31.03.1978
Sameinað þing: 60. fundur, 99. löggjafarþing.
Sjá dálk 2989 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

147. mál, orkusparnaður

Tómas Árnason:

Herra forseti. Ég vil aðeins nota tækifærið til þess að lýsa ánægju minni yfir flutningi þessa máls, sem fjallar um að gerð verði úttekt á orkubúskap þjóðarinnar og hafnar markvissar aðgerðir í því skyni að auka hagkvæmni í orkunotkun og draga úr henni eftir því sem kostur er á. Það var ekki mín ætlun að setja á langa eða eða undirbúna ræðu um þetta mál, svo sem að vísu vert væri. En það eru nokkrir þættir í þessu máli sem eru að mínum dómi mjög veigamiklir, eins og t. d. það sem kom greinilega fram í umr. í gær á Alþ., hversu misjöfn kjör fólks í landinu ern í sambandi við greiðslur eða kostnað af orku, sérstaklega þó rafmagni. Það þarf ekki að fletta neinum blöðum um að það er verulegur munur á í þessum efnum. Þetta er mjög mismunandi eftir ýmsum stöðum og eftir því hvaða fyrirtæki það eru sem þjóna þeim. Ég hygg að það sé verið að taka þetta saman og gera yfirlit um það. Ég álít að það sé mjög nauðsynlegt, vegna þess að þessi kostnaður skiptir tugum þúsunda á hvert heimill í landinu á ári og þarflegt og nauðsynlegt að vita hvernig menn búa í þessum efnum víðs vegar um landið. Ég er ekki svo fróður að geta gefið tæmandi upplýsingar um það, en það þurfa að koma fram tæmandi upplýsingar um þetta vegna þess að það eru verulegar fjárhæðir sem um er að tefla þegar hafður er í huga venjulegur búskapur meðalfjölskyldu.

Ég held að það væri ákaflega æskilegt, ef það gæti tekist um það samstaða þings og þjóðar, að breyta til um skipulag orkumála, en það er auðvitað einn þáttur þessa máls. Þau mál eru í athugun hjá n. sem ég hygg að hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, sem hér var seinast að tala, er formaður í. Það er ekkert launungarmál, hvaða stefnu við í Framsfl. höfum í þessum málum. Hún er einfaldlega á þá leið, að við teljum eðlilegast að eitt fyrirtæki, sem gæti heitið Landsvirkjun, byggði og ræki raforkuverin í landinu, legði hringtengingu um landið og seldi raforku í heildsölu. Síðan væri hægt að stofna fyrirtæki í einstökum landshlutum sem tækju við orkunni og þjónuðu sínum svæðum.

Ég held að þessi þáltill. sé þarft og gott mál og innlegg í þessi mál sem sífellt eru að verða í raun og veru þýðingarmeiri og þýðingarmeiri, vegna þess að orkan verður sífellt dýrari og dýrari og það er að verða minna um hana. Það kann að vera að menn séu nokkuð svartsýnir í spádómum um ástand veraldarinnar í orkumálum. Menn hafa stundum spáð því, að ýmsar þýðingarmiklar orkulindir væru á þrotum, eins og t. d. kol og olía og ýmislegt fleira. En ég hygg þó að reyndin sé sú, að orkumálin verði e. t. v. eitt erfiðasta vandamál mannkynsins áður en langt um líður. Þess vegna er þýðingarmikið fyrir okkur að reyna að mynda um þessi mál samstöðu. Þetta er í sjálfu sér ekki kannske flokkspólitískt mál, í raun og veru ekki. Mynda þyrfti um þessi mál samstöðu og þjappa mönnum saman til stærri átaka til þess í senn að spara orku og nýta þá framleiðslu sem fyrir hendi er, sem allra, allra best.

Ég vil aðeins með þessum fáu orðum lýsa stuðningi við þá stefnu sem kemur fram í þessari þáltill.