16.03.1978
Sameinað þing: 58. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2930 í B-deild Alþingistíðinda. (2166)

119. mál, sparnaður í fjármálakerfinu

Flm. (Eyjólfur K. Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð um þessa sérkennilegu kennslu, sem við fengum frá hv. 12. þm. Reykv., annars vegar í stjórnarfarsrétti og svo hins vegar í viðskiptamálefnum. Ég hélt að öllum hér væri ljóst, að Alþ. er æðra vald en ríkisstj. og Alþ. felur ríkisstj. að gera eitt og annað. Svo til í hverri viku, meðan þing stendur, eru slíkar till. samþykktar. Það kom að vísu fram í lok ræðu þm., að till. hljóðaði um heimild ríkisstj. til handa, en hann las rétt, að ríkisstj. var falið að gera þetta. Það er nú einu sinni svo, að það á að vera hlutverk Alþ. ekki síður en ríkisstj. að marka stefnu í þjóðmálum. Að einstakir stjórnarþm. megi ekki hafa áhrif á stefnumörkun er kenning sem ég hef aldrei heyrt áður.

Við hv. þm. Pétur Sigurðsson leggjum á það mikla áherslu, að málefni bankanna verði tekin svipuðum tökum og málefni annarra ríkisstofnana. Þetta hefur ekki verið gert af þeirri ástæðu, að bankarnir hafa sínar fjárreiður sjálfir, þess vegna koma málefni þeirra ekki til umr. í fjvn. t. d., og þeir koma helst ekki til umr. á Alþ. heldur. Fjarstæða er að segja að einhver ásökun á núv. ríkisstj. fyrir að hafa staðið fyrir sérstakri útþenslu og óstjórn í bankamálum, fellst í þessari till. Ég nefndi bankamálaálitið frá 1973. Þá þegar voru bankamenn sammála um að komið væri í óefni. Lögum landsins verður nú einu sinni ekki breytt nema í þessari stofnun, og það ætti þá að vera leyfilegt að ræða þau hérna. Ég ætla a. m. k. ekki að spyrja hv. 12. þm. Reykv., hvort ég megi ræða hér bankamálefni. Að vísu sagði einn bankastjóri í viðtali við Morgunblaðið, þegar þessi till. var flutt, að hann væri alveg undrandi á því, að það væri verið að orða svona nokkuð, hvað Alþingi kæmi þetta við. Hann var alveg steinhissa, maðurinn. Ég er ekkert hissa á því, en ég var svolítið hissa á þeirri ræðu, sem var flutt hérna áðan.

Þá var það hinn þáttur málsins, að hann ætlaði að fara — hv. þm. Albert Guðmundsson í upphafi máls síns — að kenna okkur „business“. Hann ætti nú að kunna svolítið í honum og þess vegna lagði ég við hlustirnar, þegar hann kom að því, af því ég hélt að hann hefði mun meiri þekkingu á því sviði en á fyrra atriðinu, sem eðlilegt er af því að það hefur verið hans starfssvið. Þá var það þetta, að nauðsynlegt væri að hafa öll þessi bankaútibú vegna þess að það væru svo miklir peningar hjá fólkinu, að það yrði að auðvelda því að koma þeim í bankana. Ég held að það mætti fækka þeim talsvert og fólkið mundi samt láta eitthvað af peningum inn í bankana, kannske ekki einni krónu minna, þó að það væru e. t. v. ekki útibú hlið við hlið upp og niður Laugaveginn. Ég held að það mundi verða nokkuð sama útkoman að öllu öðru leyti en því, að hægt væri að spara stórfé og hafa sæmilega stjórn á bankakerfinu.

Ég vil ljúka þessum fáu orðum mínum með því að þakka hv. þm. Albert Guðmundssyni fyrir það, að hann lýsti því yfir í lokin, að hann væri ekki andvígur þessari till. og teldi að efnislega væri margt gott um hana að segja. En að það sé einhver skopleikur, eins og hann komst að orði, að Alþ. ræði þessi mál, er auðvitað svo fjarri lagi sem nokkuð getur verið. Þessi till. er a. m. k. fyrir okkur flm. fullkomið alvörumál. Það er fullkomið alvörumál, að Alþ. taki þetta föstum tökum. Ef hv. þm. Albert Guðmundsson treystir ríkisstj. einnig til þess að gera þetta og vill alls ekki ræða um það, gefa henni ekki neinar forskriftir eða nein fyrirmæli, þá er náttúrlega ágætt að hlusta á till. ríkisstj. enda gerum við ráð fyrir að fá þær til umr. Við ætlum þó ekki að gleypa við öllu sem hæstv. ríkisstj. hefur um það að segja. Við mörkum þessa stefnu sjálfir, hv. alþm.

Ég hlustaði mjög gaumgæfilega á ræðu hv. 2. þm. Austurl., sem efnislega ræddi þetta mál. Það má vel vera, að það sé ekki eina lausnin að sameina Útvegsbanka og Búnaðarbanka. Ég gat hér um aðra hugmynd, sem væri að stofna öflugan einkabanka. Ég held að það sé mikil ógæfa að við skulum vera að burðast með þrjá ríkisbanka. Helst ættum við engan að hafa. Helst ættu bankarnir allir að vera í hlutafélagsformi, eins og er á Norðurlöndum. Hver einn og einasti viðskiptabanki í Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi er í hlutafélagsformi. Ég held að ástandið hér væri miklu betra ef við hefðum ekki þetta ríkisbákn og raunar ýmis fleiri ríkisbákn sem mætti höggva bæði ofan og neðan af.