14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2893 í B-deild Alþingistíðinda. (2130)

348. mál, reglugerð um lágmarksstærðir fisktegunda

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Gíslason) :

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svar hans og þær upplýsingar sem hann veitti. Ég hygg að þær tölur, sem hann tilgreindi um þann. afla, sem upptækur hefur verið gerður á s. l. ári, bendi til þess, að eftirlit með veiðunum sé ekki að þessu leyti eins og ég hygg að reglugerðin hafi þó gert ráð fyrir.

Við stöndum frammi fyrir því nú, eftir þeim upplýsingum sem frá Hafrannsóknastofnun koma, að fiskstofnarnir eru að ganga saman mjög mikið. Fyrir nokkrum dögum var birt viðtal við fiskifræðing, Sigfús Schopka, í Morgunblaðinu. Þar segir m. a., með leyfi forseta:

„Að sögn Sigfúsar er ástandið orðið þannig, að búið er að veiða svo mikið af hinum sterka árgangi 1970, að ekki ber meira á honum lengur en öðrum lakari árgöngum. Fiskifræðingar höfðu mjög treyst á það, að hægt yrði að ná hrygningarstofninum upp með árganginum frá 1970, en svo mikið var veitt af þessum árgangi þegar fiskurinn var þriggja til fjögurra ára og ókynþroska, að þær vonir hafa brugðist. Þetta var á þeim tíma sem Bretar voru enn á Íslandsmiðum og togarafloti okkar fór stækkandi, á árunum 1973–1974.“

Það, sem kemur fram hjá þessum fiskifræðingi í viðtalinu, segir sína sögu að því leyti, að það liggur alveg ljóst fyrir, að gengið er það hart í smáfiskveiðarnar — bæði af stærri og minni skipum — að þó að um sterka árganga sé að ræða, eins og árganginn 1970, þá komast þeir aldrei alla leið á hrygningarstöðvarnar fyrir Suðurlandi. Þegar sá tími kemur að þeir verða kynþroska flytjast þeir samkvæmt eðli náttúrunnar af þeim miðum, sem þeir alast upp á, á mið þar sem sjór er heitari og hrygna þar.

Fiskifræðingar hafa einnig mjög varað við of miklum veiðum á smáfiski úr árganginum 1973 sem fiskiflotinn almennt byggir nú mest veiðar sínar á. Þessi árgangur er orðinn 5 ára, er kominn á sjötta ár, og er að því kominn að fara af miðunum fyrir Norður- og Norðausturlandi á miðin hér fyrir Suðurlandi. Ég hygg að það þurfi að hafa miklu meira eftirlit með því en fram kom hjá hæstv. ráðh., að ekki sé um að ræða veiðar á smáfiski sem aldrei kemur að landi. Ef farið er í skýrslu Hafrannsóknastofnunar og athugaðar þær upplýsingar, sem þar er að finna, sýnir það síg, að heildarstofninn er mjög að ganga saman, og það, sem er þó enn alvarlegra, að hrygningarstofninn er næstum því að hverfa. Hann hefur minnkað á til þess að gera fáum árum úr rösklega 1 millj. tonna niður í 180 þús. tonn, sem hann er áætlaður á þessu ári, þó að enn þá sé ekkert um það vitað, hvort það magn, sem Hafrannsóknastofnunin gerir ráð fyrir að skili sér til hrygningar, nær að komast alla leið. Ég tel að þróun þessi sé svo alvarleg, að þarna verði að beita öllum ráðum og það þurfi að beita mjög ströngu eftirliti til að vernda þann smáfisk sem ólöglegt er að veiða, og jafnvel að mark þess fisks, sem nú er ákveðið, verði hækkað, þannig að ekki sé stefnt að því eins og nú, sem því miður virðist vera, að fiskstofninum verði hreinlega eytt áður en hann kemst á hrygningarstöðvarnar til að endurnýja stofninn.

Í skýrslu Hafrannsóknastofnunarinnar kemur fram að stofninn hefur aldrei nú að undanförnu rýrnað meira en á árinu 1977, þegar Íslendingar einir höfðu með veiðarnar að gera og útlendingar voru svo að segja horfnir af miðunum. Hann minnkaði þetta ár úr 1195 þús. tonnum, heildarstofninn eins og hann var áætlaður 1977, og gera fiskifræðingar ráð fyrir að hann verði ekki nema 1000 þús. tonn nú á árinu 1978. Hann hefur þá rýrnað um 195 þús. tonn. Er það meiri rýrnun á einu ári en á mörgum undanförnum árum. Þá hefur hrygningarstofninn einnig rýrnað úr 210 þús. tonnum, eins og hann var áætlaður 1977, í 180 þús. tonn, eins og Hafrannsóknastofnun áætlar hann nú.

Ég held að Alþ. og allir þeir aðilar, sem um þessi mál fjalla, verði að fara að gera sér grein fyrir hvert stefnir í þessum málum, því ef svo færi, að hrygningarstofninn færi enn minnkandi, þá liggur það alveg ljóst fyrir, að þá yrði að stöðva alla þorskveiði við landið um tiltekið árabil. Ég met fyllilega allar þær margvíslegu ráðstafanir, sem sjútvrn. hefur gert til þess að reyna að koma í veg fyrir að þannig fari, og þær aðgerðir til friðunar sem uppi hafa verið. Ég met þær að fullu. Ég hygg þó að þarna þurfi enn frekari aðgerðir og strangara eftirlit en nú er viðhaft í sambandi við fiskveiðarnar. Á ég þar sérstaklega við eftirlit með þorskstofninum.