31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2988 í B-deild Alþingistíðinda. (2203)

147. mál, orkusparnaður

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta þetta tækifæri ónotað til að lýsa þeirri skoðun minni, að það mál, sem hér er hreyft, er hið mikilvægasta og mjög tímabært að hreyfa því.

Ég sé ekki ástæðu til þess, að ég fari að endurtaka neitt af því sem hv. síðasti ræðumaður sagði um mikilvægi þess, að notkun orkugjafanna sé sem hagkvæmust, né leggja frekari áherslu á það en hann gerði, hversu tímabært er að sinna þessum málum frekar en gert hefur verið. Það er rétt, sem hv. ræðumaður sagði, að þessi hluti orkumálanna hefur legið eftir, svo mjög sem um þau mál hefur verið rætt. Ég skal ekki hér orðlengja um mikilvægi málsins, en ég vil aðeins víkja að tveimur formsatriðum sem varða till. sjálfa.

Þar er gert ráð fyrir að ríkisstj. sé falið að láta gera úttekt á orkubúskap Íslendinga. Í fyrsta lagi felur till. þetta í sér og í öðru lagi að hafnar verði markvissar aðgerðir í því skyni að auka hagkvæmni í orkunotkun þjóðarinnar.

Ég vil vekja athygli á því, að hæstv. iðnrh. hefur falið Framkvæmdastofnun ríkisins eða óskað eftir því, að sú stofnun gerði úttekt á orkubúskap Íslendinga, og það er verið að vinna að þessum málum á þeim vettvangi. Hygg ég, að hv. síðasta ræðumanni sé kunnugt um þetta, enda á hann sæti í stjórn þessarar stofnunar. Ég vildi aðeins að þetta kæmi hér fram.

En þá er varðandi hitt atriðið, að ríkisstj. sé falið að hefja markvissar aðgerðir. Það vill nú þannig til, að við höfum stofnun sem þetta mál heyrir undir og væri eðlilegt að ynni að þessu gagngert, og þar á ég við Orkustofnun. Orkustofnun hefur mjög viðtæku hlutverki að gegna og m. a. því hlutverki sem þessi till. fjallar um. En það verður að segja það eins og er, að Orkustofnun hefur ekki látið þessi mál til sín taka, a. m. k. ekki svo sem vert er og mikil þörf er fyrir. Mér virðist að það sé spurning, hvort það ætti ekki, ef Alþ. gerir samþykkt í þessu máli, að fela þá beinlínis þeirri stofnun, sem er eðlilegast og best hæf til að vinna að þessu, að vinna þetta verk.

Ég bendi aðeins á þetta. Það er ekki gert til þess að gera lítið úr þessari till., þvert á móti. En það gæti verið að till. gæti verið markvissari ef tekið væri tillit til þessara aðstæðna, sem fyrir hendi eru, og þess, sem verið er að gera í þessu efni. En með þessum fáu orðum vildi ég fyrst og fremst leggja áherslu á það, að till. er hin þarfasta og fjallar um hið mikilvægasta mál.