16.03.1978
Sameinað þing: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2925 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

119. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það er í sjálfu sér ekki ástæða fyrir mig, þótt ég sé meðflm. að þessari till., að fylgja henni betur úr hlaði en hér hefur verið gert af hv. 1. flm., hv. þm. Eyjólfi K. Jónssyni, en þó eru nokkur atriði til viðbótar sem ég vildi draga fram nú þegar við þessa umr., áður en henni verður frestað.

Nú er það svo, að í grg. þessarar till. leyfum við okkur að hrósa mjög stjórnendum banka og telja meðal þeirra ýmsa hæfileikamestu menn þessarar þjóðar, eins og þar segir. Við þetta stend ég að sjálfsögðu sem undirskriftarmaður að þessari till., en því miður virðist álit þeirra ekki vera hið sama á okkur sem leyfðum okkur að flytja þessa till. á sínum tíma. Má m. a. vitna til viðtala við suma þeirra sem komu í dagblöðum, þegar þeir kváðu þess litla þörf fyrir þm. að vera að skipta sér af slíkum málum, hæfileikarnir, fróðleikurinn og vitið væri þeirra og þeir kynnu svör við öllum vandamálum sem upp kynnu að koma á þessu sviði. Svo getur hver og einn litið í eigin barm og velt því fyrir sér, hvort svo sé, í ljósi ýmissa atburða. Auðvitað geta komið upp vandamál hjá þeim, eins og annars staðar í okkar þjóðfélagi, sem stjórnendur ráða ekki við.

Hér hefur verið skýrt frá og reyndar komið fram áður í umr., hver fjölgunin hefur verið á starfsfólki ríkisbankanna á tiltölulega stuttu tímabili, eða um 45%. Eins og segir í grg. með þessari till., hefur þetta m. a. verið til þess að standa sig í þeirri samkeppni sem er sú ein að ná til sín stærri hlutdeild sparifjárins. Herkostnaðurinn, eins og segir þar líka orðrétt, — með leyfi forseta, — herkostnaðurinn í stríðinu við að afla auranna vex, verðmætaaukning er engin. Þetta er auðvitað hárrétt. En með þessu er ekki sögð nema hálf sagan þegar minnst er á vinnuaflið. Það á eftir að geta um það ótrúlega mikla fjármagn, sem fer auk þess til þess að skapa starfsfólkinu þá aðstöðu að geta staðið í þessari samkeppni. M. a. vegna þess að ég tel það hlutverk þessarar till. að fá svar við því, leyfði ég mér fyrir nokkuð mörgum víkum, að mér finnst nú, að leggja fram fsp. í Sþ. til hæstv. viðskrh. um fjárfestingu ríkisbankanna. Hún er í 6 liðum, einmitt um fjárfestingu ríkisbankanna og fleiri atriði sem ég mun aðeins koma að nú.

Það gerðist nefnilega meðan hæstv. viðskrh. var í stjórnarandstöðu, á því herrans ári 1968, að einn af flokksmönnum hans, þáv. þm. Sigurvin Einarsson, lagði fram fsp. til þáv. viðskrh. og bankaráðh., Gylfa Þ. Gíslasonar, hv. þm. nú, um þróun þessara mála frá og með árinu 1960–1908. Sú fsp. var leyfð í hv. Sþ. 23. okt. það ár og var tekin til umr. 6. nóv. sama ár, eða aðeins nokkrum dögum síðar. Og þá stóð ekki í yfirmönnum bankamála hér á landi að svara þessari spurningu, þó að fara þyrfti 8 ár aftur í tímann til þess að svara því sem um var spurt. Nú virðist hins vegar vera harla mikil tregða á því á Alþingi Íslendinga að fá svör við þeim spurningum sem ég hef lagt fram.

Fyrsta spurningin á þessu þskj. er um það sama og þáv. hæstv. viðskrh., Gylfi Þ. Gíslason, veitti svar við, aðeins reiknað til verðlags dagsins í dag. Ef hinir háu herrar í Seðlabanka Íslands og reyndar fleiri bönkum geta ekki fljótlega svarað þeirri spurningu, þá tel ég persónulega að þeir hafi lítið að gera í þeim störfum sem þeir gegna núna. En til þess að skýra betur þá skoðun mína, að svör við þessum spurningum mínum verði að fylgja þessari þáltill. sem við flytjum, ég og meðflm. minn, hv. 4. þm. Norðurl. v., Eyjólfur K. Jónsson, þá vil ég aðeins renna yfir þessar fsp. — með leyfi forseta — vegna þess að ég hef aðeins beðið um skrifleg svör og ætlaði svo sannarlega að nýta þau svör í sambandi við umr. um þá till. sem hér er til umr.

Fyrsta spurningin var á þá leið, hvort þessari spurningu fengist ekki svarað eins og hefði verið svarað samskonar fsp. í Sþ. fyrir nær 10 árum, en bara að það yrði miðað við verðlag dagsins í dag.

Síðan er önnur spurning mín sú, — og biður enn svars og mér þykir nokkuð löng sú bið, eins og ég hef líka þegar tekið fram, — að ég spyr, hversu mikil sé þessi og önnur fjárfesting ríkisbankanna á árunum 1969–1978, einnig á núverandi verðlagi.

Þriðja spurning mín er á þessa leið: Hversu mikill er áætlaður kostnaður ríkisbankanna hvers um sig af yfirstandandi fjárfestingarframkvæmdum?

Fjórða spurningin er: Eru ráðgerðar einhverjar fjárfestingarframkvæmdir hjá ríkisbönkunum, sem enn er ekki byrjað á? Ef svo er, hverjar eru þær og hvað er áætlað að þær muni kosta?

Fimmta spurning: Er um að ræða einhverjar sameiginlegar fjárfestingar ríkisbankanna á þessu árabili? Ef svo er, hverjar eru þær og hvað eiga þær að kosta á núverandi verðlagi?

Og svo í sjötta og síðasta lagi: Eru fyrirhugaðar frekari sameiginlegar fjárfestingarframkvæmdir ríkisbankanna? Ef svo er, hverjar eru þær?

Þegar hv. þm. hafa þessar spurningar í huga, þá hljóta þeir að sjálfsögðu að vera sammála þeirri skoðun minni, að nauðsynlegt sé, um leið og við ræðum um fólksfækkun í bönkunum — þó með þeim fyrirvara sem ég tek fyllilega undir og hv. frsm. þessa máls hefði hér rétt áðan, að ekki þarf endilega að stefna að því að segja þessu fólki upp, — heldur þarf að hafa aðhald við frekari ráðningar í framtíðinni. Það er hins vegar mín bjargfasta skoðun, að ef til þess kemur að þessa leið þurfi að fara, þá þurfi að minnka þá þjónustu sem þegar er veitt. Ég vil ekki bera á móti því að mikil þjónusta er veitt hjá viðskiptabönkunum í Reykjavík í dag og að mínu mati allt of mikil. Mér finnst allt of mikið í það lagt að veita þá þjónustu, sem hér er veitt t. d. á höfuðborgarsvæðinu, og tel, þótt ég sé einn af þm. Reykv., að margir staðir vís vegar um landið þurfi frekar á slíkri þjónustu að halda en við Reykvíkingar.

Þegar rædd eru þessi mál frá þessum sjónarhól hljótum við auðvitað að koma aftur að frv. hv. þm. Lúðvíks Jósepssonar, sem hér hefur nokkrum sinnum verið til umr., um sameiningu banka og fleiri aðgerðir í sambandi við skipulag bankamála hér á landi. Og þótt ég sé persónulega á móti þeirri hugmynd, að Búnaðarbanki og Útvegsbanki eigi að sameinast, þá er ég ekki þar með að segja að ekki sé hugsanlegt að einhverjir aðrir bankar sameinist, eins og hér var minnst á áðan. Það er t. d. nokkuð títt að heyra forustumenn iðnaðarins hér á landi segja, að þeir telji stóran hluta þess, sem ég tel til sjávarútvegsmála hér á Íslandi, sem er að sjálfsögðu fiskiðnaðurinn, þeir telji það sérstakt mál iðnaðarins þegar þurfi að koma mannaflaskýrslum á framfæri við þjóðina, að ég tali nú ekki um krónuhlutdeild í sambandi við vinnu þjóðarinnar og skiptingu á milli búskapargreina hennar. Ég tel að vel mætti hugsa sér að þeir bankar, sem fjalla mest um þá starfsemi sem viðkemur hlutfallslega mest fiskveiðum og fiskvinnslu, sem eru Útvegsbankinn og Iðnaðarbankinn, þeir leituðu eftir ákveðnu samstarfi. Auk þess hef ég bent á þá staðreynd áður, að hver og einn viðskiptabanki, eins og í þessu tilfelli Útvegsbankinn til sjávarútvegs, hefur þurft að binda afskaplega stóran hluta af ráðstöfunarfé sinu í lánum til atvinnuveganna. Hægt væri að hugsa sér að þeir bankar, sem þannig stendur á um, tækju ekki nema að ákveðinni prósentu af sinu ráðstöfunarfé, til þessa, en Seðlabankinn t. d. tæki við og sæi um það sem þyrfti fram úr að fara.

Ég býst við að slíkar hugleiðingar um sameiningu og samskipti banka séu jafnmargar og þm. sem ern nú í þingsalnum. Ég hef líka heyrt till. sem mér finnst allrar athygli verð, og hún er sú, að langstærsti banki þjóðarinnar, Landsbanki Íslands, mætti alveg að skaðlausu minnka nokkuð við sig og flytja til annarra banka sem eru starfandi. Það er skoðun sem rétt er að komi hér fram og liggi fyrir í þingtíðindum, án þess að ég sé að gera hana að minni till. Ég vil undirstrika, að auðvitað verða að ráða bestu manna ráð, og um leið og ég tala um að ég hafi ekki trú á því, að Búnaðarbanki og Útvegsbanki eigi eftir að sameinast, þá er það einfaldlega vegna þess, að ég hef orðið var við mikla andstöðu gegn slíkri sameiningu frá ýmsum mætum og góðum stuðningsmönnum beggja þessara stofnana.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til þess að hafa fleiri orð um þetta. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram nú við fyrri hluta þessarar umr. og vekja athygli á því, að enn þá er beðið, ég bið enn þá og aðrir hv. þm. um leið eftir svörum við spurningum sem mér finnst og hefur fundist að þyrftu að liggja fyrir um leið og sú þáltill., sem hér er til umr., er rædd.