14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2877 í B-deild Alþingistíðinda. (2108)

326. mál, orkumál á Austurlandi

Lúðvík Jósepsson:

Herra forseti. Hér var spurt um það, hvort ákvörðun hefði verið tekin af ríkisstj. um að ráðast í Bessastaðaárvirkjun á Austurlandi. Ég hlustaði á svar hæstv. ráðh. og veitti því athygli, að um þetta atriði sagði hann ekki eitt einasta orð. Hann sagði aðeins að unnið yrði að því að fullgera hönnun á þessu mannvirki, eins og till. hefðu legið fyrir um. En nú efast ég ekkert um það, að hæstv. ráðh. geri sér grein fyrir því, að búið er að bíða eftir þessu svari æðilengi. Það var fyrir löngu búið að leggja til að ráðist yrði í þessa virkjun, og það lágu fyrir býsna ítarlegar athuganir um málið og þörfin var ótvíræð. Mér er vel kunnugt um það, að hæstv. ráðh. hefur fylgst gjörla með þessu máli og veit hvernig málin standa. Það er því alveg útilokað annað en hann viti svar við þessari spurningu, og svarið dugar í rauninni ekki á þá leið, að það hafi ekki verið tekin ákvörðun. Ég geri ráð fyrir því, að þannig standi málið, að ekki hafi verið tekin ákvörðun. Ég vil því fara fram á það, að hæstv. ráðh. segi eitthvað til um það, hvernig þetta mál stendur í raun og veru. Er einhver tregða á því í ríkisstj. að taka ákvörðun í málinu? Gerir hæstv. ráðh. sér vonir um að fá málið afgreitt í ríkisstj. nú á næstunni? Það er í rauninni að ganga alveg á svig við spurningu þá, sem liggur fyrir, að gefa ekki skýringar á þessu.

Ég vil nú vænta þess, að hæstv. ráðh. bæti við það svar, sem hann hefur gefið, upplýsingum um þetta atriði: Hvaða vonir hefur hann um það, að ríkisstj. taki ákvörðun í málinu? Má búast við þeirri ákvörðun nú á næstunni? Eða er þarna um einhverja tregðu að ræða, þannig að hæstv. ráðh. komi málinu ekki í gegnum stjórnina? Ég vænti þess fastlega, að hann gefi svör við þessum spurningum mínum.