14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2884 í B-deild Alþingistíðinda. (2114)

327. mál, raforkumál á Austurlandi

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það er nú svo, að það eru fróðlegar upplýsingar sem hæstv. iðnrh. lætur okkur í té varðandi raforkumálin nú, og vekja ýmsar spurningar. Ég hef eina stutta hér fram að bera. Hún er þessi: Hvaða rafmagn á línan, sem nú skal byggja fyrir 50 millj. á milli Þórshafnar og Bakkafjarðar, að flytja?

Mér er kunnugt um það, að synjað var um á Þórshöfn leyfi fyrir einni hitapípu í félagsheimilið nú í haust á þeirri forsendu að línan til Þórshafnar frá Laxárvirkjun bæri alls ekki meira rafmagn en það sem nú væri notað á Þórshöfn. Ef svo er, þá fæ ég ekki séð, þá er mér ekki ljóst hvaða raforku þessi lína á að flytja frá Þórshöfn til Bakkafjarðar. Er það þá hugmyndin e. t. v., að þessi lína flytji raforku frá Bakkafirði til Þórshafnar? Ég vildi gjarnan fá svar við þessari spurningu.