27.10.1977
Sameinað þing: 10. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 286 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

17. mál, efling útflutningsstarfsemi

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Það hagaði þannig til í fyrra, þegar rætt var um þessa till. sem endurflutt er nú á þskj. 17, að ég gat vegna anna ekki verið viðstaddur umr. og átti þess vegna ekki kost á því að lýsa viðhorfum til hennar. Ég vil þess vegna leyfa mér að fara um till. örfáum orðum nú, þó að þau verði ekki mörg og allra síst til þess að mótmæla neinu, sem í till. eða grg. segir, eða til þess að leggja nokkurn stein í götu þess að hún fái meðferð þingsins og samþykki.

Þessi till. er, eins og hv. fyrri flm. tók fram, þríþætt og allir liðir hennar fjalla um samræmingu og eflingu útflutningsstarfseminnar hér á landi. Um 1. liðinn skal ég vera fáorður. Það er vissulega alveg rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að megingallar þess kerfis, sem við búum við, eru auðvitað þeir, að ekki er nægilegt samstarf milli þeirra aðila sem fást við útflutning og eru margir hverjir mjög öflugir. Ég hygg það væri mjög til bóta og lýsi áhuga á því, að a.m.k. sé kannað og helst framkvæmt að koma við auknu samstarfi í þessum efnum. Mér er hins vegar ljóst, að hér er drepið á nokkuð erfitt úrlausnarefni, og ætla ég ekki að leiða nein sérstök rök að því. Ég tel að þess þurfi ekki. Ég hygg að menn viti nokkuð hvað við er átt í því efni. Ég er sammála því, sem hér er gert að markmiði, að slík efling fari fram með auknu samstarfi. Ég hef ekki trú á því, að það verði til framdráttar íslenskri markaðsöflun og útflutningsframleiðslu að ríkið taki að sér að fjalla um þau mál, eins og þó tíðkast annars staðar, eða hafi algera forgöngu í því efni. Ég hygg að það sé rétt stefna sem fylgt hefur verið nokkuð lengi, að sölusamtök útflutningsgreinanna sjálf hafi þessa starfsemi með höndum, en auðvitað með öllum þeim stuðningi, sem ríkisvaldið getur veitt, og öllum þeim atbeina, sem þá kannske einkum utanrrn. og viðskrn. geta í té látið.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um 1. lið till. Ég tel að hreyft sé mikilsverðu máli þar, og það mundi verða mér mikið fagnaðarefni ef Alþ. tækist að finna því grundvöll að auka þetta samstarf sem hér hefur verið gert að umtalsefni.

Um 2. tölul. skal ég einnig vera fáorður. Hann fjallar um það að marka enn frekar stefnu í skatta- og tollamálum, svo og annarri opinberri fyrirgreiðslu, sem auðveldar íslenskum útflytjendum samkeppni á erlendum mörkuðum. Hér er við nokkuð ramman reip að draga að því er snertir tollamálin a.m.k., þar sem samningar okkar annars vegar við erlend ríki og ríkjaheildir og hins vegar aðild okkar að slíkum samtökum, sbr. Fríverslunarbandalag Evrópu, leggja okkur þær kvaðir á herðar að lækka eða fella alveg niður aðflutningsgjöld af vörum frá þessum aðilum. Nú stendur til samkv. samningi að framkvæma síðasta áfanga tollalækkunar gagnvart innfluttum vörum frá EFTA, og samkv. samningnum ber að gera það nú um áramót. Það hafa komið fram allháværar raddir um að þetta yrði mikil blóðtaka fyrir íslenskan iðnað, heimaiðnað. Till. fjallar auðvitað ekki um þetta, en hún snertir þetta mál mjög mikið. Að vísu fáum við í staðinn fyrir tollalækkun hér sams konar niðurfellingu í fríverslunarbandalagslöndunum. En þá er spurningin, sem hér er raunar vikið að, með hverjum hætti mætti gera íslenskum útflutningsiðnaði kleift eða kleifara en nú er að standast þá samkeppni sem við er að fást á erlendum mörkuðum.

Hér hefur verið gerður að umtalsefni uppsafnaður söluskattur þessa iðnaðar, og ég vil segja það, að ég er því algerlega sammála að óeðlilegt er að innheimta hann og rýra þannig samkeppnisaðstöðuna. Ég vona að lausn finnist á því máli nú mjög fljótlega, þannig að sá söluskattur verði endurgreiddur. Að vísu er þar ekki um verulega háar fjárhæðir að ræða, en er þó eitt skref í þá átt sem þessi till. stefnir að. Enn fremur hygg ég að nú verði innan tíðar gerð alvara úr því að reyna að taka hér upp virðisaukaskattinn, og ætti þá að sumu leyti a.m.k. að greiðast úr fyrir útflutningsiðnaði okkar að þessu leyti. Mér er ljóst, að lengi hefur staðið til að taka upp virðisaukaskatt. Það er nokkurt hik á mönnum við að stiga það skref, en ég held þó að menn komist ekki miklu lengra í athugun þess, og ég a.m.k. fyrir mitt leyti er þeirrar skoðunar að skrefið beri að stíga og freista þess að hafa hér sama hátt á og tíðkast í næstu nágrannalöndum okkar.

Að síðustu langar mig svo til að fara örfáum orðum um 3. lið till., sem fjallar um það að kanna hvort rétt sé og hagkvæmt að samræma eða sameina störf utanrrn. og viðskrn. á sviði útflutningsstarfsemi og efla störf utanríkisþjónustunnar í markaðsmálum. Ég vil geta þess hér í fyrsta lagi, að undanfarin ár hef ég nokkuð beitt mér fyrir því að láta fara fram athugun á starfsemi og endurskipulagningu utanríkisþjónustunnar, enda hefur það verið eitt af stefnuskráratriðum þeirra ríkisstjórna sem ég hef starfað í. Veigamikill þáttur í því sambandi er einmitt á hvern hátt megi efla starfsemi utanríkisþjónustunnar í þágu útflutningsatvinnuveganna. Talsverðra gagna hefur verið aflað á þessu sviði og úr þeim unnið af utanrrn., að nokkru í samvinnu við utanrmn. Sumu af því, sem þessi athugun hefur beinst að, hefur verið komið í framkvæmd, en annað er enn þá á athugunar og framkvæmdastigi. Vissulega er hér mikið verk óunnið og róðurinn hefur sóst seint, það skal ég fyrstur manna viðurkenna. Í sambandi við till. vil ég þó enn fremur geta þess, að í reglugerð um Stjórnarráð Íslands, sem gefin var út í árslok 1969 á grundvelli laga um Stjórnarráð Íslands, er ákveðið að viðskrn. fari m.a. með þessi mál, verslun og viðskipti, þ. á m. útflutningsverslun og innflutningsverslun, undirbúning og framkvæmd viðskiptasamninga og vörusýningar erlendis. Reglugerðin staðfestir m.ö.o. það fyrirkomulag sem komið hafði verið á einum og hálfum áratug áður, að yfirstjórn utanríkisviðskipta hefur verið flutt frá utanrrn. til viðskrn. að öðru leyti en því, að utanrrn. fer áfram með samningsgerð við önnur ríki um utanríkisviðskipti sem önnur utanríkismál.

Það er svo annað mál, að af hálfu embættismanna utanrrn. hefur verið bent á að æskilegt væri að flytja utanríkisviðskipti aftur til utanrrn., t.d. með því að sameina þessi tvö rn. að því er varðar meðferð eða stjórn utanríkisviðskipta og skipti við alþjóðleg viðskipta- og efnahagssamtök. Og ég tel ekki óeðlilegt að að þessu máli verði unnið. Þetta var svo hér áður. Þessu var breytt af ástæðum sem ég hirði ekki að greina frá. Breytingin var staðfest með þeirri reglugerð sem ég drap á, en þar með er því ekki endilega slegið föstu, að hér sé um þá einu réttu leið að ræða. En ég vil taka það skýrt fram, að samstarf utanríkisþjónustunnar og viðskrn. hefur a.m.k. alla mína tíð í þessum efnum verið hið ágætasta.

En hvað sem liður fyrirkomulagi á yfirstjórn utanríkisvíðskiptamála innan Stjórnarráðsins er það staðreynd, að það er mikilvægur þáttur í starfi sendiráða okkar í öðrum löndum að greiða fyrir útflutningi íslenskra afurða svo sem öðrum utanríkisviðskiptamálum, og hefur utanríkisþjónustan unnið og vinnur mikið starf á þessu sviði, sem ég hygg að metið sé af þeim sem gerst þekkja til þessara mála. Sendiráðin inna af hendi margvíslega þjónustu fyrir íslenskan útflutning, svara fsp. um viðskiptamál, gefa upplýsingar um íslenska útflytjendur, aðstoða við vörusýningar og þar fram eftir götunum. Af hálfu utanrrn. hefur undanfarin ár verið unnið að því að auka þekkingu og kynni starfsmanna utanríkisþjónustunnar á útflutningsmálum Íslands og starfsemi viðskrn. M.a. hefur rn. tekið upp þá reglu að nýir starfsmenn vinni um tíma í viðskrn, til þess að kynnast því sem þar fer fram.

Til þess að störf utanrrn. og viðskrn. á sviði útflutningsstarfsemi og efling á starfi utanríkisþjónustunnar í þessum málum yfirleitt geti borið sem bestan árangur er æskilegt og reyndar nauðsynlegt að sem víðtækast samstarf sé hér heima milli hlutaðeigandi rn. annars vegar og fyrirtækja eða samtaka útflytjenda hins vegar. Það er ljóst að mismikil þörf er hjá hinum ýmsu útflutningsgreinum fyrir aðstoð utanríkisþjónustunnar á sviði markaðsleitar. Hjá stóru sölusamtökunum í fiskiðnaði hefur komið berlega fram, að þörfin á aðstoð utanríkisþjónustunnar t.d. við beina markaðsleit er lítil. Þessir aðilar hafa komið sér upp umfangsmiklu sölukerfi í mörgum löndum þar sem sendiráð Íslands eru. Þó er það svo, að jafnvel þessir aðilar sumir hafa á stundum þurft að leita aðstoðar hjá utanrrn. og að sjálfsögðu fengið hana. Það hefur mjög oft komið fyrir. Ég nefni bara eitt dæmi: Til þess að greiða fyrir saltfiskssölu, skulum við segja, til Portúgals og Spánar hefur sendiherra Íslands í þeim löndum farið þangað og ég fullyrði að honum hafi oft orðið ágengt í því að greiða fyrir þeim sölusamningum sem nokkur tregða hefur verið á að koma í gegn. Nú er einmitt slík tregða í Portúgal og sendiherra Íslands þar er nýbúinn að fara þangað, en því miður get ég ekki fullyrt neitt um árangur ferðar hans að svo stöddu. Þetta sýnir að jafnvel með því skipulagi sem nú er á þessum málum, hefur utanríkisþjónustan hlutverki að gegna, — hlutverki sem hún hefur reynt að inna af hendi eftir bestu getu. Aðstoð utanríkisþjónustunnar við sölusamtökin kemur einnig fram í margvíslegri fyrirgreiðslu í þeim ríkjum þar sem frelsi ríkir ekki í viðskiptum og þörf er opinberra afskipta. Á hinn bóginn hafa útflytjendur iðnaðarvara leitað í ríkum mæli til utanríkisþjónustunnar um aðstoð varðandi markaðsleit og kynningu á iðnaðarvarningi, og sama má segja um landbúnaðinn.

Það sakar ekki að geta þess í þessu sambandi enn fremur, að utanrrn. hefur á mörgum undanförnum árum óskað ríflegrar fjárveitingar til þess að efla starfsemi utanríkisþjónustunnar í þágu markaðsmála, en býsna erfiðlega hefur gengið að fá slíkar till. samþykktar. Í fjárl. yfirstandandi árs er til þessara hluta varið 11/2 millj. kr. og geta allir hv. þm. gert sér í hugarlund hversu mikið er hægt að vinna að þessum málum fyrir þá fjárhæð. Nú hefur fjmrn„ eða ríkisstj. kannske öllu heldur, lagt til í fjárlagafrv. næsta árs að þessi fjárveiting verði hækkuð í 6 millj. kr. Ef sú fjárveiting fær byr hjá hv. Alþ. má gera sér vonir um að eitthvað raunhæft verði hægt að gera til frekari markaðsöflunar, frekar en unnt hefur verið til þessa. Ég er ekki að svo stöddu tilbúin að greina frá því í neinum smáatriðum hvernig þessi fjárveiting yrði notuð ef til kæmi, en vel má hugsa sér að hún yrði notuð í því skyni að setja t.a.m. upp embætti verslunarfulltrúa við eitthvert sendiráða okkar í Vestur-Evrópu. Það virðist vera þannig, að viðskiptin við Bandaríkin séu í nokkuð föstu formi og a.m.k. þeir aðilar, sem selja frystan fisk, hafi komið sér upp öflugu sölukerfi og þurfi á lítilli aðstoð að halda. Aftur á móti er þessu ekki alveg á sama hátt farið í Vestur-Evrópu, eins og við vitum. Þar mundi slíkur maður, ef vel tekst til um val hans og annað sem til greina kemur, geta komið að verulegu liði. Ég vona að þessi fjárveiting, þessi tilraun, fái góðar undirtektir hv. alþm. þegar að afgreiðslu fjárl. fyrir næsta ár kemur.

Ég ætla mér ekki, herra forseti, að hafa þessi orð miklu fleiri. En eins og ég vona að marka megi af því, sem ég hef þegar sagt, er ég mjög fylgjandi því að málefni þau, sem þessi þáltill. fjallar um, fái rækilega athugun. Og ég mun vissulega fagna því ef unnt verður að efla starfsemi utanríkisþjónustunnar á sviði utanríkisviðskipta til muna frá því sem nú er. Ég vildi aðeins láta þessar fáu aths. koma fram við 1. umr., um leið og ég endurtek að ég tel þetta merka till. og vænti þess að hún fái greiðan gang í gegnum hv. Alþingi.