27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (216)

17. mál, efling útflutningsstarfsemi

Flm. (Lárus Jónason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Sverri Hermannssyni að flytja á þskj. 17 till. til þál. um samræmingu og eflingu útflutningsstarfsemi. Till, er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj, að gera úttekt á skipulagi og aðstöðu útflutningsverslunar landsmanna og leita leiða til þess að efla og samræma útflutningsstarfsemi fyrir íslenskar framleiðsluvörur og þjónustu. Um úttekt þessa, samræmingu og eflingu útflutningsstarfsemi, skal hafa samráð við þá aðila sem nú annast útflutning og markaðsstarfsemi.

Í þessu sambandi skal áhersla lögð á eftirfarandi:

1. að kanna hvort rétt sé og hagkvæmt að koma á fót samstarfi allra aðila, sem vinna að útflutningsstarfsemi, m.a. í því skyni að stuðla að á skipulegan hátt almennri kynningu á íslenskum vörum og þjónustu erlendis og þjálfun starfsfólks, sem vinna mun að hvers konar útflutningsstarfsemi.

2. að marka enn frekar þá stefnu í skatta- og tollamálum, svo og annarri opinberri fyrirgreiðslu, sem auðveldar íslenskum útflytjendum samkeppni á erlendum mörkuðum;

3. að kanna hvort rétt sé og hagkvæmt að samræma eð, sameina starf utanr.- og viðskrn. á sviði útflutningsstarfsemi og efla starf utanríkisþjónustunnar í markaðsmálum.“

Till. þessi er endurflutt frá síðasta þingi og gerði ég allýtarlega grein fyrir henni í framsögu þá, auk þess sem mjög yfirgripsmikil grg. fylgir till. Framsöguræða mín birtist í 12. hefti þingtíðinda. Ég þyrfti því ekki að hafa miklu fleiri orð um þetta nú, en vil þó aðeins drepa á nokkur meginatriði í sambandi við þetta mál.

Ég vil geta þess, að till. fékk ekki afgreiðslu á síðasta þingi. Hún lá fyrir utanrmn. um nokkurt skeið, en samkv. því sem nm. hafa tjáð mér fékk n. ekki allar umsagnir sem hún taldi nauðsynlegar til þess að afgreiða málið á síðasta þingi, en ég vænti þess að n. taki till. til endurathugunar nú.

Í sambandi við þessa þáltill. er eitt höfuðatriðið að minnast þess, að við Íslendingar erum mjög háðir utanríkisviðskiptum. Við eyðum milli 35 og 40% af þjóðartekjum okkar til þess að kaupa nauðsynlegar vörur erlendis frá, flytjum þessar vörur inn og verðum síðan að sjálfsögðu að flytja út jafnmikið af vörum og þjónustu helst til þess að jafna viðskipti okkar við útlönd.

Okkar útflutningsstarfsemi hefur verið alleinhæf framan af, en hún hefur þó nokkuð breyst á síðustu árum. Fyrir allnokkru var einungis tíundi hluti af útflutningnum iðnaðarvara, en nú mun hlutur iðnaðarvöru vera komin upp í 1/5 af útflutningnum. Þetta er mjög gleðileg og æskileg þróun vegna þess að menn hafa gert sér æ betur ljóst að iðnaðurinn hlýtur að vera sú atvinnugrein sem þarf að veita nýju vinnuafli verkefni. Iðnaðurinn hlýtur að verða mesta vaxtargrein í íslensku atvinnulífi á næstu árum, og alveg sérstaklega verður þá að hyggja að útflutningsiðnaði, vegna þess að markaður okkar hér innanlands er auðvitað það þröngur að á honum byggjum við ekki neinn verulegan vöxt þessarar atvinnugreinar, sem þó þarf að gegna svo veigamiklu hlutverki sem allir hafa viðurkennt.

Nágrannaþjóðir okkar verja nú milljörðum kr. í margvíslega útflutningshvetjandi aðgerðir. Þessi starfsemi þeirra hefur margfaldast á síðustu árum og þær hafa, jafnframt því að verja stórauknu fé til útflutningshvetjandi aðgerða, endurskipulagt og samræmt þessa starfsemi hjá sér, þannig að heita má að gerbylting hafi orðið á þessu sviði á síðustu árum. Í fskj. með grg. þessarar till. er stiklað á nokkrum atriðum varðandi þetta hjá nágrannaþjóðum okkar, þ.e.a.s. hjá Norðurlandaþjóðunum, og þar kemur greinilega fram hversu gífurlegar framfarir hafa orðið á þessum svíðum á undanförnum árum. Það fer heldur ekki á milli mála, ef menn skoða vörusýningar erlendis, hvað þessar þjóðir hafa lagt á þetta ríka áherslu og verja til þessa miklu fé. Ég skoðaði nú fyrir nokkru matvælasýningu í Evrópu, sem er með stærri matvælasýningum í heiminum, og þar voru okkar nágrannaþjóðir, sérstaklega Danir, með afar stóra sýningarbása, og þeir báru raunar af Norðurlandaþjóðunum, en Norðmenn voru þó þar mjög fyrirferðarmiklir og sýndu gífurlega mikið af vörum sem þeir flytja út. Allt þetta sýnir hvað er að gerast meðal þessara þjóða í þessum efnum.

Ekki þarf að fara mörgum orðum um það, hvernig núverandi skipan útflutningsmála er hjá okkur. Á því sviði starfa fjölmargir aðilar, sumir samkv. lögum. Þar má t.d. nefna Fiskimálasjóð, Framleiðsluráð landbúnaðarins, Sölustofnun lagmetis, Útflutningslánasjóð, Iðnrekstrarsjóð, Tryggingadeild útflutningslána, Útflutningsmiðstöð iðnaðarins o.s.frv. Þá starfar á vegum viðskrn. sérstök vörusýningarnefnd og á vegum utanrrn. er líka nokkur starfsemi í útflutnings- og markaðsmálum. Jafnframt starfa auðvitað að beinum útflutningi og markaðsstarfsemi kunn útflutningsfyrirtæki eins og Sölustofnun hraðfrystihúsanna, Samband ísl. samvinnufélaga, Sölusamband ísl. fiskframleiðenda, Skreiðarsamlagið, Síldarútvegsnefnd o.s.frv.

Einn megingallinn við skipulag útflutningsmálanna hér er að minni hyggju sá, að þessir aðilar hafa ekki nægileg samráð og samstarf. Það er engin einn aðili sem getur komið fram fyrir hönd Íslendinga erlendis og sýnt þar íslenska vöru og komið þar fram fyrir alla þessa aðila, nema þeir komi sér saman um að það verði gert. Ég lít svo á að úr þessu þurfi að bæta og það eigi að gera með samstarfi þessara aðila í einhverju formi. Ég vil taka það mjög skýrt fram, að ég álít að við getum ekki farið þarna í för annarra þjóða fyllilega, t.d. Norðmanna, sem hafa gífurlega mikla starfsemi á þessu sviði. Við höfum ekki möguleika á því að koma hér upp einhverju stórkostlegu bákni sem e.t.v. yrði nefnt Útflutningsráð Íslendinga eða eitthvað slíkt, heldur þurfum við að koma hér á samstarfi á milli þessara aðila, a.m.k. til að byrja með, og þróa þannig þessa starfsemi e.t.v. til einhvers meira síðar, en aðalatriðið er að auka og endurbæta samvinnu þessara aðila.

Um 2. tölul. þessarar till.: að marka enn frekar þá stefnu í skatta- og tollamálum, svo og annarri opinberri fyrirgreiðslu, sem auðveldar íslenskum útflytjendum samkeppni á erlendum mörkuðum, — það þarf ekki margt um hann að segja. Það eru þar mörg augljós atriði sem þarf að lagfæra frá því sem nú er. T.d. er það svo, að uppsöfnunaráhrif söluskatts eru þessum aðilum mjög mikill fjötur um fót. Nágrannalönd okkar og aðalkeppnislönd búa við virðisaukaskatt sem leggst ekki á útfluttar vörur, en aftur á móti er það svo með söluskatt hjá okkur að hann felst að nokkrum hluta í verði útflutningsvöru og gerir íslenska útflytjendur ósamkeppnishæfari en ella. Þetta mál er nú í athugun og ég legg áherslu á að á því finnist nokkur lausn. Besta lausnin er sú auðvitað að koma hér á svipuðu skattkerfi og gildir hjá þjóðum sem keppa við okkur að þessu leyti, þ.e.a.s. með virðisaukasniði.

Margt annað væri auðvitað ástæða til að minnast á í þessu efni, en ég geri það ekki frekar að umræðuefni nú.

Um 3. liðinn er það að segja, að utanrrn. og viðskrn. starfa bæði að útflutningsstarfsemi. Þetta hefur mörgum fundist óæskilegt og óhagkvæmt, að útflutningsstarfsemin heyrði ekki undir eitt rn. Þetta mál er margrætt og um það hafa komið fram ýmsar skýrslur. Það eru vissir vankantar á því að sameina þessa starfsemi undir öðru hvoru þessu rn., en ég hygg að það sé mjög æskilegt að reyna að finna lausn á því, að samstarf milli þessara rn. verði í ákveðnu formi á. þessu mikilvæga sviði,

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessa till., herra forseti, þar sem ég hef áður, eins og ég sagði áðan, gert mjög ítarlega grein fyrir henni. Ég legg til, að umr. um till. verði að loknum umr, hér frestað og till. verði vísað til hv. utanrmn.