16.03.1978
Sameinað þing: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2927 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

119. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hefði ekki kvatt mér hljóðs, ef flm. þessarar till. hefði ekki gert slíkt hið sama og fyrri flm., sem talaði fyrir þessari till., og aðallega þá af því að ég tel till. þátt í hálfgerðum skopleik. Það er að mínu viti hlægilegt þegar tveir þeirra ágætu þm., sem ég hef alltaf litið á sem eina af traustustu stoðum þessarar ríkisstj., því ég hef ekki heyrt þá greina á við ríkisstj., flytja þáltill. sem hefst á eftirfarandi orðum, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að heita sér fyrir sparnaði í fjármálakerfinu.“

Mér finnst alveg dásamlegt, að loksins skuli vera fenginn hljómgrunnur fyrir því hjá traustustu og spökustu stuðningsmönnum ríkisstj. og hugmynd um það, að Alþ. fell ríkisstj. að gera það sem henni ber skylda til að gera. Ég get ekki séð að þurfi neina sérstaka samþykkt á Alþ. til að ríkisstj. geri það sem till. segir til um.

Síðan segir í grg.: „Alþjóð er ljóst, að nú er þörf aðhaldsaðgerða í fjármálum.“ Þetta hlýtur þó ríkisstj. og hv. þm. að vera ljóst líka. „Sú kaldhæðnislega staðreynd blasir þó við, að fjármálastofnanir hafa þanist einna mest út allra ríkisfyrirtækja á sama tíma sem sparifjármyndun minnkar. Leiðir hér sem oftar óstjórn af ofstjórn.“ — Þetta eru ekki mín orð, þetta er í grg. — „Við þetta verður ekki unað.“

Ég er því alveg sammála, að við þetta verður ekki unað. Þetta er dómur flm. um það sem orðið er á þessu kjörtímabili. Það segir sig sjálft, að peningavelta verður meiri og meiri eftir því sem atvinnan er meiri og eftirspurnin eftir vinnuafli er meiri. Við erum meðal þeirra sem vilja hafa frjálsræði og frjálsa samkeppni, og þessi fulla atvinna, þessi mikla spenna og þessi ofborgun — þá kannske helst framkvæmdir á vegum ríkisins — hafa gert það að verkum, að seðlaveitan er svo mikil að ríkisbankarnir m. a. hafa séð sig tilneydda að auðvelda fólki að koma fénu í geymslu með því að hafa afgreiðslustöðvar sem næst þeim íbúðarhverfum sem fjölmennust eru. Má segja að hér sé einhver óstjórn sem afleiðing af ofstjórn.

Ég ætla þá að leyfa mér að vitna í næstu málsgrein, sem endar svona: „Þó bendir flest til þess, að aðgerðir á borð við þær, sem hér er lagt til að ríkisstj. hafi forustu um, séu nauðsynlegar.“ Skortir ríkisstj. virkilega vald til að gera þessar ráðstafanir. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að ríkisstj. hefði vald til nauðsynlegra aðgerða til þess að komast úr úlfakreppu, að brjótast út úr úlfakreppu. Ég sé ekki að það breyti nokkrum sköpuðum hlut fyrir ríkisstj., hvort samþ. er till. eða ekki samþ. Ég álit að ríkisstj. hafi þetta vald.

Síðan er í næstu málsgrein talað um eftirspurn lánsfjár o. s. frv. Þar segir svo: „Bankar hafa einn og sama verðmæti, óraunhæfan verðmæli.“ Af hverju? Þetta eru ríkisstofnanir sem halda sína sameiginlegu fundi og hlíta fyrirmælum ofan frá, frá Seðlabanka Íslands, sem að vísu starfar eftir sérstökum lögum, en þó í nánu samstarfi við og með samþykki ríkisstj., að ég held, í öllum stærstu ákvörðunum sem þar eru teknar. Það eru engin smámál sem banka- og peningakerfið, sem er að miklu leyti ríkiseinokað — eins og réttilega kom fram — þrátt fyrir litla einkabanka, tekur ákvarðanir um. Þetta bákn, sem nú á að fara að minnka, hefur vaxið á undanförnum árum frá því að vera deild í Landsbanka Íslands í fjölmennari og stærri stofnun en öll utanríkisþjónusta landsins. Ég held við ættum þá að byrja ofan frá og athuga hvað hægt er að gera til þess að minnka svolítið toppinn á stjórnkerfinu sjálfu. Getur verið að hér sé átt við það.

Hvað er það sem vantar á vald ríkisstj. núna til þess að endurskoða sjóðakerfið og hagstjórnarbáknið í heild, ef það þarf að taka það til gagngerrar athugunar, eins og kemur hér fram? Hér segir, að ekki sé nokkur vafi á því, að þann frumskóg megi grisja. Mér finnst þetta vera ein allsherjarádeila á meðhöndlun ríkisstj. á þessum málum. Ég sé ekki að neitt vald vanti til að gera það sem kemur fram í þessari till., ef menn á annað borð vilja gera það. Það er ekkert smásvið, þetta þarf að spanna yfir allt sviðið, frá Þjóðhagsstofnun til minnstu sjóða. Það hefur tekið langan tíma og mikið starf að byggja upp það kerfi sem er svona ónothæft í dag. En ég sé ekki að ríkisstj. skorti vald til að hafa forustu um sparnað í fjármálakerfinu.

Ég tek líka undir það með flm., að hægara er að tala um þessi mál en í að komast. En hvað varðar sameiningu bankanna, þá er ég ekki viss um að það sé til bóta að sameina Búnaðarbankann og Útvegsbankann. Það er annað mál, að Landsbankinn gæti hugsanlega tekið á sig eitthvað af þeim kvöðum sem hvíla á Útvegsbankanum. Það getur vel verið að ríkisbankarnir gætu eitthvað létt undir með Útvegsbankanum. Það er vitað mál, að Útvegsbankinn hefur þurft að taka á sig útlán til sjávarútvegs, eins og réttilega kom fram hjá 1. flm., á hinum ýmsu stöðum, á sama tíma sem sparisjóðir á þessum stöðum auka við sig í ríkum mæli sparifé án þess að lána það aftur í atvinnugreinarnar þar. Peningarnir á viðkomandi stöðum festast í sparisjóðunum, en viðkomandi atvinnuvegir þurfa að leita til höfuðstöðva Útvegsbankans í Reykjavík. Það getur vel verið, að dreifa þurfi ábyrgðinni á því, sem hvílir á Útvegsbankanum, á allt bankakerfið, enda er þetta ein heild. Þetta eru allt ríkisbankar, svo það væri kannske ekki óeðlilegt.

Ég mundi vinna að því með flm., að Seðlabankinn yrði aftur deild í Landsbanka Íslands, að allar þessar útreikningastofnanir í kerfinu, sem eru komnar á hvert götuhorn, að segja má, verði dregnar saman í eina. Ég skal taka undir það líka, að Framkvæmdastofnunin er mér ekki að skapi. Ég hef áður sagt það úr þessum ræðustól, að ég vil leggja hana niður. Ég hef flutt um það þáltill., sem var samþykkt að fela ríkisstj. að kanna hvaða áhrif útlán Byggðasjóðs og Framkvæmdastofnunar hafa haft á eðlilega þróun atvinnuveganna vítt og breitt um landið. Ég hef ekki borið fram fsp. um á hvaða stigi sú könnun er, en ég geri ráð fyrir því, að áður en þessu þingi ljúki skili hæstv. ríkisstj. af sér þeirri könnun. Það var henni falið og ég ber þess vegna ekki fram fsp. í þá átt, geri ráð fyrir að hún sé að vinna þetta verk. En það er athyglisvert, að hv. 1. flm. sagðist ætla að koma í veg fyrir byggingarframkvæmdir Framkvæmdastofnunarinnar og Byggðasjóðs, sem hafa nú þegar keypt lóð við Rauðarárstíg dýrum dómum, og mér skildist helst að hann mundi standa þar einn. Ég veit ekki hvernig hann ætlar að fara að því, nema hann ætli að standa á staðnum til þess að vinnuvélar komist ekki að verki.

Ég vil endurtaka það, að ég er ekki hér með að tala á móti þessari þáltill. Ég er bara að tala um að ég lít á það sem hálfgert skop að leggja fram till. um að ríkisstj. fái heimild til að gera það sem er í hennar verkahring. Og ég endurtek, að traustustu stuðningsmenn hæstv. ríkisstj. byrja sína till. þannig, eins og ég gat um áðan að „Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að beita sér fyrir sparnaði í fjármálakerfinu.“ Það finnst mér alveg dásamlegt.