað til ríkisstj. með þessari umsögn, því umsögnin er um það að hafna málinu.