14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2890 í B-deild Alþingistíðinda. (2124)

347. mál, húsnæði Tryggingarstofnunar ríkisins

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. svörin og fagna því, að stefnt skuli vera að frambúðarlausn í þessum málum, þótt að vísu virðist vera ansi langt þangað til við megum eiga von á henni.

Ég vildi gjarnan nota tækifærið til að vekja athygli á því, að í Öryrkjabandalaginu eru níu félög og öryrkjar munu vera um 10% þjóðarinnar. Í Sjálfsbjörg einni, Landssambandi fatlaðra, eru um 1400 manns samkv. upplýsingum Ólafar Ríkarðsdóttur, sem er forustumaður þar, og bara í Reykjavik eru félagar um 600. Þó er langt frá því, sagði hún, að allir fatlaðir séu í félagsskapnum. Henni reiknaðist svo til, að um 200 manns mundu að jafnaði vera í hjólastólum hér á landi, og félagíð flytur inn árlega um 50 slíka stóla. Þetta sýnir náttúrlega þörfina. Það er hreint og beint skylda okkar að taka tillit til þessa stóra hóps fólks, enda er það, held ég, stefna sem við getum öll verið sammála um, að reyna að koma því svo fyrir að enginn gjaldi fötlunar sinnar, heldur sé fólki gert kleift að lifa sem eðlilegustu lifi þrátt fyrir hana og vera sem mest sjálfbjarga. Það skýtur því nokkuð skökku við, að í sjálfri aðalþjónustustofnuninni, sem þetta fólk þarf að sækja til, Tryggingastofnuninni, er það í rauninni að mestu útilokað. Að vísu var fyrir nokkrum árum gert við aðalinnganginn þannig, að þar er nú hægt að komast inn í afgreiðsluna í hjólastól, en að því er mér er sagt af fólki, sem er í hjólastól, er engin leið að komast inn í lyftuna í slíku tæki. Er það yfirgengilegt hneyksli í svona stofnun. Þetta fólk getur því ekki talað við sérfræðinga og lækna stofnunarinnar, nema þá aðeins í síma. Ég vonast til að þessum málum verði kippt í lag sem fyrst, með nýju húsnæði ef ekki vil betur til, og vona að það standist, sem hæstv. ráðh. sagði, að stefnt sé a. m. k. að frambúðarlausn í þessum málum. Allt annað er okkur til skammar.