30.03.1978
Neðri deild: 68. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2984 í B-deild Alþingistíðinda. (2200)

62. mál, grunnskólar

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson) :

Virðulegi forseti. Mér þótti rétt að láta koma fram afstöðu mína til þessa máls áður en það fer út úr deildinni.

Hér er fjallað um breytingu á skipun fræðsluskrifstofa og fræðslustjóra. Þegar fræðsluhéruðin voru ákveðin samkv. grunnskólalögunum vorn þau í raun miðuð við kjördæmin. Hins vegar eru í 10. gr. grunnskólalaganna, þar sem ákvæði er að finna um fræðsluhéruð, þar eru ekki kjördæmin nefnd, heldur eru tiltekin lögsagnarumdæmi tilgreind sem svið hvers fræðsluhéraðs. Á öðrum stað í grunnskólalögunum er svo rætt um aðild landshlutasamtaka að fræðsluskrifstofunum, fræðsluráðum o. s. frv.

Það er óþarfi að rekja það hér, það er öllum hv. þdm. kunnugt, að á þeim tíma þegar grunnskólalögin voru afgreidd var hér til síðustu umr. á Alþingi frv. til l. um landshlutasamtök. Þess vegna er það, að í grunnskólalögunum eru nokkur ákvæði þar sem stílað er á landshlutasamtökin. En svo gerist það við síðustu umr. um frv. um landshlutasamtökin, að það mætir andbyr sem nægir til þess að stöðva afgreiðslu þess, og það var aldrei tekið upp síðan og hefur aldrei verið afgreitt frá Alþingi.

Nú haldast þessi landssvæði, þau eru auðvitað söm þótt landshlutasamtökin kunni að leggjast niður eða ekki verði lengur þátttaka frá sérhverju sveitarfélagi. Þá kemur auðvitað upp sá flötur, að skipan fræðsluráðanna verður hæpin er landshlutasamtök leggjast niður ellegar ef þau riðlast, því þá er ekki ákvæði lengur í grunnskólalögunum um hvernig með þau mál skuli fara. Þetta frv. leysir ekki þennan hnút. Hann er í sjálfu sér ekki torleystur, og er þá eðlilegt að vísa til lögsagnarumdæmanna, sem eru hin lagalega undirstaða fræðsluhéraðanna, og taka upp ákvæði um það, ef svo tekst til með landshlutasamtök, að þá komi sýslunefndir og bæjarstjórnir í þeirra stað og tilnefna menn í fræðsluráðin. Þetta er atriði sem er nauðsynlegt að taka til athugunar. Það má segja að það bráðliggi ekki á því á þessari stundu, en þetta þarf þó að taka til athugunar fyrr en seinna og koma þessu í horf.

Nú er það svo, að fræðsluhéruðin eru ákaflega misjöfn bæði að mannfjölda og að stærð landfræðilega séð. Aðstaða er ákaflega misjöfn. Hér í Reykjavík er vitanlega langstærsta fræðsluhéraðið sem hefur margfalda íbúatölu á við sum önnur. Aftur eru sum fræðsluhéruð, við skulum segja á Austfjörðum og Vestfjörðum, þar sem samgöngur eru erfiðar og mjög miklar vegalengdir, sbr. það að þjóðvegurinn eftir endilöngu Austurlandskjördæmi er jafnlangur og leiðin frá Reykjavík til Egilsstaða, hvor leiðin sem farin er. En þrátt fyrir þessar misjöfnu aðstæður veit ég ekki annað en allvel gangi, vel vil ég segja, með framkvæmd þessara ákvæða grunnskólalaganna. Menn hafa komið sér á sérhverju svæði allvel saman um þessa framkvæmd, um samstarfið um fræðsluskrifstofurnar. T. d. er mér ekki kunnugt um það, að nokkrum manni hafi komið til hugar að skipta Reykjavík í fræðsluhéruð, þó að hún sé langsamlega fjölmennust fræðsluhéraðanna. Og mér er ekki heldur kunnugt um það, að upp hafi komið slíkar hugmyndir í þeim landshlutum, sem ég nefndi áðan sem dæmi um mjög mikið langræði til sameiginlegra funda, eins og á Vestfjörðum og Austfjörðum. Mér er ekki kunnugt um, að þar hafi komið upp neinar hugmyndir um að nauðsynlegt væri að skipta fræðsluhéraðinu í fleiri fræðsluhéruð. Ég veit sem sagt ekki annað en tekist hafi hið ágætasta samstarf hvarvetna með skólafólki og fræðsluráðum, fræðsluskrifstofunum og fræðslustjórunum, einnig í því fræðsluhéraði sem þetta frv. er komið frá. Það er kannske ekki rétt að segja að það fjalli um mál sérstaks fræðsluhéraðs, því frv. gerir ráð fyrir að heimila kaupstöðum með 10 þúsund íbúa eða fleiri að stofna sérstakt fræðsluhérað. Það er hins vegar flutt fyrir beiðni úr Reykjaneskjördæmi. En einnig þar tel ég mér sé óhætt að fullyrða að hafi tekist ágætt samstarf með skólafólki hvarvetna á svæðinu og fræðsluskrifstofu og fræðslustjóra.

Ég tel að það væri óráð að samþykkja þær breytingar, sem þetta frv. felur í sér, og tel að með því móti væri á vissan hátt verið að brjóta niður skipulag sem ég held að sé skynsamlegt og ég, eins og ég hef þegar tekið fram, tel að hafi gefist vel í fyrstu lotu, það eru ekki nema 4 ár síðan grunnskólalög voru sett. Ég sé ekki að það reki nein nauður til að gera þessa breytingu nú. Og þó að hún yrði nú gerð á þennan afmarkaða hátt sem frv. gerir ráð fyrir, þá þykir mér mjög líklegt að fleiri muni á eftir koma og sæki fast að fá fram breytingar og þá kannske af öðrum ástæðum, t. d. af landfræðilegum ástæðum. Ég tek t. d. aðstæður í Reykjaneskjördæmi. Þar eru tveir kaupstaðir sem eru með yfir 10 þúsund íbúa. En þar er líka afmarkað byggðahverfi, þar sem eru Suðurnesin, sem eru með álíka marga íbúa, og væntanlega mundi fólkið þar telja sér það hagstætt, ef farið væri að skipta upp fræðsluhéruðum á annað borð, að stofna sérstakt fræðsluhérað þar vegna þeirrar afmörkunar landfræðilega sem þar er um að ræða. Og svipað gæti komið upp víða.

Ég hygg að þessi skipting öll kæmi fremur til með að verða til að sundra því, sem í raun og veru saman ætti að vera, og rugla því kerfi sem er komið á og lög nú ákveða. Það má benda á það í þessu sambandi, að kjördæmin eru þegar orðin umgerð ýmiss konar sameiginlegrar starfsemi á fleiri sviðum heldur en fræðslumála. En á þeim vettvangi má benda á að kennarasamtök, nokkuð öflug, eru stofnuð í þessum landshlutum. Þau halda vel saman, ekki síst t. d. í þessu kjördæmi. Mér er persónulega kunnugt um það, að þau hafa nokkuð öfluga starfsemi og hafa haft samskipti við önnur kennarasamtök í öðrum fræðsluhéruðum. Eins er það, að það er ekki nokkur vafi á því, að æskilegt er og hagkvæmt að ýmis sameiginleg þjónusta, sem fræðsluskrifstofurnar ætla að annast og sums staðar er komin á nú þegar og annars staðar kemur siðar, t. d. í sambandi við sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf, er betur komin í stærri heildum og færri heldur en mörgum smærri. En það, sem ég tel nú raunar þýðingarmestu rökin gegn því að gera slíkar breytingar sem þessar, er að fræðsluskrifstofunum er ætlað að vinna hluta af því verki sem unnið er nú eða hefur verið unnið í rn. Og það er gífurlegt atriði að samræma störf fræðslustjóranna þannig að allir vinni og úrskurði á sama veg. Eftir því sem fjölgar þessum skrifstofum, eftir því verður þetta samræmingarstarf örðugra. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt. Ég vil leggja áherslu á það hér, að það hefur verið lögð mikil vinna í það af hálfu rn. og af hálfu fræðslustjóranna að koma á slíkri samræmingu. Það hafa verið haldnir margir fundir og menn hafa reynt að bera sem allra best saman bækur sínar um það, þannig að ekki sé hætta á því, að framkvæmdin sé misjöfn í hinum ýmsu fræðsluhéruðum.

Það er mikið talað um það nú, að það þurfi að draga úr opinberum rekstri, og virðast allir vera sammála um það eða flestir a. m. k. Þá finnst mér skjóta ákaflega skökku við að taka nú inn í lög algerlega að tilefnislausu og þarflausu ákvæði sem í fyrsta lagi heimila nú þegar fjölgun embætta og fjölgun skrifstofa og í öðru lagi eru, eins og ég hef drepið á, mjög líkleg til að draga þann dilk á eftir sér, að um enn frekari fjölgun verði að ræða.

Ég ætla ekki út af fyrir sig að tefja þetta mál neitt hér í hv. d. sem afgreiðir það að sjálfsögðu í samræmi við vilja hv. dm. En mér fannst rétt að láta þessa afstöðu mína koma hér fram við umr. um málið áður en það fer frá deildinni.