14.03.1978
Sameinað þing: 57. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2899 í B-deild Alþingistíðinda. (2137)

146. mál, velfarnaður sjómanna

Flm. (Benedikt Gröndal) :

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill., sem ég kalla: um velfarnað sjómanna á siglingu og í erlendum höfnum. Er það 146. mái. Ég vil leyfa mér að byrja þessa framsögu með því að lesa till., með leyfi hæstv. forseta, en hún hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa þriggja manna nefnd til að gera tillögur um ráðstafanir til að auka velfarnað íslenskra sjómanna á siglingu og í erlendum höfnum.

Nefndin skal sérstaklega athuga eftirtalin atriði:

1) Hvernig tryggja megi, að í íslenskum skipum verði ekki aðeins sjónvarp, heldur og myndsegulbandstæki.

2) Hvernig unnt verði að láta festa á segulbönd íslenskt efni, þ. á m. sjónvarpsdagskrár, og lána böndin til skipa.

3) Hvort Ísland getur með því að gerast aðili að norrænum eða alþjóðlegum samtökum tryggt sjómönnum þjónustu, þ. á m. lán á kvikmyndum og segulböndum, í erlendum höfnum.

Nefndin skal skipuð þannig, að Sjómannasamband Íslands tilnefni einn mann, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands annan, en hinn þriðji sé skipaður af ráðh. án tilnefningar.“

Ég tel skylt að geta þess að þetta mál — að koma myndsegulböndum um borð í skip okkar — hefur verið nefnt hér í umr. Við afgreiðslu fjárl. fyrir síðustu áramót flutti hv. 8. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, brtt. sem lutu að þessu sama máli, að greiða fyrir því að þessi tæki fengjust um borð í skipin. Till. hans og þessi till. eru tvær hliðar á sama máli.

Jafnframt því sem skipaeign okkar hefur verið endurnýjuð og hefur aukist með nýjum fiskiskipum og farskipum hefur orðið mikil framför í aðbúnaði áhafna. Samt sem áður er enn þá margt ógert sem gera má til þess að gera sjómönnum kleift að nota frjálsar stundir um borð á sem bestan og heilbrigðastan hátt, efla félagslíf áhafna og gefa þeim kost á að njóta eins og unnt er svipaðrar þjónustu og fólk í landi hefur, t. d. af sjónvarpi og kvikmyndum.

Nokkur íslensk skip hafa 16 mm kvikmyndavélar um borð, en hér á landi er mjög takmarkað úrval þess myndefnis, sem hægt er að lána til skipanna, sérstaklega ef ferðir þeirra eru langar. Nú hefur orðið sú breyting á tækni í seinni tíð, að myndsegulbandstæki hafa rutt sér mjög til rúms og hafa orðið ódýrari með hverju ári sem liðið hefur, þannig að viðráðanlegt er orðið fyrir stofnanir og jafnvel einstaklinga að eignast þessi tæki. Þau hafa reynst hafa mikla kosti við notkun um borð í skipum. Hafa nágrannaþjóðir okkar þegar allmikla reynslu af því. Nokkur skip hér á landi munu nú þegar hafa myndsegulbandstæki og má tengja þau við venjuleg sjónvarpstæki til að fá fram myndina. Ef við tökum dæmi frá Noregi, þar sem kaupskipafloti er mikill og mikið er gert til þess að bæta alla aðbúð sjómanna, þá er þar þegar skipulögð starfsemi heima fyrir til að festa alls konar efni á myndsegulbönd og síðan gera af þeim svo og svo mörg eintök að lána megi um borð í skipin. Er þannig séð fyrir því, að sjómenn þurfi ekki að missa af ýmsu því besta sjónvarpsefni, sem framleitt er í heimalandi þeirra, þátt þeir séu vikum saman í siglingum. Þá er einnig hægt að taka eldri kvikmyndir jafnt sem nýjar og flytja þær yfir á myndsegulbönd svo og ýmislegt annað efni, heil fræðslunámskeið, kennslu á öryggistæki og annað sem varðar störf manna á sjónum.

Í sambandi við þessa þróun hefur komið upp hvimleitt vandamál, er allir þeir, sem kunnugir eru málefnum sjónvarps og útvarps, þekkja af meira eða minna biturri reynslu, en þar á ég við höfundarrétt. Kunnugt er, að höfundarréttarmál í sambandi við kvikmyndir og sjónvarp eru svo flókin, að illmögulegt hefur reynst að greiða úr þeim. Tugir manna vinna mismunandi störf við að framleiða þetta efni. Þegar fullgert efnið er selt til notenda getur verið allt að því ómögulegt að skipta á milli allra þeirra, sem komu við framleiðsluna, því fé sem til höfundarréttar heyrir. Þetta hefur sums staðar verið leyst á þann hátt við sjónvarpsfyrirtæki, að höfundagreiðsla hefur fallið í einu lagi í einhvern sameiginlegan sjóð þess starfsfólks sem hlut á að máli. Enda þótt þessi einfalda hugmynd sé kunn hefur hér á landi ekki reynst mögulegt að vinna það kraftaverk að koma því til leiðar, að svo mikið sem einn filmubútur úr sjónvarpi okkar sé fáanlegur, þótt óskað sé eftir honum t. d. til að nota hann í skólum landsins eftir að sjónvarpað hefur verið. Af þessu leiðir að það verður að finna lausn á þessu líka, ef ætti að taka sjónvarpsdagskrár á segulbönd til að lána um borð í kaupskip okkar og þau fiskiskip sem fara það langt frá landinu að þau geta ekki notið íslensks sjónvarps. Því verður þó ekki trúað að óreyndu, að starfsfólk sjónvarpsins mundi standa í vegi fyrir lausn á þessu máli. Hef ég fyrir satt að svo sé ekki, heldur muni skorta framtak hjá forráðamönnum stofnunarinnar. Vafalaust væri hægt að ráða á því bót, ef hart væri sótt að, sérstaklega ef um allan flotann væri að ræða.

Ég hef rætt þessi mál við ýmsa farmenn sem hafa misjafnar sögur að segja af þessum efnum, sérstaklega eftir því til hvaða landa þeir sigla. En ég hef orð þeirra fyrir því, að til séu norræn samtök um veiðiferð sjómanna sem m. a. halda uppi útlánum á ýmsu efni til skipa og hafa miðstöðvar í öllum helstu höfnum heims. Þess vegna er lagt til að kannað verði, hvort við getum bætt aðstöðu okkar eigin sjómanna með aðild að einhverjum slíkum samtökum. Þá benda þeir á að mjög sé það mismunandi, þegar þeir koma í erlendar hafnir, hvort þeir hafa yfirleitt aðgang að nokkrum sjómannaheimilum eða ekki. Kann að vera, að aukið formlegt samstarf við aðra aðila gæti bætt aðstöðu þeirra að því leyti.

Það er því miður allt of útbreidd skoðun, að sjómenn eyði tíma sínum í erlendum höfnum einungis í svall og skemmtan. Hefðu samtök þeirra raunar fyrir löngu átt að gera gagnráðstafanir til að spyrna gegn þessu áliti alls þorra fólks. Í þessum efnum eru sjómenn vafalaust álíka misjafnir og landkrabbar og því óréttlátt að dæma þá sem heild. En hitt er sönnu nær, að víða hafa þeir lélega aðstöðu til að hagnýta sér margvíslega þjónustu og lélega aðstöðu til að útvega sér efni og tæki sem þeir þurfa t. d. til að halda uppi félagslífi um borð í skipunum þegar þeir eru á löngum siglingum.

Mér finnst þetta mál í raun og veru ekki stórt eða fyrirferðarmikið, þó að það skipti miklu fyrir þá sem hlut eiga að því, þ. e. sjómennina. Ég get ekki fengið mig til þess að vorkenna stofnun eins og Eimskipafélagi Íslands að standa undir kostnaði við að eignast tæki, sem hér er um talað, í hvert einasta skip. Og ég held að það ætti að vera hægt með örlitlum stuðningi að hjálpa sjómönnum til þess, bæði hjá því stærsta kaupskipafélagi okkar og öðrum sem gera út bæði kaupskip og stærri fiskiskip, að efla þann skilning á félagsmálum og velferð sjómanna, að kostnaðurinn, sem af því væri að tryggja þeim þessi tæki, ætti að greiðast af útgerð skipanna.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði vísað til allshn. að lokinni umr.