16.03.1978
Sameinað þing: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2915 í B-deild Alþingistíðinda. (2159)

150. mál, endurskoðun skattalaga

Flm. (Ragnar Arnalds) :

Herra forseti. Í mörg undanfarin ár höfum við Alþb.-menn bent á nauðsyn þess, að íslensk skattalög yrðu tekin til endurskoðunar, enda væru þau óviðunandi með öllu og stórlega gölluð. Við höfum einkum bent á þrennt í þessu sambandi:

Í fyrsta lagi höfum við bent á það, að óbeinir skattar hafi hækkað úr hófi fram í tíð þessarar ríkisstj., einkum söluskatturinn, og þessi þróun eigi vafalaust drjúgan þátt eða a. m. k. nokkurn þátt í verðbólguflóði seinustu ára.

Í öðru lagi höfum við bent á að ekki væri nægilegt eftirlit með innheimtu söluskatts og að eftirlitsheimildir gildandi laga væru ekki nýttar.

Í þriðja lagi höfum við bent á að núgildandi lög heimila stórfelldan undandrátt tekna áður en skattur er á lagður, með þeim afleiðingum að verulegur hluti af atvinnurekstri í landinu sleppur með að borga lítinn sem engan tekjuskatt.

till., sem hér er til umr., er flutt til þess að þrýsta enn einu sinni á um úrbætur í skattamálum. Í þessari till., sem er á þskj. 311. er bæði um að ræða almenna stefnumótun í skattamálum, í fjórum liðum, og einnig ákveðnar till. um einstök atriði, í tíu tillöguliðum. Þessi fjögur stefnuatriði. sem ég nefndi, eru: 1) að atvinnureksturinn í landinu greiði skatt af tekjum sínum og veltu með eðlilegum hætti; 2) að óbeinir skatta séu lækkaðir; 31 að skattbyrðin á tekjum og útgjöldum láglaunamanna léttist, en þyngist á háum tekjum og miklum eignum; 4) að skattkerfið sé einfaldað, en innheimta og eftirlit hert. Um hvert þessara atriða ern síðan sett fram skýrar till. um nánari framkvæmdaatriði.

Við leggjum fram ýmsar till. sem eiga að tryggja að hæfilegur skattur sé greiddur af tekjum fyrirtækja: 1) fyrningar atvinnutækja séu miðaðar við eðlilegan endingartíma þeirra og ákvæði um fyrningu samkv. verðhækkunarstuðli og flýtifyrningu verði afnumin; 2) reglur um skattfrjálsan söluhagnað og varasjóð félaga svo og aðrar óeðlilegar heimildir til ívilnunar verði endurskoðaðar; 3) álagning tekjuskatts á fyrirtæki og hvers konar rekstur verði greinilega aðgreind frá skattgreiðslu þeirra sem eiga reksturinn. Tekjur, sem einstaklingar hafa úr öðrum áttum, skerðist ekki við skattálagningu, þótt rekstur í eigu þeirra skili bókhaldslegu tapi; 4) svo er bent á þann möguleika til að tryggja að atvinnureksturinn greiði hæfileg framlög til samneyslu í þjóðfélaginu, að til greina geti komið að leggja á sérstakan veltuskatt.

Um óbeinu skattana segjum við fyrst og fremst það tvennt, að rétt sé að lækka söluskattinn verulega og herða innheimtu hans, m. a. með því að nota gildandi lagaheimildir um innsiglaða peningakassa. Varðandi álagningu tekjuskatts á launamenn er það till. okkar, að álagningin verði verulega einfölduð og að því stefnt: 1) að tekjurnar verði skattlagðar jafnóðum og þær verða til, þ. e. að staðgreiðslukerfi sé komið á; 2) að hjón verði skattlögð hvort fyrir sig, þ. e. sérsköttun komið á; 3) tekjur láglaunamanna verði undanþegnar tekjuskatti; 4) takmörk verði sett fyrir því, hve mikla vexti megi draga frá tekjum, þannig að hámark vaxtafrádráttar sé ákveðið árlega með hliðsjón af meðalvöxtum, íbúðarverði og fjölskyldustærð; 5) að sjúkratryggingagjald, sem hefur farið hækkandi á undanförnum árum, verði afnumið.

Við Alþb.- menn höfum flutt till. um breytingar á skattalögum á hverju ári nú um árabil, en ég held ég megi segja að till. af okkar hálfu hafi aldrei verið jafnítarleg eins og sú sem nú er fram sett. Till. fylgir grg. sem er 34 þéttritaðar síður. Eru þar m. a. færð skýr og óvefengjanleg rök fyrir þeirri staðhæfingu, að atvinnureksturinn í landinu greiði ekki skatt af tekjum sínum og umsvifum með eðlilegum hætti.

Eins og ljóst má vera af þessari grg., hef ég lagt mikla vinnu í að kanna skattgreiðslur fyrirtækja. Í þeim tilgangi hef ég farið yfir skattálagningu á félög í öllum skattumdæmum til þess að fá það fram, hver sé fjöldi félaga, sem greiði látinn sem engan tekjuskatt þrátt fyrir umtalsverða veltu, og hver sé hlutur þessara félaga af heildarveltu fyrirtækja í landinu. Til grundvallar þessari talningu og þessari athugun eru lögð fyrirtæki í félagsformi. sem greiddu meira en 20 þús. kr. í aðstöðugjöld á árinu 1977, en það felur í sér að fyrirtækin hafi haft a. m. k. nokkrar millj. kr. í veltu á rekstrarárinu 1976. Niðurstaðan af þessari könnun var þessi:

Heildarvelta fyrirtækja á árinu 1976 er af Þjóðhagsstofnun áætluð 426 þús. millj. kr. og þar af hjá fyrirtækjum í félagsformi 343 milljarðar. Útkoman sýnir, að um 41% af veltu félaga, eða um 142 þús. millj. kr., lentu ekki í tekjuskatti á liðnu ári. Fjöldi þessara félaga, sem var tekjuskattsskyldur og greiddi meira en 20 þús. kr. í aðstöðugjald, var 3 313. þ. e. heildarfjöldi félaganna, en af þeim greiddu 1170 fyrirtæki engan tekjuskatt eða 35% af þessum fyrirtækjum. Meðalvelta þessara skattlausu fyrirtækja var um 120 millj. kr. Ég vek á því athygli í þessu sambandi, að það er misprentun í grg. með till. Þar sem segir að meðalveltan hafi verið 12 millj. kr. á að standa 124 millj. kr.

Ég vil vekja athygli á því, að á bls. 6 í þskj. er þessi tala sundurliðuð. Þar er gerð grein fyrir fjölda félaga í hverju skattumdæmi sem höfðu yfir 20 þús. kr. aðstöðugjald. Síðan er í B-dálki gerð grein fyrir því, hve mörg af þessum fyrirtækjum greiddu engan tekjuskatt. Í Reykjavík voru það 485 fyrirtæki, á Reykjanesi 175, Vesturlandi 95, Vestfjörðum 78, Norðurlandi vestra 46, Norðurlandi eystra 168, Austurlandi 33, Suðurlandi 56 og í Vestmannaeyjum 34. Samtals voru þetta 1170 fyrirtæki eins og áður er sagt. (Gripið fram í.) Það eru öll félög hér með talin, þ. á m. mörg kaupfélög. Ef hv. þm. ímyndar sér, að einhverju fyrirtæki hafi verið stungið undan af annarlegum ástæðum, þá er það mesti misskilningur. Þau eiga þarna öll að vera með. En þau eru ekki með ef þau hafa greitt meiri tekjuskatt en nemur 100 þús. kr.

Í C-dálki á bls. 6 er síðan gerð grein fyrir því, hver er áætluð velta þessara tekjuskattslausu fyrirtækja. Heildarniðurstöðutalan er, eins og áður segir, 141 milljarður kr. rúmlega.

Í D-dálki er síðan gerð grein fyrir því, hversu mörg fyrirtæki greiða tekjuskatt, en þó óverulegan, þ. e. a. s. einhvers staðar á bilinu frá 1000 til 100 000 kr., og þau reynast vera samtals í öllum skattumdæmum 414.

Í E-dálki er síðan samanlögð tala skattlausra fyrirtækja og þeirra fyrirtækja sem greiða í tekjuskatt innan við 100 þús. kr. Þau reynast vera samanlagt 1584, eða rétt tæplega helmingur allra fyrirtækja sem könnunin nær til. Samanlögð velta þessara 1584 fyrirtækja er 160 milljarðar 300 millj. kr.

Til enn frekara sannindamerkis um niðurstöðu þessarar könnunar hef ég leyft mér að láta prenta hér sem fskj. heiti allra þessara fyrirtækja og upphæð þá sem þau greiddu í aðstöðugjald. Menn geta síðan með hliðsjón af aðstöðugjaldsstiganum, sem birtur er á bls. 5, reiknað það út varðandi hvert fyrirtæki fyrir sig, hve mikil velta þess var. Aðstöðugjaldsstiginn er að vísu ekki sá hinn sami alls staðar á landinu, en það er annars vegar gerð hér grein fyrir. hver aðstöðugjaldsstiginn er í Reykjavík og í öðru lagi, hver hann er í flestum öðrum kaupstöðum á landinu og gerð grein fyrir aðalmismun á stiganum miðað við þær meginreglur sem gilda um þetta efni.

Endanleg niðurstaða þessarar könnunar, svo ég orðlengi nú ekki frekar um hana, er einfaldlega sú. að helmingur fyrirtækja í félagsformi með rétt um helming af heildarveltu slíkra fyrirtækja sleppur með að borga lítinn sem engan tekjuskatt. Sú spurning hlýtur að vakna, hver er skýringin á þessum mikla fjölda fyrirtækja sem sleppur svo vel frá tekjuskattsálagningu. Ég þykist vita að ýmsir hafi svörin á reiðum höndum og segi sem svo: Skýringin er einfaldlega sú, að afkoma fyrirtækjanna var svona léleg. Mjög mörg þeirra eru vafalaust rekin með tapi, segja menn, og afkoman virðist almennt hafa verið svona slæm.

Ég vil í þessu sambandi láta það koma fram. að samkv. þeim gögnum, sem lögð hafa verið fram af hálfu Þjóðhagastofnunar, verður ekki annað séð en að afkoma fyrirtækja á árinn 1976 hafi verið fremur góð. Þjóðhagsstofnun áætlar að vergur hagnaður fyrirtækja á árinu 1976, þ. e. a. s. hagnaður fyrir afskriftir og tekju- og eignarskatt, hafi numið milli 18 og 19 milljörðum kr. í heild, eins og kemur fram í grg. á bls. 6. Þá er sem sagt búið að draga frá greidd aðstöðugjöld og öll gjöld fyrirtækjanna önnur en tekju- og eignarskatt. Í 6. hefti tímarits Þjóðhagsstofnunar, sem kom út í október á s. l. ári. segir á bls. 40 um afkomu atvinnurekstrarins, með leyfi forseta:

„Afkoma frystingarinnar í heild var betri á árinu 1976 en undangengin tvö ár, og afkoma saltfisk- og skreiðarverkunar batnaði einnig frá fyrra ári og var svipuð og 1974. Hagur útgerðarinnar versnaði á árinu 1975, en vegna mikillar aukningar aflaverðmætis vænkaðist hagur fiskveiða talsvert á árinu 1976.

Talið er víst, að hagur útflutningsgreina iðnaðar hafi enn batnað á s. l. ári, þar sem saman fór veruleg aukning útflutnings, verðhækkun á erlendum markaði og áframhaldandi gengissig íslensku krónunnar.“

Þannig mætti halda lengi áfram að lesa. Greinilega kemur fram í skýrslum Þjóðhagsstofnunar, að hagur atvinnuvega hefur verið talinn góður ef á heildina er lítið á árinu 1976, þótt að vísu væri hann nokkuð misjafn, eins og ævinlega er. Það er ljóst, að afkoma fyrirtækjanna er ein út af fyrir sig ekki nægileg skýring á því, hversu vel þau sleppa frá álagningu tekjuskatts. Skýringin er fólgin í skattalögunum sjálfum. Það eru hinar fjölmörgu ívilnunarreglur skattalaga sem valda því að fyrirtækin sleppa svo vel. Í öðru lagi verður auðvitað að hafa í huga, að á miklum verðhækkanatímum koma aðeins hin neikvæðu áhrif verðbólgunnar fram í bókhaldinu, en hagnaðurinn, raunverulegur hagnaður telst að sama skapi minni, en auðvitað er um að ræða stórfelldan leyndan verðbólgugróða hjá flestum fyrirtækjum.

Ég hef oft á undanförnum árum flutt á Alþ. langar og ítarlegar greinargerðir um hinar mörgu ívilnunarreglur skattalaga. Að þessu sinni ætla ég ekki að endurtaka þann lestur. Ég minni aðeins á að hér er alveg sérstaklega um að ræða afskriftarreglurnar, þ. e. regluna um flýtifyrningu, regluna um verðhækkunarstuðul fyrninga og þær einkennilegu reglur sem í skattalögum eru, að sama eign getur verið margfyrnd ef hún skiptir um eiganda, og í fjórða lagi það, að skatti af söluhagnaði er sleppt ef ný eign er í takinu. Þá má minna á varasjóðsheimildirnar og í þessu sambandi benda á að samkv. upplýsingum fjmrh. í des. s. l., þegar hann svaraði fsp. frá mér um það efni. upplýsti laun að fyrirtæki í félagsformi hefðu dregið frá hreinum tekjum sínum 1243 millj. kr. á árinu 1976 og lagt í varasjóð.

Enn má minna á þær ívilnunarreglur sem felast í heimildum fyrirtækja til að draga risnukostnað frá tekjum sínum. Enginn vafi er á því, að sú heimild er herfilega misnotuð og á drjúgan þátt í því, að fyrirtæki koma út með litlar tekjur, enda þótt eigandanum hafi tekist á óbeinan hátt að hafa af fyrirtækinu verulegar tekjur með því að koma persónulegum útgjöldum sínum á fyrirtækið. Ég ætla ekki frekar að ræða um þessa aðferð, enda hef ég lagt fram í þinginu fsp. um þetta efni til hæstv. fjmrh. og beðið hann að sjá til þess, að reiknað yrði út, hve hár risnukostnaður reyndist vera við útreikning skatta á árinu 1977. Vænti ég þess að fá svör við þeirri spurningu innan tíðar og gefst þá betra tækifæri til að athuga þá hlið málsins.

Enn mætti tíunda fjölmargar aðrar glufur og smugur í skattalögunum, en ég hef áður vikið að þeim flestum og sé ekki ástæðu til að endurtaka það hér. Þessar glufur þarf hins vegar að fylla í, en þó að það sé gert verð ég að játa, að hætt er við að erfitt verði að koma í veg fyrir undanskot tekna í eitt skipti fyrir öll. Þess vegna tel ég að vel komi til athugunar að veltuskattar á fyrirtæki séu eitthvað hækkaðir.

Aðstöðugjöld eru sá veltuskattur sem í dag er lagður á fyrirtæki. Á árinu 1977 munu aðstöðugjöld á félög hafa numið 2538 millj. kr., en til samanburðar má geta þess, að sama ár nam tekjuskatturinn 2870 millj. kr. Ef þessar tvær tölur eru lagðar saman og bornar saman við heildarveltu fyrirtækja í landinu, kemur í ljós, að skattgreiðslur félaga — þ. e. a. s. samanlagðar skattgreiðslur félaga til ríkis og til sveitarfélaga — námu aðeins tæplega 1.6% af heildarveltu fyrirtækja í landinu. Ég vil hins vegar benda á það, að ef sérstakur veltuskattur verður lagður á fyrirtæki, þá tel ég að eins og á stendur eigi að undanskilja fyrirtæki í sjávarútvegi, fiskiðnaði, landbúnaði og útflutningsiðnaði slíkum veltuskatti. Ég tel að ríkissjóður gæti haft æðimiklar tekjur af veltuskatti jafnvel þótt þessi fyrirtæki væru undanskilin, því að velta þessara fyrirtækja sem ég nú nefndi — þ. e. a. s. fyrirtækja, sem framleiða til útflutnings, og landbúnaðarfyrirtækja — nemur aðeins um fjórðungi af heildarveltu atvinnurekstrarins í landinu. Læt ég nægja að vísa til upplýsinga Þjóðhagsstofnunar á bls. 5 um skiptingu heildarveltu fyrirtækja á árinu 1976 milli hinna ýmsu atvinnuvega. Af þessari skýrslu Þjóðhagsstofnunar má glöggt ráða að velta rekstrar í útflutningsatvinnuvegum og landbúnaði nemur ekki nema svona rétt um fjórðungi af heildarveltu fyrirtækja í landinu.

Ég sé svo ekki ástæðu, herra forseti, til að fjölyrða frekar um þessa till., en minni þó að lokum á að hæstv. fjmrh. hefur verið mjög iðinn, að ekki sé meira sagt, við að gefa yfirlýsingar um að hann hygðist beita sér fyrir breytingum á skattalögum á þessu kjörtímabili. Hann hefur gefið loforð af þessu tagi á hverju einasta ári, frá því að hann settist í sinn ráðherrastól, og ekkert sparað við sig að endurtaka slík loforð ár eftir ár, þótt sumum hafi fundist að loforð ráðh. bæru meira keim af því, að hann væri að halda mönnum uppí á snakki og ekki fylgdi örugglega sá hugur máli sem þyrfti ef ætti að koma fram gagngerum breytingum til batnaðar. Af þessu tilefni leyfi ég mér að spyrja hæstv. fjmrh., hver séu áform hans og ríkisstj. um breytingar á skattalögum á þessu þingi, hvort áformað sé að leggja fram frv. um þetta efni og hvort það sé raunsætt, að unnt verði að koma á staðgreiðslukerfi skatta 1. jan. 1979, eins og uppi hafa verið áform um. Mér sýnist á öllu að tíminn sé að hlaupa frá ráðh. og frá okkur öllum, varðandi það atriði, að unnt sé að koma á staðgreiðslukerfi á næsta ári, Og mér virðist að frv. um þetta efni verði að sjá dagsins ljós þegar að páskum loknum, ef einhver minnsta vor á að vera til þess að frv. geti hlotið afgreiðsla fyrir þinglok.

Herra forseti. Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.