14.03.1978
Sameinað þing: 56. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2894 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

348. mál, reglugerð um lágmarksstærðir fisktegunda

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Ég vil minna menn á að aldrei hafa verið gerðar aðrar eins ráðstafanir til þess að hamla gegn veiði smáfisks og gerðar hafa verið á undanförnum árum. Engin þjóð, sem við þekkjum til, hefur gengið neitt nálægt því jafnlangt og við höfum gert. Við höfum á síðustu þremur árum stækkað möskva í botnvörpu og flotvörpu úr 120 í 155 mm og í dragnót í 170 mm. Við höfum friðað stór svæði. Þar hefur náðst ágætur árangur með eftirlitsmönnum og með því að Landhelgisgæslan og Hafrannsóknastofnunin geta beitt sér að því, um leið og vart verður við smáfisk í afla, að loka svæðum alveg á stundinni, eins og gert hefur verið.

En það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, að hrygningarstofninn hér suðvestanlands hefur hraðminnkað. Hins vegar hefur aftur orðið vart — og það í mjög ríkum mæli — við hrygningarfisk sérstaklega fyrir Norðurlandi, sem bendir alveg ótvírætt á að fiskigöngur og hrygningarsvæði þorsksins hafa flust til. Þetta var eiginlega óþekkt fyrir nokkrum árum. Það sást best á því á s. l. vori á Eyjafirði, að þar var gífurlega mikið af hrygningarþorski, og víðar fyrir Norðurlandi og fyrir Vestfjörðum. Á s. l. ári var fiskur, alveg frá Vestfjörðum og fyrir öllu Norðurlandi og Austfjörðum, mun stærri en nokkru sinni áður og mjög lítið vart við smáfisk.

Það er ekki alveg öruggt hvernig fiskigöngur eru. Fiskifræðin er ung vísindagrein, sem getur ekki fullyrt, heldur byggir meira á líkum. Nú bendir margt til þess, að aftur sé að lifna yfir þorskveiði við Grænland. Allstórar og miklar göngur voru hér fyrr á árum milli Grænlands og Íslands. Aðrir fiskstofnar eru sumir að rétta verulega við. Þrátt fyrir það að farið var verulega fram úr heildaraflakvótanum sem Hafrannsóknastofnun lagði til, þá leggur hún í raun og veru til í hinni nýju skýrslu sinni, að þorskveiðiaflinn verði nokkurn veginn sá sami og árið á undan. Það má líka henda á að nú höfum við losnað við útlendinga, og þá sérstaklega Bretann sem var auðvitað frægur fyrir smáfiskadrápið. Finnst mér að bæði fiskifræðingar og ýmsir aðrir geri of lítið úr þessari breytingu, því að alltaf hafa þeir viljað miða við fiskafjölda, en ekki þyngd. Ég fullyrði það, og hef þar mikið fyrir mér, að það eru auðvitað ólíkt færri fiskar, sem drepnir eru nú til þess að fylla þennan aflakvóta, en áður var. Það er mjög ánægjuleg þróun. Hins vegar skal ég segja alveg umbúðalaust, að mjög æskilegt væri og æskilegast að stöðva alla þorskveiði í eitt ár. — En getur þjóðin það? Þegar við erum að stöðva veiðarnar — það á núna að stöðva þorskveiðar í eina viku — þá er margbeðið um undanþágu frá því. Síðast í morgun voru fulltrúar í einu byggðarlagi að biðja um undanþágu til þess að halda áfram netaveiðum, þvert ofan í samþykktir sem gerðar eru af heildarsamtökunum. Samt lögðu þau til, að það yrði núna um 10 daga fiskveiðibann að ræða, en við í sjútvrn. fórum niður í 7 daga. Við völdum páskavikuna, sem við höfum talið að raski sem minnst vinnu í landi. Sömuleiðis eiga sjómenn frí í þrjá daga í páskavikunni almennt og við sumar veiðar m. a. s. í fjóra daga.

Þegar við lítum því á þessi atriði öll, þá held ég að það sé óhætt að fullyrða að nú hafi verið gert meira en nokkurs staðar annars staðar og meira en nokkru sinni áður í þessum efnum. Hins vegar er auðvitað hægt að framfylgja sterkara eftirliti, ef Alþ. vill veita fjármagn til þess að ráða fleiri menn til þessara eftirlitsstarfa. En ég tel að þetta veiðieftirlit, sem tekið var upp, hafi gefið mjög góða reynslu.