29.03.1978
Sameinað þing: 59. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2933 í B-deild Alþingistíðinda. (2171)

96. mál, launakjör og fríðindi embættismanna

Flm. (Stefán Jónsson):

Herra forseti. Við hv. þm. Jónas Árnason leyfum okkur að flytja á þskj. 112 till. til þál., svo látandi:

„Alþingi ályktar að beina því til ríkisstj., að sett verði almenn reglugerð varðandi kjör hinna hæst launuðu embættismanna ríkisins og þeirra stofnana sem ríkið á meiri hluta í, þar sem kveðið verði á um að allar greiðslur til embættismanna fyrir störf í þágu fyrirtækjanna komi fram í launum þeirra, en afnumin verði önnur fríðindi, þ. á m. fríðindi er lúta að innflutningi bifreiða og rekstri þeirra. Kveðið verði á um að kostnaður embættismanna vegna starfs skuli ætíð greiddur samkv. reikningi. Skipan þessi nái einnig til ráðherra.“

Fyrr á þessu þingi bar ég fram fsp. varðandi aukagreiðslur til ýmissa háttsettra embættismanna hjá stofnunum lýðveldisins, bílastyrki bankastjóra og ráðh. og rauntekjur ráðuneytisstjóra og forstjóra ýmissa ríkisstofnana. Svör hæstv. ráðh. við fsp. þessum bárust hvorki greiðlega né heldur voru þau ýkja ljós. Þar hygg ég að sjálfum hæstv. ráðh. hafi ekki verið um að kenna, heldur hinu, að þessi atriði í launakjörum hinna háttsettu embættismanna og þeirra, sem hæst taka launin, eru í eðli sínu mjög óljós og er e. t. v. ætlað að vera það. Þó kom þetta fram af svörunum: Ráðh. fá eftirgefin aðflutningsgjöld af bifreiðum lögum samkv. og fá þeir greiddan rekstrarkostnað þessara bíla. Bankastjórar hafa tekið sér sams konar bílafríðindi og ráðh. Það er ekki lögum samkvæmt. Forstjórar Framkvæmdastofnunar ríkisins, sem ráðnir eru með bankastjórakjörum, hafa einnig tekið sér þessi bílafríðindi. Það er ekki heldur lögum samkvæmt. Bankastjórar og „kommissarar“ virðast ekki telja þessi fríðindi sín fram til tekna. Ráðuneytisstjórar og forstjórar ýmissa ríkisstofnana virðast njóta allmjög misjafnra launa án þess að ljóst sé, hvernig störf þeirra eru metin. Þeir njóta einnig ákaflega misjafnra fríðinda í mynd aukagreiðslna fyrir ýmiss konar störf sem þeir vinna í þágu embættis síns. Í öllum tilfellum er þó um verulegar aukagreiðslur að ræða, sumum svo að meta má til hálfgildings launa.

Við eftirgrennslan kemur í ljós, að ekki finnast neinar grundvallarreglur sem farið sé eftir við launaákvarðanir embættismanna þessara, og í sumum tilfellum, svo sem að framan greinir, er seilst út fyrir ramma laga þeim ti1 launabóta. Við athugun á óskepi þessu, sem ég leyfi mér að nefna launagreiðslukerfið til hinna æðstu embættismanna, kemur í ljós, að það er hvorki tekið tillit til þeirra grundvallarsjónarmiða sem ráða þegar fjallað er um launakjör alþýðu manna í þessu landi — þ. e. a. s. greiðslugetu launagreiðandans sem annars er býsna oft vitnað til — né heldur til framfærsluþarfar launþega.

Eins og málin liggja nú fyrir, er ógerlegt að kveða á um það, hver hæfileg geti talist laun til hinna einstöku embættismanna sem hér um ræðir. Hitt er ljóst, að það er óhæfa að launakjör þeirra skuli vera meira og minna dulin fyrir hinum raunverulegu launagreiðendum, sem eru náttúrlega íslenskir þegnar yfirleitt. Launagreiðendur embættismanna þessara eiga síðar undir högg að sækja hjá þessum sömu embættismönnum, er þeir semja um sín eigin kjör, og við ber, að þeir fá ekki beinlínis líflegar kveðjur frá þessum sömu aðilum, sem m. a. fella úrskurð um það í skjóli ríkisstj., hvenær skerða þurfi kaupgreiðslur til landsmanna. Hér er óþarft að fara út í langar útskýringar á mismuninum sem í því felst, þegar einföld þurftarlaun eru skert um t. d. 10%, og því, að margföld þurftarlaun eru skert um sömu hundraðstölu, hversu misþungur baggi verður af slíkum ráðstöfunum fyrir einstaklingana.

Varðandi afstöðu mína sérstaklega til launamismunar á landi hér vil ég aðeins vísa til þáltill. sem ég mælti með nú á þorranum í vetur og flyt ásamt öðrum þm. Alþb. um nauðsyn þess, að sett verði lög um hámarkslaun og kveðið á um það þar, að ekki megi greiða hærri laun en sem nemur tvöföldum launum verkamanns. Yrði launahækkun til hinna lægst launuðu samkv. þeirri þáltill. þá ætíð forsenda þess, að laun hinna, sem betur eru settir, yrðu hækkuð. Í framsöguræðu minni með hinni fyrri till. sýndi ég fram á, að ef úr yrði að sá háttur yrði upp tekinn, sem þar er ráðgerður, mundi afleiðingin ekki verða eingöngu lækkun hinna hæstu launa, heldur tilfærsla þar sem laun verkamanna yrðu færð upp að því marki sem þyrfti til þess, að helmingur næðist á við hæstu launin, en hærri launin þá lækkuð að því marki sem nauðsyn krefði og fjárhagur til móts við þetta.

Í sömu þáltill. var kveðið á um að óheimilt yrði að taka föst laun nema fyrir eitt starf og afnumin skyldu hvers konar fríðindi sem margir þeirra, sem hæst taka launin, njóta nú. Að þessu leyti má til sanns vegar færa, að þessar tvær þáltill., sú sem hér greinir og sú sem ég nú mæli fram með, skarist nokkuð.

Því víkur nú enn að hinni fyrri till. og umr., sem um hana urðu, sem vissulega snerta þetta þingmál, að þær umr. hnigu að tilhneigingu sumra hv. alþm. til að láta sér ekki nægja þingfararkaupið, heldur taka föst laun annars staðar, enda þótt þingmennskan eigi að teljast fullt starf ef sæmilega er rækt, nema þá náttúrlega fyrir margra manna maka. Þó hefði ég ekki sveigt mál mitt að launakjörum þm. sérstaklega í því sambandi hefði ekki svo borið við sem ég vil nú enn rifja upp, að nýlega hafði birst ritstjórnargrein í Alþýðublaðinu, að dómi sérfróðra manna rituð af Benedikt Gröndal, hv. þm., sem hann þó sór af sér við þær umr., þar sem sveigt var sérstaklega að okkur tveimur þm. Alþb., hv. þm. Helga Seljan og mér, og okkur borinn á brýn yfirdrepsskapur með þessum tillöguflutningi, samtímis því sem við greiddum því atkv. í leyninefnd á Alþ. að laun þm. hækkuðu meira en flestra annarra landsmanna. Þáltill. sú, sem við fjöllum um í dag, lýtur að sjálfsögðu að stöðu þm. og launum þeirra svo sem annarra landsmanna. Við umr. í vetur leyfði ég mér að vekja athygli á því, að hv. þm. Benedikt Gröndal tæki auk þingfararkaupsins, sem hann teldi of hátt, 2/3 hluta af kaupi forstöðumanns Fræðslumyndasafns ríkisins og formaður þingflokks Alþfl. tæki auk þingfararkaupsins, er blað hans teldi of hátt, 2/3 hluta af prófessorslaunum við Háskóla Íslands. Til þess að ljúka þessari upprifjun á umr. um þáltill. um hámarkslaunin í vetur má síðan geta þess, að hv. þm. Eggert G. Þorsteinsson lýsti yfir því við umr., að hann hefði um langt skeið setið af hálfu Alþfl. í þingfararkaupsnefnd, sem vissulega hefði ekki verið nein leyninefnd því að hann hefði ávallt gert þingflokki Alþfl. grein fyrir störfum hennar og af hálfu þess flokks aldrei verið gerð nein aths. við niðurstöðurnar af störfum þeirrar n., ekki heldur á þessum vetri.

En því er nú þessi upprifjun nauðsynleg á fyrri umr. og eins óhjákvæmilegt að víkja að stöðu alþm. í máli því, sem hér er nú til umr., að ýmsir úr hópi hv. alþm. taka föst laun á fleiri en einum stað. Slíkt á ekki við um þá hv. þm. Benedikt Gröndal og Gylfa Þ. Gíslason eina. Tveir hv. alþm. taka t. d. 2/3 hluta hankastjóralauna ásamt samsvarandi fríðindum bankastjóra, þ. e. a. s. „kommissararnir“ tveir, hv. þm. Sverrir Hermannsson og Tómas Árnason, ofan á þingfararkaup sitt. Nú fer því víðs fjarri, að ég vilji einu sinni gefa það í skyn, hvað þá heldur meir, að þá félaga skorti til þess hurðina að rækja með prýði hvort tveggja, þingmannsstörfin og forstjórastörfin í Framkvæmdastofnuninni. Hitt kemur meira þá til álita, hvort þeir þurfa þeim mun meiri laun sér til framfærslu en aðrir þm. sem þeir taka þeim fram að þreki og dugnaði, þ. e. a. s. rösklega 10 millj. kr. árslaun á móti 4 millj. kr. sem mér telst til að einföld þingmannslaun muni nú ná. E. t. v. má til sanns vegar færa, að þeir, sem leggja mikið af mörkum af starfsþreki sínu og umhyggju, séu líklegir til að endast skemur við störf, þeir eyða lífsfjöri sínu þá skjótar í þágu fólksins. Í þessu tilfelli mætti sem sagt reikna með því, að þessir tveir hv. þm. eyði 3.5 árum ævi sinnar í þágu lands og lýðs meðan almennur alþm. eyðir einu ári. Sé svo, þá vildi ég gjarnan að þessi bikar yrði fremur frá þeim tekinn og heldur ráðnir sérstakir menn í störfin hjá Framkvæmdastofnun, ef hægt væri að fá slíka fyrir 6.5 millj. í árslaun, ef með þyrfti yrði náttúrlega að bregða á það ráð að láta þá hafa óskert bankastjóralaun, sem yrðu þá í kringum 10 millj., en við reyndum aftur á móti að treina okkur starfskrafta þessara hv. þm. lengur til fleiri og magrari ára.

Fyrirkomulag á launakjörum embættismanna okkar og annarra þeirra, sem með hin ábyrgðarmeiri störf fara, er algerlega óviðunandi. Annað nær engri átt en að þeim verði ákvörðuð föst laun við hæfi starfsins sem þeim er ætlað að inna af höndum. Þau laun á að greiða í einu lagi með beinum greiðslum. Kostnað, sem starfi fylgir, á síðan að greiða samkv. reikningi. Það er ekki gott, að hluti af launagreiðslum til þeirra embættismanna ríkisins, sem hafa m. a. afskipti af kjaramálum alþýðu á landi hér, sé dulinn í einhvers konar aukasporslum, hvort heldur það heita greiðslur fyrir óunna yfirvinnu, fundasetu, nefndarstörf, bílastyrkir eða eitthvað annað.

Herra forseti. Ég vil svo óska þess, að að umr. lokinni verði þáltill. vísað til allshn.