14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2874 í B-deild Alþingistíðinda. (2105)

326. mál, orkumál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 58 hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fyrirspurnir til hæstv. iðnrh.:

„1. Hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um að ráðist verði í virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal á næsta ári? Sé svo ekki, hvenær er þá þeirrar ákvörðunar að vænta?

2. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til þess, að ekki komi til orkuskorts á Austurlandi á vetri komanda?“

Eins og þessi sp. ber með sér í raun og veru, þá kemur í ljós að hún var borin fram á síðasta ári, nánar tiltekið í októberlok s. l., en ýmissa ástæðna vegna hefur henni ekki verið svarað fyrr. Ástæður skulu ekki raktar hér. en margt hefur gerst og skýrst frá þeim tíma er fsp. var fram borin.

Varðandi síðari liðinn er það að segja, að þær dísilvélar, sem þá var um spurt og óvissa ríkti um hvort fengjust, hafa verið teknar í notkun og orkuskorti því afstýrt í vetur að mestu. En varðandi fyrri liðinn hefur í raun ekkert gerst ákveðið a. m. k., engin ákvarðanatekt farið fram. En þó hefur ýmislegt gerst í málinu, skýrt það og upplýst enn betur og um leið hlaðið rökum enn frekar undir það, að ákvörðun væri unnt að taka.

Við þm. Austurl. höfum fengið í hendur fróðlega og góða heildarkönnun frá Hönnun hf. um rannsóknir og niðurstöður vegna fyrirhugaðrar Bessastaðavirkjunar, bók nr. 2 um þetta og síðan umsögn RARIK um hugmyndir og niðurstöður þeirra Hönnunarmanna — mjög jákvæða — og endurskoðun kostnaðaráætlunar, sem miðast við að ljúka eingöngu fullnaðarhönnun virkjunarinnar í ár, en fresta gerð útboðsgagna, vinnubúðum, vega- og brúargerð til ársins 1979. Þar segir með leyfi forseta:

„Nauðsynleg fjárveiting 1978 yrði þá 65 millj. kr. Er þá gert ráð fyrir, að unnt sé að taka 1. áfanga virkjunarinnar í notkun síðla árs 1982.“ Í þessari endurskoðuðu kostnaðaráætlun segir einnig, með leyfi hæstv. forseta: „Við endurskoðunina voru fyrri kostnaðaráætlanir endurreiknaðar til verðlags í september 1977. Verði virkjunin byggð með 56 mw. afli í einum áfanga er áætlaður kostnaður 11696 millj. kr. og orkuverð 4.54 kr. á kwst., en verði hún byggð í tveimur 28 mw. áföngum, er áætlaður kostnaður við fyrri áfanga 6822 millj. kr., en 5569 millj. við seinni áfanga, eða samtals 12 391 millj. kr. og orkuverð 4.81 kr. á kwst. Áætlaður orkukostnaður virkjunarinnar er talinn innan þeirra marka sem eðlilegt má telja frá virkjun af þessari stærð.“

Þetta var úr áliti Rafmagnsveitna ríkisins, sem okkur þm. Austurl. barst í hendur, en fleira hefur og gerst. Fjárlög hafa verið afgreidd, lánsfjáráætlun hefur einnig fengið sína umfjöllun, og hvort tveggja vísar nokkuð leiðina hvert stefnt skuli. Þar er erfitt að finna þá upphæð, sem er þó sú allra lægsta samkv. umsögn RARIK, sem fer til að ljúka eingöngu fullnaðarhönnun virkjunarinnar. Hins vegar er svo það, að menn biða sífellt óþreyjufyllri eftir ákvörðun um virkjun Bessastaðaár. Ég nefni það, að í síðasta eintaki Austra, málgagni þess stjórnarflokksins sem mestu ræður á Austurlandi, eru höfð nokkur orð um vanefndir hæstv. iðnrh. á loforðum um ákvörðun s. l. haust. Vekja þau nokkra furðu þegar tillit er tekið til þess, að það er annar stjórnaraðilinn sem heldur úti þessu blaði. en það sýnir þó aðeins bann mikla þrýsting eystra sem er varðandi málið.

Hér er um eitt aðalmál, e. t. v. hreint aðalmál fjórðungsins að ræða. Dísilkeyrsla eykst stöðugt, bráðabirgðalausnir æ ofan í æ duga ekki lengur. Heimildarlögin um virkjunina eru frá 1975 og eftir þær ítarlegu rannsóknir, sem fram hafa farið, og niðurstöðu þeirra er von að menn vænti enn fastlega ákvarðanatöku, þó ekki yrði meira aðhafst en segir í skýrslu RARIK, nú á þessu ári. Meðalaflageta vatnsorkuvera á samtengisvæði Austurlandsveitu, og þá er átt við Grímsárvirkjunarsvæðið eitt, er 10.5 mw að sumarlagi og 5.1 mw. að vetrarlagi. Aflþörfin er um 21 mw. á mesta álagstíma vetrarins, þegar mest reynir á orkukerfið.

Síðustu fréttir af Austurlínu eru ekki heldur uppörvandi fyrir Austfirðinga. Væri kærkomið að hæstv. ráðh. léti í té upplýsingar um hvernig brugðist verði við þeim vanda sem þar er nú á ferð. En þó Austfirðingar styðji þá framkvæmd og samtengingu alls landsins heils hugar, þá munn þeir í engu una því, að það standi á nokkurn hátt í vegi fyrir því. að upp komi í fjórðungnum sjálfsögð meðalstór vatnsaflsvirkjun. Staðreyndin er einnig sú, að þótt flutningsgeta væntanlegrar Austurlínu nýtist til fullnustu, sem verður þó að teljast í meira lagi hæpið, þá yrði dísilkeyrslu á Austurlandi ekki útrýmt með því. Allt hnígur því að ákvarðanatöku sem allra fyrst og framkvæmdum í kjölfar þess. Því er aðalspurning Austfirðinga í dag: Hvenær verður ákvörðun tekin um Bessastaðaárvirkjun og hvenær er líklegt að framkvæmdir hefjist?

Varðandi síðari liðinn, sem nú hefur að miklu leyti verið leyst úr, a. m. k. þar sem ástandið hefur verið ótryggast og verst, vildi ég aðeins segja, að þar skortir enn mjög á um næga styrkingu á Suðurfjarðalínu einkum um Stuðlaheiði og rannar víðar. Við þm. Austurl. höfum fengið um það þau svör, að framkvæmdir við þessa styrkingu væru í rekstraráætlun RARIK, svo tryggt ætti að vera að þar yrði að unnið. Hins vegar væri gott að fá staðfestingu hæstv. ráðh. á þessu og einnig því, að ekki yrði um niðurskurð að ræða á verkefnum RARIK á Austurlandi á þessu ári svo sem var á því síðasta.