30.03.1978
Neðri deild: 68. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2979 í B-deild Alþingistíðinda. (2199)

Umræður utan dagskrár

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Hér hafa þegar orðið miklar umr. um málefni Rafmagnsveitna ríkisins, og ég get lýst því strax, að það er mín skoðun að oft hafi verið vaktar umr. utan dagskrár hér á hv. Alþ. af minna tilefni en nú.

Þegar meiri hl. stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins sagði af sér störfum var ég staddur heima hjá mér úti á landi og því ekki viðstaddur þær ákvarðanir sem þeir stjórnarmenn tóku þá. Ég tók þó strax þá ákvörðun, eftir að ég hafði heyrt um þessa viðburði, að segja ekki af mér störfum í stjórn RARIK að svo komnu máli. Ég taldi rétt að vinna að því áfram ásamt rafmagnsveitustjóra ríkisins að knýja á það að fá fram lausn á fjárhagsvanda RARIK hjá ríkisstj. í trausti þess, að ákvörðun um hana yrði tekin á allra næstu dögum.

Vandamál RARIK, sem lýst hefur verið hér í dag, hafa legið fyrir hjá ríkisstj. í langan tíma og lausn þeirra dregist til verulegs tjóns fyrir stofnunina og viðskiptaaðila hennar. Ég tel að ekki sé efamál, að þetta ástand hafi verið meginorsök þess, að félagar mínir í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins kusu að segja af sér, þó að í grg. þeirra hafi áhersla verið lögð á eitt atriði er snertir framkvæmdir, þ. e. byggingu Vesturlínu.

Eins og fram kom hjá hæstv. forsrh. áðan hafa á ríkisstjórnarfundi í morgun verið teknar ákvarðanir er miða að lausn þessa vanda að verulegum hluta, þótt endanleg lausn liggi ekki enn fyrir. Eftir er að taka ákvörðun um hvernig mæta skuli þeim þætti málsins sem till. voru uppi um að leysa með hækkun verðjöfnunargjalds eða sem svarar 235 millj. kr. Ég treysti því, að teknar verði ákvarðanir um að leysa þennan þátt málsins einnig áður en margir dagar líða eða þegar upp úr næstu helgi. Þegar þær ákvarðanir lægju fyrir ásamt því að greiðsluáætlun fyrirtækisins hefði verið lagfærð í samræmi við það, sem skuldbindingar og framkvæmdir krefjast á þessu ári, má segja að þan vandamál hafi verið leyst að fullu er snerta rekstur og framkvæmdir á vegum þessa fyrirtækis á þessu ári. Þrátt fyrir það eru auðvitað mörg fleiri efni er snerta framkvæmdir sem æskilegt hefði verið að geta ráðist í og æskilegt hefði verið að geta komist lengra áfram með á árinu. En stjórn stofnunarinnar og iðnrn. svo og sú n., sem ríkisstj. skipaði til þess að gera till. um lausn þessa vanda, höfðu takmarkað sig við þá fjárhæð sem hér hefur verið rætt um, eða 1196 millj. kr. Ég vænti þess fastlega og ítreka það, að slík heildarlausn liggi fyrir áður en margir dagar líða. Og með tilliti til þeirra vona minna, að sú yrði raunin, tók ég ákvörðun að segja ekki af mér í stjórn þessa fyrirtækis.

Þrátt fyrir það að slík lausn væri fengin er það vitað mál, að vandamál Rafmagnsveitna ríkisins eru ekki leyst til frambúðar. Þessi vandamál hafa verið skýrð hér ítarlega í dag, ekki síst af hæstv. iðnrh., og tel ég ekki ástæðu til að fara um þau fleiri orðum að öðru leyti en að ítreka það, að þau eru einkum í því fólgin að framkvæmdir, sem Rafmagnsveitur ríkisins hafa tekið að sér eða þurft að vinna til þess að halda uppi eðlilegri þjónustu við íbúa í landinu, hafa verið fjármagnaðar með lánsfé, oft og tíðum óhagstæðu lánsfé og erlendum lánum, og fjármagnskostnaðurinn af þessum lánum er orðinn það mikill að hann verður ekki borinn uppí einvörðungu af rekstri stofnunarinnar.

Þessi atriði voru skýrð, eins og ég sagði, ítarlega af hæstv. iðnrh. og ég skal ekki lengja það. Ég tel að til þess að leysa fjárhagsvandræði Rafmagnsveitna ríkisins til frambúðar sé nauðsynlegt að byrja á því að létta af þessari stofnun hluta af þeim fjármagnskostnaði sem á henni hvílir. Hvort þetta er gert eins og hæstv. forsrh. drap á að kæmi til athugunar, að það væri hvað snertir byggðalínur, eða á annan hátt, skal ég ekki um deila. En það virðist ljóst, að þessi fjármagnskostnaður er svo þungur baggi á stofnuninni, að hann verður ekki borinn uppi af orkusölu og til frambúðar verður því ekki um lausn á fjárhagsvanda þessarar stofnunar að ræða nema slíkt gerist.

Enn fremur tel ég koma mjög til athugunar að breyta um stefnu í sambandi við fjárfestingar á vegum fyrirtækisins í þá átt, að greina á milli þess, sem kalla má fjárfestingu til félagslegra þarfa, og annarrar fjárfestingar, sem ætla má að rekstur og orkusala geti staðið undir. Þegar er hafinn undirbúningur að því innan stofnunarinnar að gera slíka sundurgreiningu á framkvæmdatillögum Rafmagnsveitna ríkisins fyrir næsta ár, og vænti ég að þeim verði skilað í því horfi, að þar komi fram útreiknuð arðsemi tiltekinna framkvæmda.

Þá þyrfti að hverfa að því að mínum dómi, eða a. m. k. væri það til fullrar athugunar, að framlög fengjust úr ríkissjóði eða á annan hátt af opinberu fé til þess að standa undir þeim þáttum framkvæmdanna, sem kallaðar væru í „félagslegu skyni“ og ekki væri unnt að meta það arðbærar að venjulegur rekstur gæti undir þeim risið. Þessi efni verða ekki leyst á þessu ári og hljóta að koma til athugunar við fjárlagatill. og afgreiðslu fjárlaga og lánsfjáráætlunar fyrir næsta ár eða næstu ár, ef sú stefna kynni að verða ofan á sem hér hefur verið vikið að að þörf væri á að taka upp.

Það er svo, að það kann að vera nokkur vandi að meta arðsemi tiltekinna framkvæmda og hvort framkvæmd sé með þeim hætti, að hún geti skilað þeim arði að venjuleg orkusala á því svæði geti borið hana uppi. Það vill nefnilega oft svo til, að það telst hyggilegt og fjárhagslega hagkvæmt að ráðast í framkvæmd enda þótt hún kosti mikla fjármuni og jafnvel þó að eðlilegur rekstur geti ekki borið þann kostnað uppi, vegna þess að sé það ekki framkvæmt þannig kostar miklu meira að leysa málin eftir öðrum leiðum. Svo er t. d. samkv. þeim útreikningum sem gerðir hafa verið um Vesturlínu, að verði hún ekki byggð á næstu 2–3 árum, þá kostar miklu meira að framleiða raforku með öðrum hætti til þess að mæta orkuþörf þess landshluta. Það er því ekki alltaf einfalt mál að meta arðsemi og hvort rekstur getur borið uppi fjármagnskostnað og meta það einvörðungu eftir því í þessu tilviki, heldur þarf á fleiri þætti að líta.

Sem dæmi um félagslegar framkvæmdir vil ég t. d. nefna nýjan streng til Vestmannaeyja, sem tekin hefur verið ákvörðun um af ríkisstj. á þessu ári eftir að fjárlög og lánfjáráætlun hefur verið afgreidd. Sá strengur er mikilvægt öryggisatriði fyrir Vestmanneyinga og allt atvinnulíf þar, en hann mun ekki skila neinum arði til Rafmagnsveitna ríkisins á næstu árum eða a. m. k. ekki fyrr en eftir 1980 samkv. útreikningum stofnunarinnar, en samt munu fjármagnsbaggarnir af þessari framkvæmd leggjast á rekstur Rafmagnsveitna ríkisins, svo fremi að ekki verði teknar upp fjárveitingar eða fjármagn útvegað eftir öðrum leiðum til að létta þeim böggum af. Þetta er dæmigerð framkvæmd um félagslega aðgerð, e. t. v. pólitíska aðgerð, til þess að tryggja öryggi íbúa í tilteknu byggðarlagi, enda þótt sú framkvæmd skili ekki arði á allra næstu árum og jafnvel engum tekjum fyrstu árin til þess að mæta þeim fjármagnskostnaði sem af henni hlýst.

Slík dæmi sem þetta varpa e. t. v. nokkuð skýru ljósi á það, hvernig á því stendur að rekstur stofnunar eins og Rafmagnsveitna ríkisins verður erfiður, og verði svo haldið fram, þá tel ég að tæplega verði undir slíkum fjármagnskostnaði risið til langframa, heldur verði að taka upp nýja stefnu og mæta þessu með því að létta böggum af og taka upp fjárveitingar í þessu skyni meira en gert hefur verið til þessa.

Ég skal ekki fara út í þessa sálma öllu meira. Ég vildi þó aðeins láta þessi orð koma hér fram um það sem ég tel að nauðsynlegt sé að huga að, svo að komist verði hjá því að þessi stofnun eigi í sífelldum fjárhagserfiðleikum. Það er svo, eins og hér hefur verið áður sagt, að fjárhagserfiðleikar í þessari stofnun eru ekki nein ný bóla. Þeir hafa verið viðloðandi í fjölda ára og stundum raunar miklu meiri en nú. Ég hef t. d. í höndum upplýsingar um það, að á árunum 1972 og 1973 var rekstrarhalli Rafmagnsveitna ríkisins samtals 294 millj. kr. og samkv. áætlun stofnunarinnar 17. jan. 1974 var gert ráð fyrir að rekstrarhalli RARIK á því ári, 1974, yrði 272 millj. kr., eða á þessum þremur árum, 1972–1974, 566 millj. kr. Þessar krónur höfðu allt annað gildi en sama fjárhæð hefur í dag, það vita allir. Það er þess vegna nokkuð kaldhæðnislegt þegar þeir, sem voru við stjórnvölinn og höfðu afskipti af málefnum Rafmagnsveitna ríkisins á þeim árum, tala um þessi mál af slíkri vandlætingu sem þeir láta henda sig nú í dag.

Á síðasta ári var, eins og fram hefur komið, halli á rekstri Rafmagnsveitna ríkisins 140 millj. kr. eða um helmingi lægri í krónutölu heldur en gert var ráð fyrir samkv. áætlun stofnunarinnar sjálfrar 1974. Hins vegar er gert ráð fyrir nokkru meiri halla á rekstri fyrirtækisins á þessu ári, og er þetta hvort tveggja einn þátturinn í þeim vandamálum sem við biðum eftir heildarlausn á í dag.

Ég vil aðeins segja það út af því sem hæstv. forsrh. sagði hér um meðaltalstölur á töxtum frá Rafmagnsveitum ríkisins annars vegar og ýmsum rafveitum hins vegar, þ. e. fyrst og fremst Rafmagnsveitu Reykjavíkur, að það er rétt, að á síðasta ári var meðaltalstaxti RARIK lægri en meðaltalstaxti Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Meðalsmásöluverð hjá RARIK var á síðasta ári 11.47 kr. á kwst., en 12.92 kr. á kwst. hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Þessu er ekki að dreifa lengur, því 1. febr. s. l. var smásölugjaldskrá RARIK hækkuð um 20%, en hækkanir hafa ekki orðið á gjaldskrá Rafmagnsveitu Reykjavíkur á sama tíma. Nú hefur ríkisstj. tekið ákvörðun um að hækka hitunartaxta RARIK um 25% til viðbótar, og eru þá allir taxtar RARIK og hafa raunar alltaf verið hærri en sambærilegir taxtar hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og flestum sveitarfélagarafveitum. Eftir þessa hækkun verða taxtar RARIK yfirleitt 85–86% hærri en hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Ég tel að þarna sé gengið eins langt og frekast er hægt að sætta sig við, og er þó ekki hægt að sætta sig við slíkt ástand að mínum dómi til langframa. Ég hef þó ekki séð mér fært að gera ágreining um þessa ráðstöfun, vegna þess að þetta var einn liðurinn í þeim tillögum sem stjórnskipuð n. gerði til lausnar á vandamálum Rafmagnsveitna ríkisins í heild og ég treysti mér ekki til annars en styðja þær till. En það er fráleitt að hugsa sér að um frekari gjaldskrárhækkanir verði að ræða umfram það sem gerist a. m. k. hjá öðrum rafveitum. Það tel ég fráleitt.

Ég sagði áðan að þessi vandamál Rafmagnsveitna ríkisins í heild hafi án efa verið höfuðorsök þess, að þrír fulltrúar í stjórn Rafmagnsveitna ríkisins sögðu sig úr stjórninni og kusu ekki að starfa að þessum málum áfram. Það hefur hins vegar verið gert mikið úr því í fjölmiðlum, sem félagar mínir gáfu vissulega nokkurt tilefni til að gert væri, að þeir hafi sagt sig úr þessari stjórn vegna þess, að hæstv. iðnrh. gaf fyrirmæli um það til rafmagnsveitustjóra ríkisins að panta efni til Vesturlínu á tilteknum degi, eftir að stjórn Rafmagnsveitna ríkisins hafði þverskallast við tilmælum rn. um slíkt. Stjórn Rafmagnsveitnanna taldi í sjálfu sér að eðlilegt væri að fresta því að panta þetta efni þangað til heildarlausn lægi fyrir í málefnum stofnunarinnar og það var gert með þeirri vissu, að í ríkisstj. væri ekki vilji fyrir því að draga til baka þessa framkvæmd og mætti þannig nota þetta sem ráð til þess að þrýsta á að lausn fengist á heildarfjárhagsvanda fyrirtækisins. Hæstv. ráðh. kaus hins vegar að gefa fyrirmæli um að þetta efni væri pantað þegar í stað, og hann hafði tvímælalaust rétt til þess.

Ég tel því að þetta atvik sé ekki efni til þess, að menn segi sig úr stjórn stofnunar eins og hér um ræðir, og hafi verið gert miklu meira úr þessu efni í fjölmiðlum heldur en nokkur rök liggja fyrir um.

Ég skal aðeins skýra þessa skoðun mína með því að segja að það hefur oft gerst og það í ýmsum stofnunum ríkisins, að fjármagn, sem ætlað er til ákveðins verkefnis samkv. fjárlögum, er fært til annarra verka á vegum sömu stofnunar, venjulega sem lán til eins árs. Forsendur fyrir því, að þetta sé mögulegt, eru einkum þær, að sá ráðh., sem hlutaðeigandi stofnun heyrir undir, sé slíkri tilfærslu samþykkur og í sumum tilvikum jafnvel ríkisstj. í heild. Enn fremur eru slíkar tilfærslur á fjárfestingarliðum oflast bornar undir fjvn. eða undirnefnd hennar til endanlegrar ákvörðunar, og ætti það að vera algjör regla.

Hvað varðar þetta tiltekna mál, þ. e. fyrsta áfanga Vesturlínu, þá liggur það ljóst fyrir, að sá ráðh., sem þetta mál heyrir undir, var því andvígur og er því andvígur að þessu máli sé frestað, jafnvel ríkisstj. í heild, þó það hafi ekki komið fram, og þar með var fyrsta forsendan fyrir því, að þetta gæti gerst, að engu orðin. Og það er að mínum dómi rökleysa að halda því fram, eins og gert hefur verið í fjölmiðlum, að stjórnarmenn Rafmagnsveitna ríkisins hafi sagt af sér störfum vegna ágreinings um þetta atriði.

Ég skal ekki lengja þessar umr., herra forseti. Þó að ég sé ekki samþykkur öllu því, sem hér hefur verið sagt, og sumt hafi verið sagt af ekki nægilega mikilli þekkingu og sumpart sem sleggjudómar og fullyrðingar, þá tel ég að þessar umr. hafi orðið til góðs. Ég tel að upplýst hafi verið margt af því sem eðlilegt sé að upplýst sé á Alþingi um þessa stofnun, sem og væri um hverja þá stofnun sem erfiðleikar steðja að og sérstaklega þarf að grípa til ráðstafana svo að eðlilegur rekstur geti haldist í horfi.