14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2880 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

327. mál, raforkumál á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Hluti af því, sem ég spyrst fyrir í minni fsp., hefur verið ræddur hér, en fsp. mín er svo hljóðandi:

„1. Hvað líður rannsóknum um virkjun Bessastaðaár í Fljótsdal og hvenær verður hægt að taka ákvörðun um byggingu virkjunar þar? Ef niðurstaða r,m stærð og hagkvæmni virkjunar liggur nú fyrir, hyggst iðnrh. leggja til að virkjunin verði byggð og þá hvenær?

2. Hvaða rannsóknir áttu sér stað á öðrum virkjunarmöguleikum á Austurlandi í sumar? Hver var árangur rannsóknanna og helstu niðurstöður?

3. Hvaða áætlanir eru um að leggja háspennulínu:

1. Til Hornafjarðar frá Eyrateigi í Skriðdal?

2. Til Vopnafjarðar, væntanlega frá Lagarfossi?

3. Til Bakkafjarðar frá Þórshöfn?“

Ég lagði þessa fsp. fyrir þingið s. l. haust, og áður hafði ég kynnt iðnrh. efni hennar. Það var ljóst á s. l. vetri og að því stefnt og margítrekað, að skýrsla um hagkvæmni virkjunar við Bessastaðaá mundi liggja fyrir á s. l. hausti og þá væri nægilegur grundvöllur fyrir hendi til þess að taka um hana ákvörðun. Ég vil leggja á það áherslu. að hvorki ég né flestir, sem rætt hafa nm hetta mál, höfum viljað hraða ákvörðun, þannig að niðurstaða lægi ekki fyrir um hagkvæmni virkjunarinnar. Það er alveg ljóst, að nauðsynlegt er að slík niðurstaða sé fyrir hendi til þess að slík ákvörðun verði tekin. Það voru margir orðnir nokkuð langeygir eftir því, að sú niðurstaða kæmi fram miðað við það sem áður hafði verið sagt og stefnt að.

Á s. l. hausti, eða rétt fyrir áramót, leggja Rafmagnsveitur ríkisins það til við iðnrn. að þá þegar verði tekin ákvörðun um 1. áfanga Bessastaðaárvirkjunar. Ég ætla ekki að fara að rökstyðja þessa till. Það er öllum ljóst, að það stefnir í vandræði enn einu sinni í raforkumálum á Austurlandi. Menn hafa út af fyrir sig alla tíð búið þar við vandræðaástand og Austfirðingar orðið út undan eða mætt afgangi í sambandi við þær raforkuframkvæmdir sem hafa verið í landinu. Mönnum finnst að nú sé komið að því að leysa þau vandamál sem þar eru fyrir hendi.

Til þess að leysa þessi vandamál er hægt í fyrsta lagi að leggja línu austur. Gera allir ráð fyrir að hún verði lögð, og er þess að vænta að ráðið verði fram úr þeim fjárhagsvandræðum sem þar eru komin upp. En lagning þeirrar línu nægir ekki vegna þess að það mun koma aftur upp vandræðaástand 1982, sérstaklega með tilliti til þess að Kröfluvirkjun komist ekki í gagnið. Auk þess er öryggissjónarmiðum ekki fullnægt í raforkumálum. Ég vil þess vegna fá svar við því hjá hæstv. iðnrh., hvort hann hyggst leggja til að þessi virkjun verði byggð, hvort hann hafi nú þegar lagt það til í ríkisstj. og hvenær þessi virkjun verði þá byggð.

Það er öllum ljóst, að auðvitað verða menn að hafa fjármagn til þess að gera þetta. Alveg er ljóst að ekki er hægt að byggja virkjun öðru vísi en að fá eitthvert fjármagn til þess. En það, sem ríður á núna, er að taka þessa ákvörðun, þannig að menn viti hvert stefnir, ekki verði byrjað á virkjuninni án þess að vita hvort hún er hagkvæm. Það liggur þegar fyrir, að menn álíta að virkjunin sé hagkvæm. Þess vegna er nauðsynlegt að taka ákvörðun um það, hvenær þetta skuli gert og hvort það skuli gert. Mér sýnist að það séu öll merki þess, að slíka ákvörðun sé hægt að taka.

Ég tók eftir því. að hæstv. iðnrh. sagði réttilega að ekki hefði verið gert ráð fyrir fjárframlagi í Bessastaðaárvirkjun. Hins vegar var mér tjáð við fjárlagaafgreiðslu, að fjármagn til virkjunarmála á Austurlandi væri lagt til Orkustofnunar. Var nokkuð rætt um það. að hægt væri að nota það fjármagn, sem þar væri, í þessu skyni. Það er alveg ljóst, að við verðum að taka orkumálin í framkvæmdaröð eftir mikilvægi, og það er það sem er brýnast í virkjunarmálum að koma þessu verki af stað, en ekki önnur verkefni.

Í öðru lagi spyr ég um það, hvaða rannsóknir hafi átt sér stað á öðrum virkjunarmöguleikum á Austurlandi í sumar. Mér er ljóst að þar hafa átt sér stað ýmsar rannsóknir. Þar er væntanlega um að ræða undirbúning að stefnumörkum í virkjunarmálum á Austurlandi. Er mjög forvitnilegt og nauðsynlegt fyrir Austfirðinga að fylgjast með því. Þar hefur verið rætt um margar hugmyndir. Sumar hugmyndirnar eru svo fráleitar að þær koma vart til greina, eins og að sameina allt vatn, sem rennur austur í land, og hluta af því, sem rennur norður í land. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að almenningur á Austurlandi geti fylgst með því, hvað þarna er um að vera.

Í þriðja lagi: Hvaða áætlanir eru um að leggja háspennulínu: til Hornafjarðar frá Eyrarteigi, til Vopnafjarðar, væntanlega frá Lagarfossi, til Bakkafjarðar frá Þórshöfn? Þegar hefur verið ákveðið með afgreiðslu fjárlaga að leggja línuna til Bakkafjarðar frá Þórshöfn, en ég spyr, hvort það séu til áætlanir um að leggja aðrar línur. Að sjálfsögðu fer það eftir því einnig, hvaða fjármagn verður til þeirra hluta, en hins vegar er nauðsynlegt að gera um það áætlanir, hvenær þessu skuli lokið. Þetta eru mjög nauðsynlegar framkvæmdir til að tryggja raforkudreifingu á Austurlandi. Þess vegna spyr ég um að hverju sé stefnt í því sambandi ef fjármagn fæst.