15.03.1978
Neðri deild: 67. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2910 í B-deild Alþingistíðinda. (2150)

228. mál, Sölustofnun lagmetisiðnaðarins

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen) :

Herra forseti. Hlutverk Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins er að efla framleiðslu og útflutning á niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum. m. a. með því að annast sölu og dreifingarstarfsemi á þessum afurðum og skipuleggja markaðsleit og markaðsöflun erlendis með upplýsinga-, auglýsinga- og þjónustustarfsemi, eins og nauðsynlegt telst og fjárhagsgeta leyfir hverju sinni. Með lögum um stofnunina frá 1972 var henni tryggt 25 millj. kr. árlegt framlag úr ríkissjóði í 5 ár, í fyrsta sinn 1973. Enn fremur kváðu lögin á um stofnun sérstaks sjóðs, Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðar, er hefur það verkefni að efla niðursuðuiðnaðinn, auka tilraunir með nýjar vörutegundir og afla markaða erlendis. Svo var kveðið á í lögunum, að lagmetisiðnaðurinn skyldi undanþeginn útflutningsgjöldum af niðursoðnum og niðurlögðum sjávarafurðum og söltuðum grásleppuhrognum. en þó skyldi innheimta þessi útflutningsgjöld til ársloka 1977 og skyldu þau renna til Þróunarsjóðsins.

Það frv., sem hér er lagt fram, miðar að því að tryggja áframhaldandi starfsemi Sölustofnunar lagmetisiðnaðar og miðar að því, að hún standi að loknum tæpum þremur árum, eða í ársbyrjun 1981. á eigin fótum. Að því er stefnt, að sérstök verkefni í markaðsmálum og útflutningsstarfsemi verði í ríkara mæli kostuð af Þróunarsjóði en hingað til, þar sem árlegt framlag ríkissjóðs hefur frá byrjun þessa árs fallið niður.

Í grg. frv. er ítarlega rakin starfsemi Sölustofnunarinnar og Þróunarsjóðs á undanförnum árum og vikið að framtíðarverkefnum, breytingum og nýmælum frá gildandi lögum. Í grg. segir m. a., að reynslan sýni, þrátt fyrir batahorfur nú, að ekki hafi á s. l. 5 árum tekist að efla útflutning á íslensku lagmeti að því marki sem vonir stóðu til í upphafi. Þar hefur margt komið til, svo sem tollastefna Efnahagsbandalagsins gagnvart Íslendingum í kjölfar fiskveiðideilna, efnahagssamdráttur í mikilvægum markaðslöndum og ýmislegt fleira. Af þeim ástæðum hafa samtök lagmetisframleiðenda og stjórn Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins farið þess á leit, að stofnunin njóti hin næstu 3 ár stuðnings við útflutning, vöruþróun og markaðsöflun í því formi að tekjur Þróunarsjóðs verði þetta tímabil hliðstæðar því sem nú er, en þeirra verði aflað á annan hátt.

1. og 2. mgr. 1. gr. frv. er efnislega samhljóða gildandi lögum, þ. e. a. s. lögum frá 1972 eins og þeim var breytt árið 1974. Þar er skilgreining á lagmetisiðnaðinum, sagt að hann teljist til iðnaðar eins og hann er skilgreindur í lögunum o g greiði iðnlánasjóðsgjald samkvæmt lögum og njóti þar með aðgangs að stofnlánum úr Iðnlánasjóði.

Í 2. gr. frv. er fjallað um Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins og hlutverk hans skilgreint til samræmis við þann skilning sem lagður hefur verið í ákvæði gildandi laga. Samkvæmt því er Þróunarsjóði lagmetisiðnaðar ætlað það hlutverk að efla lagmetisiðnaðinn, m. a. með því að stuðla að tæknilegri uppbyggingu, þróun vinnsluaðferða og vörutegunda og markaðsöflun erlendis. Sérstaklega er tekið fram, að ekki sé gert ráð fyrir að verja fé sjóðsins til að ráða bót á rekstrarerfiðleikum eða fjárhagsvanda framleiðenda lagmetis eða til að standa straum af fjárfestingu í framleiðslutækjum eða mannvirkjum þeirra, eins og segir í 3. mgr. 2. gr.

Í 2. gr. er kveðið svo á, að iðnrh. fari með yfirstjórn sjóðsins og setji reglugerð um starfsemi hans og heimilt sé að fela Iðnaðarbanka Íslands daglegan rekstur sjóðsins samkvæmt sérstökum samningi, svo sem um bókhald. innheimtu, útborganir og vörslu eigna.

Stjórn Sölustofnunarinnar hefur sett fram áætlanir um starfsemi Þróunarsjóðsins næstu þrjú árin. Á vegum sjóðsins er nú unnið að vöruþróun, bæði fyrir hefðbundnar vörutegundir svo og vörur úr hráefni sem lítið eða ekki hefur verið nýtt til fullvinnslu hérlendis. Þá er fyrirhugað mikið átak í markaðsleit og markaðsöflun fyrir kavíar, þorskhrogn, þorsklifur og fleiri vörutegundir í Evrópu, einkum eftir að aðgangur að mörkuðum þar er orðinn greiðari að því er tolla varðar. Þá er einnig áformuð stofnun söluskrifstofu í Evrópu. en slík skrifstofa er þegar fyrir hendi í Bandaríkjunum. Reynsla síðustu ára hefur sýnt, að brýn þörf er einnig að ráða matvælafræðing til sjóðsins. Í þriggja ára áætlun um Þróunarsjóðinn, þ. e. fyrir árin 1978–1980, áætlar stjórn Sölustofnunar lagmetisiðnaðarins að verja þurfi 300 millj. kr. til margvíslegra markaðsaðgerða og þróunarverkefna.

Í 3. gr. frv. er fjallað um tekjuöflun Þróunarsjóðs næstu þrjú ár. Gert er ráð fyrir að leggja 3% fullvinnslugjald á útflutt söltuð grásleppuhrogn og söltuð eða fryst þorskhrogn, sem komi í stað 6% útflutningsgjalds á útflutt grásleppuhrogn, sem runnið hefur til Þróunarsjóðs. Gjald þetta er nefnt fullvinnslugjald til að leggja áherslu á, að tekjum af því er ætlað að stuðla að aukinni fullvinnslu þeirra hráefna sem gjaldið bera.

Talið er að verðmætaaukning eða verðmætasköpun við vinnslu grásleppuhrogna í kavíar sé rúmlega tvöföldun eða 2.2. Árið 1977 var meðalverð fyrir tunnu hráefnis í útflutningi 46 500 kr., en tunna af fullunnum kavíar var seld á meðalverði fyrir 93 þús. kr. Alls voru fluttar út um 17 þús. tunnur, en unnið úr 750 tunnum. Má af þessu vera ljóst, hversu geysistórt verkefni er hér fyrir höndum, að vinna í stórauknum mæli úr þessu mjög svo verðmæta hráefni.

Talið er að fyrir grásleppuhrogn sem flutt voru út, hafi fengist á s. l. ári samtals — fyrir hin óunnu hrogn og það sem unnið var úr — um 870 millj. kr. Ef allt væri þetta fullunnin vara mundi heildarverðmætið verða um 1800 millj. kr. Hér væri því um nær 1 milljarð að ræða í verðmætisaukningu ef unnt reyndist að fullvinna kavíar úr grásleppuhrognum hér heima, en kunnugt er að íslensk grásleppuhrogn eru eitthvert albesta hráefni sem í þessa vöru er fáanlegt. Væri því um mjög stórfellda gjaldeyrissköpun að ræða, ef þetta tækist, og hægt væri að vinna markaði fyrir þessa vöru.

Ég skal ekki hafa fleiri orð að sinni um þetta frv., en vísa til ítarlegrar grg. og upplýsinga sem frv. fylgja. Legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og iðnn.