14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2891 í B-deild Alþingistíðinda. (2126)

347. mál, húsnæði Tryggingarstofnunar ríkisins

Vilborg Harðardóttir:

Herra forseti. Mig langar aðeins til að fá að vekja athygli á því í sambandi við þá bankaþjónustu, sem hæstv. ráðh. vitnaði hér í og að sumu leyti getur verið góðra gjalda verð, að það er nú svo, að eftir að tölvur tóku við ýmislegri þjónustu, sem áður var unnin af mannshönd og heila, þá koma fyrir ansi margar villur sem getur verið mjög erfitt að leiðrétta. Þegar þessar villur koma fyrir og líka oftar þarf fólk einmitt að fara inn í Tryggingastofnun og tala við sérfræðingana og útskýra þetta. Eins er það ef breytingar verða á högum þess, sem oft gerist. Og í þriðja lagi er það svo, að alltaf er verið að gera fólki að koma aftur og aftur með vottorð, endurnýja vottorðin. Það er ekki nóg að afhenda þessi vottorð í afgreiðslunni, heldur þarf að fara með þau til læknanna og til sérfræðinganna sem eru uppi á lofti í þessari byggingu.