30.03.1978
Efri deild: 72. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2943 í B-deild Alþingistíðinda. (2179)

233. mál, vátryggingarstarfsemi

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Lög um vátryggingarstarfsemi, sem samþykkt voru á Alþ. 9. apríl 1973 og tóku gildi 1. jan. 1974, voru algert nýmæli hér á landi. Frv. var upphaflega samið af þeim Benedikt Sigurjónssyni hæstaréttardómara og tryggingastærðfræðingunum Bjarna Þórðarsyni og Jóni Erlingi Þorlákssyni, en þeir voru skipaðir í nefnd til þess 25. mars 1970 og luku störfum 9. ágúst 1971. Frumvarpsdrög nefndarinnar voru síðan lögð fram á 92. löggjafarþingi í apríllok 1972, fyrst og fremst til kynningar. Höfðu þá verið gerðar á þeim nokkrar breytingar, eins og rakið er í grg. með því frv.

Þær breytingar voru umdeildar á sínum tíma. Þá var enn fremur deilt um ýmis einstök ákvæði frv., t. d. það, að trmrh. skyldi skipa einn mann í stjórn hvers vátryggingarfélags, en einkum þótti Sambandi ísl. tryggingarfélaga og einstökum forsvarsmönnum vátryggingarfélaga skammt öfganna á milli, þar sem áður hafði ríkt svo til algert eftirlitsleysi, en nú væri hins vegar safnað í einn lagabálk ströngustu kröfum sem fyndust um hvert einstakt atriði í löggjöf nágrannaþjóðanna.

Eins og til stóð var frv. síðan endurflutt á haustþinginu 1972 með nokkrum breytingum til samræmis við ábendingar umsagnaraðila. Þannig var t. d. breytt ákvæðinu um ráðherraskipan stjórnanna. Þess í stað skyldi einn stjórnarmanna valinn af aðalfundi til að gæta hagsmuna hinna tryggðu og vátryggingartaka og skyldi valið háð samþykki ráðh.

Í meðförum Nd., þar sem frv. var lagt fram, voru gerðar á því nokkrar breytingar þess eðlis, að um frv. myndaðist víðtæk samstaða í báðum deildum, enda voru allir, sem málið snerti, utan þings og innan, sammála um nauðsyn slíkrar löggjafar.

Ég hygg að flestum hafi verið ljóst þá, að alla reynslu vantaði á framkvæmd slíkra laga við hinar sérstæðu íslensku aðstæður. Á ég þar fyrst og fremst við hinn þrönga og smáa markað 200 þús. manna samfélags og þau hlutfallslega mörgu vátryggingarfélög, innlend og erlend, sem um þennan markað kepptu. Menn sáu því fram á það, að stutt hlyti að verða í till. um breytingar á lögunum, enda fór það svo.

Frv. það, sem hér er flutt, er þannig að stofni til byggt á ýmsum till. og ábendingum sem borist hafa um breytingar. Víða þurfti að breyta orðalagi eða efni og kaflinn um vátryggingarfélög, sem starfandi voru þegar lög nr. 26 frá 1973 tóku gildi, var orðinn óþarfur og úreltur, eins og fyrir fram var vitað að hann yrði þegar föst skipan væri komið á starfsemi félaganna. Af þessum sökum var sá kostur valinn að flytja frv. til nýrra laga.

Veigamestu till. bárust rn. á útmánuðum 1977 frá Tryggingaeftirlitinu sjálfu. Eins og við mátti búast hefur Tryggingaeftirlitið að fenginni reynslu af framkvæmd laganna ýmislegt til málanna að leggja. Þá hefur rn. áður borist till. frá nefnd, sem starfaði að endurskoðun á lögum þessum á vegum Sambands ísl. tryggingafélaga. Og loks hafði rn. bæði að eigin frumkvæði og eftir annarra ábendingu hugmyndir um tímabærar lagfæringar á lögunum um vátryggingarstarfsemi.

Það reyndist tímafrekt að vinna þessar till. út frá þessum sjónarmiðum, enda féllu þau æðioft ekki saman og gera kannske að ýmsu leyti ekki enn þá. Ég þykist þó mega fullyrða að ekki sé um veigamikinn ágreining að ræða milli þeirra aðila sem um frv. hafa fjallað og tjáð sig um það á einhverju stigi.

Helstu breytingar frá gildandi lögum sem í frv. þessu felast, eru þessar:

1. Krafa um lágmarkshlutafé félags, sem sækir um leyfi til vátryggingarstarfsemi, er hækkuð úr 20 millj. í 50 millj. kr., og ekki er gerður greinarmunur á líftryggingarhlutafélagi og öðrum. Til líftryggingarfélaga voru áður gerðar lægri kröfur, eða um 10 millj. kr. lágmark.

2. Á svipaðan hátt eru kröfur um stofnfé gagnkvæms vátryggingarfélags, sem starfsleyfis óskar hækkaðar úr 5 og 10 millj. kr. í 35 millj. kr.

Um félög, sem starfsleyfi hafa eftir gildandi lögum, fer að sjálfsögðu eftir þeim kröfum sem þeim var gert að uppfylla er þau fengu starfsleyfi.

3. Í gildandi lögum er m. a. það skilyrði sett fyrir starfsleyfi erlends vátryggingarfélags, að það sanni að eignir þess hér á landi nemi eigi minna fé en 10 millj. kr. Í frv. þessu er lagt til að lágmarkið verði hækkað í 25 millj. kr.

4. Þá eru sett ný og ítarleg ákvæði um ávöxtun eigin tryggingarsjóðs erlends vátryggingarfélags sem starfar hér á landi á sviði skaða- og endurtrygginga. Eru þessar reglur hliðstæðar þeim sem eru í gildandi lögum um íslensk vátryggingarfélög.

5. Í nýrri grein er gerð krafa um skýrleika í nafni tryggingarfélaga og að umboðs- og sölumenn beri jafnan skilríki frá félaginu er sanni störf á vegum þess.

6. Veigamikil breyting er fólgin í þeirri till. rn. að fella niður núv. 38. gr. gildandi laga um tímabundna skipun til fjögurra ára í senn í Tryggingaeftirlitið. Kostnaður við þessa stjórn eftirlitsins nam nálægt 2 millj. kr. s. l. ár, sem nú sparast ef þetta frv. verður að lögum óbreytt.

Afleiðing af þessu yrði sú, að stofnunin starfaði áfram undir daglegri stjórn framkvæmdastjóra sem ráðh. skipaði, eins og gildir um flestar aðrar ríkisstofnanir og nánar er rakið í aths. við 38. gr.

7. Í gildandi lögum er ákvæði sem sætti mikilli gagnrýni tryggingamanna á sínum tíma. Það hljóðar svo:

„Telji Tryggingaeftirlitið ekki, að þörf sé fyrir þá starfsemi, sem félagið hyggst reka, né að starfsemi þess sé til eflingar heilbrigðri þróun um vátryggingarstarfsemi í landinu eða til hagsbóta fyrir vátryggingartaka og vátryggða, getur trmrh. neitað að skrá félagið í vátryggingarfélagaskrá og veita því starfsleyfi.“

Í ljósi þeirrar reynslu, sem á lögin og framkvæmd þeirra er komin telur rn. ekki lengur þörf á slíku ákvæði og leggur því til að það falli burtu.

8. Þá leiðir það af eðli málsins, að burtu falla öll þau ákvæði gildandi laga, sem fjölluðu um hvernig með skyldi fara vátryggingarfélög, sem störfuðu við gildistöku núgildandi laga, þ. e. a. s. um starfsleyfisumsóknir, skilafresti umsókna og gagna, viðurlög og um afgreiðslu starfsleyfa ásamt fleiru. Þessi félög hafa nú ýmist fengið fullgild starfsleyfi, hætt störfum eða verið afhent skilastjórnum, en um þær eru ákvæði áfram í till. Af þeim sökum eru nefnd ákvæði óþörf og úrelt, eins og ég rakti hér áður.

9. Síðasta veigamikla breytingin er sú, að skipuð verði þriggja manna nefnd til að fjalla um ágreining, sem risa kann milli Tryggingaeftirlitsins og vátryggingarfélags um framkvæmd laganna. Þessi nefnd yrði umsagnar-, en ekki úrskurðaraðili.

Ég hef þá í stuttu máli greint frá helstu breytingum sem felast í þessu frv. Um einstakar greinar frv. sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða frekar, en leyfi mér að vísa til aths. um þær sem fylgja frv.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. hellbr.- og trn.