14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2887 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

214. mál, Rafmagnseftirlit ríkisins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Rafmagnseftirlit ríkisins starfar, eins og kunnugt er, sem hluti Orkustofnunar. Það hefur oft komið til orða, hvort ekki ætti að gera Rafmagnseftirlitið að sjálfstæðri stofnun. M. a. fjallaði vinnuhópur um þetta mál, bæði skipan Rafmagnseftirlits ríkisins í kerfinu og starfsemi þess, og vinnuhópurinn skilaði þessum till., eins og hv. þm. gat um, í októbermánuði s. l. Það er ítarlegt og vel rökstutt álit. Ég tek sérstaklega fram, að ég er því samþykkur í höfuðatriðum. Ég tel það vel rökstutt og í rauninni æskilega lausn, að Rafmagnseftirlitið verði sjálfstæð stofnun.

Nú er það hins vegar þannig, að hér starfar sérstök nefnd, skipulagsnefnd orkumála, sem hefur það hlutverk að endurskoða orkulögin og gera till. um skipulag orkumála og æðstu stjórn þeirra. Eitt þeirra verkefna, sem þessi skipulagsnefnd fjallar um, er auðvitað Rafmagnseftirlit ríkisins og staða þess. Þegar þetta álit eða skýrsla vinnuhópsins barst til iðnrn. var skýrslan því send til þessarar nefndar um skipulagsmál orkumála. Mun nefndin fjalla um málið og væntanlega gera till. um skipan þessara mála.