27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

22. mál, uppbygging þjóðvega í snjóahéruðum landsins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Það voru mjög fróðlegar tölur sem hv. 6. þm. Norðurl. e. las hér upp áðan um muninn á greiðslum til ríkissjóðs eftir því hvort menn ækju á bundnu slitlagi eða vondum vegum. Það, sem hann sagði, var að sjálfsögðu hárrétt, að því einu undanskildu, að hann hefði mátt bæta því við að þetta er að sjálfsögðu á ekinn km. En þarfir fólks ti1 aksturs eru mjög misjafnar. Það er t.d. vitað mál að hér á þéttbýlissvæðunum eru þúsundir manna sem verða að aka frá 5–15 km daglega til vinnu sinnar og heim til sín aftur. Og þeir, sem vinna 15 km frá sinni heimabyggð eða frá sinni íbúð, verða að gera svo vel að aka um 10 þús. km á ári að og frá vinnu. En bóndinn, sem býr á sínum vinnustað, hefur ekki neina slíka þörf. Og fólkið, sem býr í þúsund manna byggðarlögum úti á landi, þar sem í mesta lagi eru kannske 200–300 m frá vinnustað og í íbúðarhúsið, getur ekki haft mikla þörf fyrir langan akstur. Þetta ber að hafa í huga þegar metin er þörfin fyrir vegabætur, og þetta ber líka að hafa í huga þegar metið er hver borgi mest til ríkissjóðs. Það fer ekkert á milli mála að það eru þéttbýlissvæðin hér sem greiða mest af fénu í Vegasjóð. Meðan vegaféð er að mestu af bensíngjaldinu greiða þessi svæði mest því að hér eru eknir flestir km.