14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2878 í B-deild Alþingistíðinda. (2109)

326. mál, orkumál á Austurlandi

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Svar mitt áðan beindist auðvitað að því fyrst að svara fyrirspurnum hv. þm. Helga F. Seljans, en ekki svara blaðagreinum. Hins vegar hefur hv. þm. nú ítrekað minnst á ummæli í blaði á Austurlandi, þar sem því er haldið fram að ég hafi gefið loforð um að tekin yrði ákvörðun um Bessastaðaárvirkjun á einhverjum ákveðnum tíma. Slíkt er náttúrlega mishermi af þeirri einföldu ástæðu, að ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, gefið nokkurt loforð um að ákvarðanir yrðu teknar á tilteknum tíma.

Við skulum aðeins rifja upp þetta mál. Það var eitt af mínum fyrstu verkum sem iðnrh. að flytja frv., sem var samþ. hér í Alþ., um heimild til virkjunar Bessastaðaár. Þá þegar var Rafmagnsveitum ríkisins falið að undirbúa það mál allt. Áður en þeim undirbúningi var lokið upphófu sumir hv. þm. kröfur um það, eins og sá sem síðast talaði, að þegar í stað yrði tekin ákvörðun um þessa virkjun, þó að rannsóknum og undirbúningi væri ekki fyllilega lokið. Úr öðrum áttum hafa nú fremur beinst til núv. iðnrh. ásakanir um það, að framkvæmdir hafi gengið helst til hratt og hefði átt að biða eftir meiri undirbúningi.

En staðan í sambandi við Bessastaðaárvirkjun hefur auðvitað verið sú, að ákvarðanataka kom auðvitað og kemur ekki til greina fyrr en undirbúningi er nægilega langt á veg komið. Það var haustið 1976, að ég ætla, að sumir töldu að undirbúningi væri nægilega langt á veg komið til þess að taka ákvörðun. En þá bárust mér tilmæli og ákveðnar óskir bæði frá Orkustofnun og frá Rafmagnsveitum ríkisins um að ákvörðun yrði frestað til þess að þessum stofnunum gæfist kostur á frekari athugunum og samanburði á fleiri en einum virkjunarmöguleika. Að sjálfsögðu var orðið við þessari ósk þessara tveggja stofnana, annað kom auðvitað ekki til greina. Að þessari athugun og samanburði var síðan unnið, eins og ég greindi í svari mínu, og það var um miðjan desember sem niðurstaða lá fyrir og Rafmagnsveiturnar rituðu iðnrn. bréf, þar sem skýrt var frá þessum niðurstöðum og mælt með virkjun í Bessastaðaá með nokkuð öðru sniði raunar en áður, talið eðlilegt að hún yrði byggð í tveimur áföngum.

Það var öllum ljóst, að um miðjan desember var ekki hægt að koma inn nýjum stórframkvæmdum í fjárlög eða lánsfjáráætlun, þar sem svo að segja var lokið meðferð þeirra mála. Þess vegna er ekki í fjárlögum eða lánsfjáráætlun fyrir árið 1978 gert ráð fyrir framkvæmdum við Bessastaðaárvirkjun. Þetta liggur auðvitað svo ljóst fyrir, að um þetta ætti ekki að þurfa að deila. Hins vegar er sjálfsagt að halda áfram þessu máli með þeim hraða sem frekast er hægt.

Till. Rafmagnsveitnanna hafa verið þessar nú: að vinna að fullnaðarhönnun og undirbúningi útboðsgagna fyrir virkjunina á þessu ári. Eins og ég tók fram áðan, verður það gert.

Varðandi spurningu um Austurlínuna, þ. e. a. s. byggðalínuna frá Kröflu í Skriðdal, þá er ætlað til hennar fé í fjárlögum. Það er gert ráð fyrir í fjárlögum, að til línunnar Krafla-Eyrarteigur verði varið til fjárfestingar 1 milljarði 69 millj. kr., og svo er að sjálfsögðu í lánsfjáráætlun, þar sem ráðgert er að þetta verði unnið fyrir lánsfé, tilsvarandi upphæð.

Þessi fjárveiting eða heimild var byggð á því að ljúka Austurlínunni á þessu ári, þannig að hún kæmist í notkun fyrir næsta vetur. Þessi fjárhæð var við það miðuð. Eins og kunnugt er af fregnum, er komið nokkuð af efni í þessa línu til Reyðarfjarðar sem ekki hefur verið leyst út enn. Stjórnendur Rafmagnsveitnanna og iðnrn. hafa lagt sig fram um það að fá greitt fé af þessari upphæð í fjárlögum og lánsfjáráætlun til þess að leysa út þetta efni og annað sem kemur nú í þessum mánuði og aprílmánuði, svo að hægt verði á næstunni að hefja þessar framkvæmdir.

Það kemur svo fram nú, að til þess að ljúka línunni þarf nokkurt viðbótarfjármagn. Ástæðan til þess er sú, að Rafmagnsveitum ríkisins var falið af fjmrn. við undirbúning að miða kostnaðaráætlun um þessa framkvæmd, eins og aðrar framkvæmdir, við kostnað í maímánuði 1977. Þessi tala, sem í fjárlögum og lánsfjáráætlun stendur, er því byggð á kostnaði í maí 1977. Það er öllum ljóst, að miðað við verðlagshækkanir og kauphækkanir síðan bætist töluverð upphæð við þessa fjárhæð sem er nauðsynlegt að afla til viðbótar til þess að ljúka línunni.

Á það verður auðvitað að leggja áherslu og hefur þegar verið lögð áhersla í fyrsta lagi, að ekki dragist lengur greiðslur til þess að leysa út það efni, sem þegar er komið, og ekki standi á útborgunum til þess að halda verkinu áfram með eðlilegum hætti, eins og Alþ. hefur ákveðið að gera, og í öðru lagi að reynt verði að afla viðbótarfjár til að ljúka þessari línu. Það er ljóst, að ef línan kæmist ekki í notkun í haust mundi leiða af því hin margvíslegustu vandræði, bæði fyrir almenning og allt atvinnulíf á Austfjörðum, og mundi kosta stórkostlegar fúlgur við dísilkeyrslu. Kallar það á miklu meiri gjaldeyriseyðslu heldur en þó það þyrfti jafnvel í erlendum gjaldeyri að afla fjár til þessarar framkvæmdar.

Ég tel að ég hafi þá svarað þeim viðbótarfyrirspurnum sem fram hafa komið, en vitanlega er það rétt hjá hv. 2. þm. Austurl., Láðvík Jósepssyni, að formleg ákvörðun hefur ekki verið tekin í ríkisstj. um þessi mál. Hins vegar er ljóst, að eftir þær athuganir og rannsóknir, sem fram hafa farið, og þá ákveðnu till. eða umsögn Rafmagnsveitna ríkisins, að þetta sé mjög æskileg virkjun og í rauninni nauðsynleg, þá er það skoðun mín að í þessa virkjun verði ráðist svo fljótt sem tök eru á. En næsta skrefið í þessu efni er að ganga frá fullnaðarhönnun og gerð útboðsgagna, eins og gert verður á næstunni.